18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

129. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta örfáum orðum við það sem fram hefur komið hér í umr. um þessa þáltill.

Ég get borið vitni um það að allmikið ófremdarástand ríkir á þessu sviði hvað snertir stofnlánasjóð til handa þessum atvinnugreinum: vörur bifreiðum, flutningabifreiðum á langleiðum og stórvirkum vinnuvélum. Það, sem ég vildi þó bæta við, er einvörðungu þetta, að hér er ekki, a.m.k. að því leyti sem Framkvæmdastofnunin hefur átt hlut að því að koma skipulagi á þessa hluti, ekki verið að leggja til að auka um of fjármagn til þessara atvinnugreina, heldur að ná skipulagi á lánamál þessara atvinnugreina. Þetta eru orðin allviðamikil og stór atvinnufyrirtæki.

Kaupverði einnar vörubifreiðar með þeim búnaði, sem nú tíðkast, nemur allt að 12 millj. kr. Þessir aðilar hafa ekki átt í neitt hús að venda nema viðskiptabanka, og eins og högum er nú háttað hefur öll fyrirgreiðsla verið afar treg af þeirra hálfu. Víða er svo komið með bifreiðar, sem hafa komið til landsins og verið pantaðar með vilyrðum frá viðskiptabönkum að mönnum hefur ekki tekist að leysa þær út. Þessu vandræðaástandi verður að linna.

Varðandi stórvirku vinnuvélarnar, þá hefur þeim að litlu leyti verið sinnt af Iðnlánasjóði, en ekki átt höfði sínu að halla að neinum stofnlánasjóði. Þar er þó um að tefla tæki sem geta skipt tugum millj. í kaupverði.

Ég legg sem sé áherslu á það, að þótt lagt sé til að komið verði á fót stofnlánasjóði vegna atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla, þá er ekki með því verið að leggja til að veita stóraukið fjármagn til þessarar atvinnugreinar, heldur fyrst og fremst að ná skipulagi á lánamál atvinnugreinanna. Það hefur verið allt of tilviljunarkennt með hvaða hætti kaup og innflutningur þessara tækja hefur átt sér stað. Á veltiárum eins og 1973 og 1974 gátu hér um bil hverjir sem voru gengið inn í umboð og gert pantanir á tækjum sem kostuðu jafnvel tugmilljónir króna, án þess að gera frekari grein fyrir fjármögnun til tækjanna. Þess vegna ber brýnustu nauðsyn til að stofnaður verði sjóður sem hefur það hlutverk með höndum að gá að því að hér sé ekki allt laust í reipunum eins og verið hefur undanfarin ár.