23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

201. mál, þjóðarbókhlaða

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt rétt að hafa allt á hreinu milli mín og hv. fyrirspyrjanda. Hann hefur aðeins misskilið það sem ég sagði, sem var orðrétt: „Þar sem ekki er um að ræða að byggingarframkvæmdir hefjist á yfirstandandi ári, er undirbúningur við það miðaður að framkvæmdir geti undirbúningsins vegna hafist 1977.“ Við verðum víst að hafa þetta alveg á hreinu.

Ég held að það sé best að ég spari mér allar yfirlýsingar um þetta sérstaka mál. Þarfirnar eru svo óskaplegar á mörgum sviðum menntamála, bæði um hin sameiginlegu mannvirki líkt og þetta og í skólakerfinu, að ég held að mér sé best að spara allar yfirlýsingar og stór orð. Mér er ljóst að það verður að sjá fyrir tekjuöfluninni, ef ekki fyrst, þá a.m.k. samhliða því sem yfirlýsingar eru gefnar. En ég vil láta þetta vera alveg á hreinu, að ég hafði ekki sagt meira en þetta, auðvitað af því að ég treysti mér ekki til að segja meira. Ég hefði áreiðanlega ekki legið á því ef ég hefði getað gefið sterkari yfirlýsingar.