18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Jón Helgason:

Herra forseti. Hér er til umr. breyting á fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum. Um það mál er búið að ræða allmikið og ekki þörf á að bæta mörgum orðum við. En ég vil þó undirstrika það, sem hér hefur komið fram, að þessar niðurgreiðslur hafa fyrst og fremst verið notaðar sem hagstjórnartæki. Þær hafa verið notaðar til þess að hafa áhrif á framfærsluvísitöluna, og frá sjónarmiði bænda hafa þær þá ekki alltaf verið notaðar á sem skynsamlegastan hátt vegna þess að horft hefur verið á málið frá því sjónarmiði.

Inn í umr. hafa svo einnig spunnist útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur, sem er nokkuð annað mál, en þær hafa verið notaðar til þess að jafna sveiflur á milli ára, þar sem dálítið hefur verið erfitt að sjá fram í tímann. Við minnumst þess t.d. að fyrir nokkrum árum var hér mikið smjörfjall og erfiðleikar með að selja smjörið. Nú er hins vegar svo komið að ef við förum inn í búðir hér í Reykjavík, þá fæst ekki smjör. Ástæðan er slæmt árferði, eins og við öll vítum, og ég held að það hefði ekki verið hyggilegt ef það hefði verið fyrir nokkrum árum reynt að skapa þar algjört öngþveiti með því að halda þó ekki uppi þeirri mjólkurframleiðslu, sem þá var, með útflutningsuppbótum á smjöri. Ef það hefði ekki verið gert, þá væri ástandið ekki gott núna. Smjörskorturinn er sem sagt vegna sveiflna í framleiðslu fyrst og fremst, en ég held að hann sé ekki af kapphlaupi neytenda að borða sem mest af smjöri til þess að missa nú ekki af neinum krónum sem koma til niðurgreiðslu á því úr ríkissjóði, eins og mér heyrðust vera aðalrökin í ræðu hv. 9. þm. Reykv., það væri sem sagt tap fyrir neytandann hver sá mjólkurlátri sem hann neytli ekki og hvert það kjötkg sem hann borðaði ekki, því að þar með væri hann að varpa frá sér niðurgreiðslu úr ríkissjóði. Mér finnst þetta vera algjörlega fjarstæð rök.

Það hefur komið fram að það stendur ekki á bændum að athuga með breytingar á niðurgreiðslum. En ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram áður hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. og fleirum, að sú leið, sem bent er á í þáltill., kemur ekki til greina að mínu mati.

Hv. 9. þm. Reykv. færði það sem rök fyrir þessari till. að úr því að hér sé um að ræða fjármagn úr ríkissjóði, þá eigi allir að fá jafnt. En fá allir jafnt ef um er að ræða aðrar greiðslur úr ríkissjóði? Hvernig er t.d. með launagreiðslur? Fær verkamaðurinn, sem vinnur hjá ríkinu, t.d. jafnmargar krónur fyrir hverja unna vinnustund og prófessorinn og aðrir þeir sem eru í svipaðri stöðu og hann? Ætli mismunurinn þar sé ekki nokkuð miklu meiri milli manna heldur en sá sem niðurgreiðslurnar valda? Ég held að það sé meiri þörf á að draga úr þessum mismun heldur en mismuninum sem niðurgreiðslurnar valda. En ég skal þó ekki fara lengra út í þá sálma hér. Ég vil aðeins undirstrika það, að sú leið, sem till. gerir ráð fyrir um breytingu á greiðslum úr ríkissjóði, hún er ekki fær.