22.03.1976
Efri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

87. mál, lax- og silungaveiði

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Landbn. hefur rætt þetta frv. Á þskj. 422 skilar n. sameiginlegu nál. og á þskj. 423 er brtt. frá n. sem ég ætla að lesa upp:

„1. Á eftir orðunum „skal annar þeirra vera vatnalíffræðingur“ komi: eða náttúrufræðingur.

2. Á eftir 3. gr. komi svofellt ákvæði til bráðabirgða:

Nú hefur veiðieigandi, sem hafði viðurkenndan rétt til laxveiði í sjó hinn 1. jan. 1976, misst hann við gildistöku laga þessara og skal þá yfirmatsnefnd, samkv. 94. gr. laga nr. 76/1970, ákveða honum hlutdeild í arði þess veiðivatns, eins og fleiri, sem hún, að fengnu áliti veiðimálastjóra.

metur að fá aukna laxgengd við það að réttur til sjávarveiði er felldur niður.

Mati þessu skal lokið fyrir árslok 1976.“ Meginefni þess frv., sem hér er til umr., er að nú liggi hreint fyrir, svo að ekki verði um villst, að laxveiði í sjó verði ekki stunduð við Ísland. Ég tel og við allir flm. og nm. í landbn. að hér sé um merkan áfanga að ræða. Það var þegar fyrir nær 40 árum mörkuð sú stefna, sem hefur verið til sóma íslendingum, að hætta gegndarlausri veiði á laxi í sjó, og það er mál allra, er til þekkja, að það hafi verið gæfuspor. Nokkur býli, sérstaklega á vissum stöðum á landinu, hafa haft þennan æviforna rétt, að veiða lax í net. Það er auðvitað viðkvæmt mál að þrengja að þessum rétti. En skilningur hefur vaxið á gildi þess, að lax fái að komast í árnar óhindraður, og einnig er sú staðreynd, að matsnefndir um veiðirétt og veiðihlunnindi hafa náð þeim góða árangri að arðskrá væri gild fyrir alla þá er hlunninda hafa notið. Einmitt það bráðabirgðaákvæði, sem nú kemur inn til viðbótar, tryggir það að enginn á hér að bera skarðan hlut frá borði.

N. hefur sent frv. til ýmissa aðila. Veiðimálanefnd mælir efnislega með því, og við höfum tekið upp ábendingar hennar í því efni. Fiskifélag Íslands eða stjórn þess mælir eindregið með frv. Frá Landssambandi veiðifélaga komu athugasemdir sem eru þó að ýmsu leyti jákvæðar. Hins vegar telja þeir að sé lögum breytt í þá átt, er frv. gengur út frá, þá væri réttara að ríkissjóður bætti hugsanlegt tap. En við gerum ekki ráð fyrir því, heldur að vatnasvæðið greiði arð samkv. arðskrá. Einnig benda þeir á, að ekki liggi ljóst fyrir hvert lax sé að ganga þó að í net fari, og varpa fram þeirri spurningu eða raunar leggja það til, hvort hægt sé að kanna hvert laxinn var að fara. Það tel ég erfitt verk og varla hægt að sanna svo að um verði sagt nákvæmlega hvert laxinn sé að fara ef hann festist í netum, en næst varla fyrr en dauður. En hvað sem því líður, þá held ég að þeim áfanga sé náð hér á meðal allra manna, bæði veiðiréttareigenda og laxveiðimanna, að þetta skref sé rétt og réttmætt og tímabært.

Ég sé ástæðu til að þakka formanni n., sem hefur unnið alveg sérstaklega vel að lausn þessa máls, verandi einn af flm. málsins, og einnig 1. þm. Vesturl., en liðsinni beggja þessara manna við málið hefur tryggt því framgang. Og það er von mín og trú að þetta verði öllum til sóma í framtíðinni og laxveiðiár á Íslandi muni njóta góðs af.

Fyrir hönd landbn. legg ég svo til að frv. verði samþ. með brtt. sem við leggjum fram og mælum með.