22.03.1976
Neðri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2695 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess í sambandi við afgreiðslu þessa máls að þakka sérstaklega viðbrögð ríkisstj. og hraða og góða afgreiðslu hv. n. á þessu máli.

Skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs er mikið áhugamál manna almennt í Norðurlandaráði. Til þess að auka gildi þessara verðlauna fyrir þá, sem þau hljóta hverju sinni, er skattfrelsið að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Til þess að auka skilning manna í hverju aðildarríkjanna á því, hvers virði það er hverri þjóð að listamenn hennar fái slík verðlaun sem hér um ræðir, þá eru menn einnig einhuga um og áhugasamir um að það verði lögleitt í öllum löndunum að skattfrelsi tónlistar- og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði frambúðarregla, eins og raunar kom fram í ræðu hv. frsm. að stefnt væri að hér á landi.

Ég vil segja það hér, að það er mjög mikið ánægjuefni þeim þm., sem eiga sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, að verðlaun þessi hafa nú fallið íslendingum í skaut, bæði á sviði tónlistarinnar og bókmenntanna. Við höfum þegar orðið þess vör að þessi tilviljun, ef svo má segja, að bæði þessi verðlaun skyldu að þessu sinni falla íslendingum í skaut, hefur orðið til þess að vekja athygli á menningarmálum íslendinga almennt, auk þess sem það að sjálfsögðu vekur athygli og aukinn skilning á listaverkum þeirra manna sem hér eiga í hlut. Við höfum einnig orðið þess vör, að það hefur komið fram mikill skilningur á þessu atriði af hálfu listamannanna sjálfra. Þeir fluttu báðir mjög athyglisverðar og góðar ræður í ráðhúsi Kaupmannahafnarborgar þegar verðlaunaafhendingin fór fram nú fyrir skömmu, þar sem þeir lögðu áherslu á það í listamannslegri hógværð sinni, að jafnframt því sem þeir gleddust yfir því, að þeim hlotnaðist þessi heiður nú, þá teldu þeir um leið þeirra eigin þjóð vera sýndur mikill sómi og listgrein hvors um sig aukinn skilningur meðal annarra Norðurlandaþjóða. Þetta í sjálfu sér tel ég að hafi mjög mikið gildi fyrir okkar þjóð og vildi þess vegna með þessum fáu orðum þakka þann skilning sem fram hefur komið á þessu máli með afgreiðslu frv. Og ég efast ekki um að það hljóti greiðan gang áfram í gegnum Alþ. — Þökk fyrir.