22.03.1976
Neðri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2695 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Frsm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. þetta og orðið sammála um að leggja til að það verði samþ. Það þarf ekki að eyða að því mörgum orðum hve sjálfsagt það er að skáld okkar og listamenn njóti einir þeirra verðlauna, sem þeir ávinna sér á erlendri grund með verkum sínum og að þau séu ekki skattlögð af ríki eða sveitarfélögum. Raunar hefur þetta áður verið svo, bæði þegar Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin á sínum tíma og eins Sonning-verðlaunin. Þá voru sérstök lög sett til að undanþiggja þetta fé sköttum. Sömuleiðis var það svo er Magnús Már Lárusson árið 1970 hlaut svonefnd Henrik Steffens-verðlaun í Þýskalandi, þá voru gerðar ráðstafanir til þess að þau verðlaun væru skattfrjáls með sama hætti og hér er lagt til að verði um verðlaun Norðurlandaráðs. En hér er um almenna löggjöf að ræða, sem eingöngu taki til þessara sérstöku verðlauna, og þess vegna ekki talin ástæða til að setja inn í þessi lög sérstaka heimild vegna annars skálds sem verðlaun fékk í Þýskalandi, hin sömu verðlaun og Magnús Már, Henrik Steffens-verðlaunin árið 1975, en það er Hannes Pétursson skáld, eins og hv. þdm. er kunnugt. Það hafa ekki verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess enn að þau verðlaun yrðu skattfrjáls, en að sjálfsögðu á eitt yfir alla að ganga í því efni. Nefndin hefði þar af leiðandi gjarnan viljað fella inn í þetta frv. ákvæði um að verðlaunin til Hannesar væru skattfrjáls. En hins vegar hefur fjmrh. lýst því yfir að hann muni gera ráðstafanir til þess, að eins verði farið með þau verðlaun og þau sem Magnús Már fékk árið 1970, þ.e.a.s. lagt verði til í fjárlögum að þau verði undanþegin skatti. Í trausti þess að það verði gert og skatturinn verði ekki innheimtur í millitíðinni þá tel ég að nm. muni sætta sig við þá meðferð málsins. Hér er því lagt til að almennt — um alla framtíð væntanlega — verði tónlistar- og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs skattfrjáls, en síðan verði með sérstökum ráðstöfunum tekin afstaða til annarra verðlauna, og yfirlýsing fjmrh. liggur fyrir um það, að verðlaun Hannesar Péturssonar verði skattfrjáls eða hann muni leggja til, að svo verði. við afgreiðslu fjárlaga. Þess vegna flytjum við ekki brtt., en sættum okkur við þessa afgreiðslu.