17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. og ég ætla ekki að fara að ræða um mannasiði við hv. 9. þm. Reykv. Ég vil aðeins láta þess getið að menntmrn. þótti rétt, eftir að búið var að ráða skákmennina, að skýra menntmn. frá því, sem og gert var með bréfi. En vegna þess að hv. þm. minntist á afstöðu mína, þegar málið var hér til meðferðar við þinglokin siðast, og kvað mig hafa lýst fylgi við frv., þá held ég að það sé skýrara að komi alveg fram það sem ég sagði þá, það er örstutt. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að rifja það upp:

„Ég er sammála flm. þessa frv. um nauðsyn þess að greiða fyrir því að stórmeistarar okkar geti í ríkum mæli helgað sig skákíþróttinni. Það er nú áreiðanlega orðið þröngt um afgreiðslu þessa máls hér á þessu þingi og óvíst hversu um hana fer. Ég hef rætt þetta ofurlítið við hæstv. fjmrh. og við erum málinu velviljaðir efnislega. Teljum við rétt að það komi fram, m.a. vegna þeirrar tvísýnu sem augljóslega er á um afgreiðslu málsins á þessum síðustu stundum þingsins.“

Mér finnst rétt að þetta komi fram orðrétt og fylgi með í þessum umr.