04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, ítarleg svör um rannsóknirnar á Fljótsdalsheiði varðandi Bessastaðaárvirkjun. Það kom í ljós í svari hans að niðurstaðna væri að vænta í jan. n. k. Það er að vísu nokkuð seinna en okkur voru gefnar upplýsingar um, en gott og vel, við skulum vona að þær liggi þá fyrir og hraðað verði fullnaðarúrvinnslu þeirra niðurstaðna, þannig að við það verði hægt að standa að síðari hluta þessa vetrar, eins og hæstv. ráðh. gaf fyrirheit um, verði tekin fullnaðarákvörðun um þessa virkjun. Það er beðið eftir því að þessi ákvörðun verði tekin, og ég vona að hæstv. ráðh. geri allt sem hann geti til þess að fullnaðarúrvinnslunni verði flýtt svo að þessa fullnaðarákvörðun megi taka.

Varðandi 2. liðinn, þá svaraði hæstv. ráðh. því til að engir erlendir aðilar eða frá erlendum fyrirtækjum hefðu starfað að þessum rannsóknum. Þarna hefðu menn komið í saklausa kynningarferð, verið aðeins að forvitnast og sjá aðstæður. Ég vona að þessi ferð sé eins saklaus og hæstv. ráðh. vildi vera láta og þar búi ekkert undir. En af eðlilegum ástæðum kannske, þá skaut hæstv. ráðh. sér hjá því að svara þeim síðari lið, hvort nokkur áform væru uppi um hugsanlega aðild erlendra fyrirtækja að framhaldsrannsóknum þar eystra. Það er kannske ekki hægt að gefa um það yfirlýsingu á þessu stigi, en mikið hefði mér þótt vænt um að hæstv. ráðh. hefði hreinlega svarað þessu neitandi, að það væru engin áform uppi um að hleypa útlendingum í þessar rannsóknir.

Í Ed. Alþ. í fyrra, þegar þessi mál voru þá til umr., urðu nokkur orðaskipti milli okkar hæstv. ráðh. um þetta mál og þá undraðist hæstv. ráðh. þá fávisku mína að ímynda mér að erlendir aðilar mundu nokkurn tíma koma þarna inn í og ég hefði verið afskaplega þakklátur, þó að jafnvel kannske slepptri fáviskunni, að hann hefði gefið um það yfirlýsingu nú að við þetta stæði áfram, erlendir aðilar kæmu ekkert inn í þessa mynd.