23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

201. mál, þjóðarbókhlaða

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að svara þessari fsp. nú, m.a. að fengnum upplýsingum frá byggingarnefnd þeirri sem starfar að þessu máli.

Fyrst er spurt: „Hve mikið fé er nú í Byggingarsjóði Þjóðarbókhlöðu?“

Á árabilinu 1968–1976 hafa í fjárl. verið veittar til Byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu alls 73 millj. 250 þús. kr. Nokkrum hluta þessarar fjárveitingar hefur verið kippt til baka, 7 5 millj. 1972 samkv. heimild í brbl. í júlí það ár og allri fjárveitingunni 1915, 15 millj., samkv. bréfi fjmrh., dags. 6. ágúst 1975, og hefur ríkissjóður þannig endurheimt samtals 22.5 millj. Eftir standa þá 50 millj. 750 þús. kr. Undirbúningskostnaður til dagsins í dag er orðinn 15 millj. 151 þús. og eiga því að vera til ráðstöfunar samtals 35 millj 598 þús.

Þá er það önnur spurning: „Hvað líður undirbúningi málsins?“

Þar sem ekki er um það að ræða að byggingarframkvæmdir hefjist á yfirstandandi ári, er undirbúningur nú við það miðaður að framkvæmdir geti undirbúningsins vegna hafist á næsta ári, 1977, en unnið er að því nú að fullgera byggingarnefndarteikningar. Mun byggingarnefnd leggja fram í vor, þegar kemur að tillagnagerð vegna undirbúnings fjárl., nýja framkvæmda- og fjármagnsáætlun.

Og loks er svo spurt: „Hvenær er ráðgert að hefjast handa um bygginguna og hvenær má ætla að byggingu ljúki?“

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að í áætlun þeirri, sem byggingarnefndin lagði fram í maí í fyrra og var miðuð við að framkvæmdir hæfust 1976, þá var gert ráð fyrir að byggingarkostnaði yrði dreift á 6 ár. Miðað við verðlag þá voru tölur þessar 97 millj. á fyrsta ári, 170 millj. á öðru, 205 á þriðja, 240 millj. á fjórða ári, 290 millj. á fimmta ári og 266 millj. á síðasta árinu, 1981. Samtals var áætlunin þá upp á 1 milljarð 268 millj. kr. Ef byggingarframkvæmdir hæfust svo 1977 og gert væri ráð fyrir svipuðum hraða, þá mætti ætla að bókhlöðunni yrði lokið 1982.

Það er ekkert ofmælt, sem kom fram í máli fyrirspyrjanda, það eru mikil vandræði með húsnæði fyrir söfnin og væri auðvitað æskilegt ef hægt væri að hraða framkvæmdum meir en t.d. gert er ráð fyrir hér. En hitt er svo annað mál, að ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til framvindu þessa máls né heldur Alþ., ekki með fjárveitingu, en vitanlega fær Alþ. þetta mál til meðferðar við gerð næstu fjárl. Þess vegna er það, að 3. lið fsp. er mér ekki auðið að svara beinum orðum, því miður.

Í máli hv. fyrirspyrjanda, niðurlagsorðum, kom fram spurningin: Hvernig stendur á því að í öllu peningaflóði nútímans vefst einatt fyrir okkur að uppfylla hinar sameiginlegu þarfir, t.d. varðandi þetta sérstaka mál sem hér er til umr.? Þetta getur nú hver spurt annan og svörin verða sjálfsagt margvísleg. En ég held að meginorsökin sé sú, að samhliða peningaflóðinu, sem við tölum stundum um og sjáum oft merki um, þó að sjálfsögðu hljóti þeir að vera margir sem ekkert hafa aflögu, þá hafa þarfirnar, sem við búum okkur til, því að „þarfir“ eru nú eftir því hvernig við metum hlutina þá og þá, — þá hafa þarfirnar vaxið óskaplega ört og kröfurnar líka og jafnt hvort sem við lítum á kröfur okkar um fjármuni til einkanota og svo aftur til sameiginlegra nota. Ég held að þetta sé meginástæðan fyrir því að ekki gengur fljótar en raun ber vitni að uppfylla hinar félagslegu þarfir, meginástæðan fyrir því að nálega hvert sem við lítum á því sviði, hvort sem er til heilbrigðismála eða hvar helst sem er, samgöngumála t.d., orkumála, þá blasa alls staðar við óleyst verkefni sem kosta mikla peninga að leysa á þann hátt sem hugur stendur til.