17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er nú til 2. umr., var upphaflega flutt í þinglokin í fyrra og þá fjallaði menntmn. um málið og var mjög sammála flm., hv. 9. þm. Reykv., um að hér væri hreyft athyglisverðu máli sem n. vildi fyrir sitt leyti stuðla að að næði fram að ganga, og skilaði n. í fyrra jákvæðu áliti um þetta mál. Hv. flm. flutti þetta mál enn á ný nú snemma þings í vetur og málinu var enn vísað til menntmn., og hefur það þar verið til skoðunar.

Nú hefur það skeð að menntmn. barst bréf, sem er dags. 24. febr. 1976, frá menntmrn., og þar kemur fram, eins og lesa má á fskj. sem fylgir nál. menntmn., að menntmrn. hefur frá áramótum nú að telja ráðið tvo stórmeistara, Friðrik Ólafsson og Guðmund Sigurjónsson, „til þess að annast skákkennslu í útvarpi og sjónvarpi eftir því sem um semst við aðila og til þess að fara í skóla víðs vegar um landið og efna til fjölteflis til að örva áhuga á skák og veita leiðbeiningar, “eins og segir orðrétt í þessu bréfi.

Með tilliti til þessa var n. öll sammála um að menntmrh. hefði fullnægt þeirri höfuðstefnu sem kemur fram í frv. N. taldi aftur á móti enga ástæðu til þess að liggja á þessu frv. og taldi eftir atvíkum rétt að afgr. það frá n. þannig að því yrði vísað til ríkisstj.

Eins og ég hef sagt, standa allir nm. að þessu áliti og að þessari till. um málsmeðferð.