04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. orkumrh. þarf ekki að fræða þingheim um þau erlendu verktakafyrirtæki sem íslendingar hafa leitað til. Það er alkunna. Það var ekki verið að spyrja um það hér. Það var spurt um þau erlendu stóriðjufyrirtæki sem hér eiga hlut að máli. Og það segir kannske þá sögu sem við höfum verið að hlusta eftir hvort yrði sögð hér í þingsölum í dag að hæstv. ráðh. kýs einmitt að svara á þann veg að veita okkur þessa upptalningu um erlendu verktakafyrirtækin, e. t. v. vegna þess að það er búið að láta ýmis erlend stóriðjufyrirtæki skáskjóta sér, eins og ég orðaði það áðan, inn í stjórnkerfi landsins með ýmiss konar formi og samskiptum við íslenska aðila varðandi stórvirkjanir og stóriðju á Austurlandi. En eins og ég sagði áðan: Ég átti von á að svörin yrðu á þennan hátt, það yrði ekki komið hreint til dyra við hæstv. þingheim hvað þetta snertir, og þess vegna bar ég fram fyrir fram þá fsp. sem útbýtt var hér í dag. Hæstv. ráðh. gefst þá tækifæri til þess að endurskoða hug sinn og ganga aftur fram fyrir þingheim og annaðhvort endurtaka þá þennan stutta fyrirlestur um erlendu verktakafyrirtækin eða gefa þingheimi hreinskilnislega og ítarlega skýrslu um öll þau fyrirtæki og allt það form samskipta, sem átt hefur sér stað, og svara því hreint og skorinort hvort það er rétt sem heyrst hefur, að íslenskir embættismenn séu orðnir aðilar að óformlegum samstarfsnefndum með fulltrúum frá erlendum stóriðjufyrirtækjum varðandi virkjanir og stóriðju á Austurlandi. Þingheimur og landsmenn allir eiga kröfu á því að fá hrein og skýr svör um það hvort þetta er rétt eða ekki, hvort einhverjir íslenskir embættismenn eiga nú eða hafi átt á undanförnum mánuðum eða vikum aðild að slíkum óformlegum samstarfsnefndum.

Varðandi ákvarðanatöku um virkjanir á Austurlandi, þá munu austfirðingar og aðrir landsmenn sjálfsagt taka eftir því að ráðh. tók skýrt fram áðan að það má ekki túlka lýsingu á því að fullnaðarrannsóknum verði lokið seint á þessum vetri sem loforð um að ákvörðun verði tekin. Það kann þó ekki að vera að þetta sé enn ein ábending um það, að hv. þm. Sverir Hermannsson, 3. þm. Austurl., hafi haft rétt fyrir sér í þessum efnum eins og mörgum öðrum í viðtali við Morgunblaðið 19. okt. þegar hann lýsti því yfir „að það væri stefna Sjálfstfl. í orkumálum“, orðrétt, að halda austfirðingum og norðlendingum uppi á nánast snakki með ýmsum rannsóknum og plataðgerðum í virkjunarmálum, meðan ráðh. Sjálfstfl. gætu haldið áfram að beita sér fyrir stórvirkjunum og stóriðju á Suðvesturlandi. Ég tel að þessi sérstaka setning ráðh. í svari hans hér áðan sé ábending um það að í Morgunblaðsviðviðtalinu hafi hv. þm. Sverrir Hermannsson haft rétt fyrir sér og það sé betra fyrir hæstv. þingheim að taka meira mark á orðum hans heldur en orðum hæstv. orkumrh. í þessum efnum.