23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

165. mál, snjómokstur á vegum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans sem vissulega voru skýr og greinargóð. Ég verð hins vegar að harma að ekki skuli það hafa staðist sem gert var ráð fyrir við endurskoðun vegáætlunar á s.l. vori. Það er upplýst af hæstv. ráðh. að það var fallist á að veita þá fjármuni, sem til þurfti eða talið var af hálfu Vegagerðarinnar að til þyrfti til að breyta þessum reglum, á það var fallist með afgreiðslu vegáætlunar. Það gerðist í maí á árinu 1975. Mér þykir því skrýtið ef á þeim tíma hefur ekki verið hægt að sjá það nokkuð fyrir af hálfu Vegagerðarinnar og rn. að þeir fjármunir mundu ekki nægja til þess að þessar reglur tækju gildi. Að sjálfsögðu hefur það verið orðið ljóst þá hversu mikið fjármagn hefur farið veturinn 1975 fram til maí, þannig að það hefði átt að sjást að ekki mundi nægja sú fjárveiting sem þarna er um að ræða.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh. að búið er að breyta reglunum. En það skortir framkvæmdina og mér heyrðist á máli hæstv. ráðh. að hann væri á það svartsýnn að þessi breyting tæki gildi, því að hæstv. ráðh. segir að mál horfi þunglega. Þá er sjálfsagt enginn vafi á því að það er lítil von um að ná þeim fram. Auðvitað er það rétt, að hér er um talsvert fjárhagsvandamál að ræða, en það mál var talið leyst með afgreiðslu vegáætlunar 1975 um vorið. Það hefði þess vegna átt að liggja nokkuð ljóst fyrir hvernig þetta dæmi stóð.

Ég harma þetta allt, en ég vænti þess að hæstv. samgrh. nú við endurskoðun vegáætlunar geri ráðstafanir til þess að hægt sé að hrinda þessum reglum í framkvæmd vegna þess að það er enginn vafi á því að úti á landsbyggðinni, í dreifbýlinu fyrst og fremst, eru þessar mjög svo þröngu og óréttlátu reglur, sem gilt hafa og munu gilda í vetur, mikill hemill á að samgöngur geti verið með eðlilegum og skikkanlegum hætti úti í dreifbýlinu. Það er því brýn nauðsyn á því og þörf að þessum reglum verði breytt í framkvæmd, ekki bara á blaði, heldur verði séð svo um að hægt verði að hrinda þeim í framkvæmd, þannig að þessu oki, mikla oki á sumum stöðum úti á landsbyggðinni verði aflétt og hægt verði með skikkanlegri hætti en verið hefur að halda uppi eðlilegum samgöngum innan héraða.