23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

103. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh, fyrir margháttaðan fróðleik og tölulegar upplýsingar sem hann lét okkur þm. í té í ræðu sinni áðan. Ekki ætla ég mér þá dul að vefengja þær upplýsingar sem hann bar hér fram, enda var um þvílíkan talnafrumskóg að ræða að ekki var auðvelt fyrir menn að rata í gegnum hann.

Ráðh. nefndi þrjár tegundir lána í ræðu sinni: rekstrarlán, afurðalán og svo stofnkostnaðarlán. Ég vil nú gera öllum skýrt og ljóst að það, sem ég var hér að ræða, var aðeins einn þáttur þessara mála, einungis lán til sauðfjárbænda og einungis rekstrarlán.

Það má vel vera að það sé rétt hjá ráðh. að það, sem kom fram í ræðu minni áðan, að á árinu 1958 hefðu rekstrarlánin numið 65% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða, sé ekki að öllu leyti sambærileg tala við þær tölur, sem nú eru notaðar í þessu sambandi. En þessar tölur hafa komið fram á undanförnum tveimur Búnaðarþingum og ekki verið vefengdar þar. En það má hins vegar vel vera að þetta sé rétt ábending hjá ráðh. Þessa tölu hef ég ekki sjálfur reiknað út, heldur fengið frá talsmönnum landbúnaðarins á Búnaðarþingi.

Ég held að aðalatriði þessa máls sé það, og um það munum við hæstv. ráðh. vera sammála, að hvað sem líður þessari viðmiðun og hvaða viðmiðun sem er rétt í þessum efnum, þá hafa þessi rekstrarlán rýrnað mjög verulega á undanförnum tveimur áratugum. Ég er sannfærður um að ráðh. vefengir það ekkí. Og þessi lán eru fyrir löngu orðin algerlega ófullnægjandi, eins og fram hefur komið með skýrum rökum frá fjöldamörgum talsmönnum þessarar stéttar. Á seinustu árum hafa hins vegar þessi lán gróft reiknað staðið í stað. Þar kunna að hafa orðið á vissar breytingar, enda er hér um töluvert flókið mál að ræða og það sem heitir rekstrarlán til bænda í viðri merkingu er margar tegundir lána, bæði það, sem einu sinni var kallað rekstrarlán til bænda, og síðan viðbótarlán og sauðfjársvæðalán og uppgjörslán og einhverjum fleiri nöfnum heita nú þessi lán. Það er því dálítið flókið að fjalla um þetta og veltur mikið á því hvaða tölur menn hafa í höndum. Ég get t.d. upplýst það, að þegar ég var að hlýða á ráðh. áðan og var að bera saman upplýsingar sem ég hafði fengið frá starfsmanni Seðlabankans um þessi lán, þá vildu engar tvær tölur passa saman hjá okkur ráðh. En vafalaust stafar það af því að forsendurnar eru eitthvað mismunandi í þessum tvennum útreikningum.

En ég sem sagt held að aðalatriðið sé það, að í grófum dráttum hafi þessi lán staðið í stað og séu fyrir löngu orðin algerlega ófullnægjandi. Og staðreynd er að kaupfélagsstjórar tveggja stærstu kaupfélaganna hér á landi hafa reiknað það út fyrir mig nú fyrir skemmstu, að fyrir þá hefði útkoman verið mjög svipuð því sem hún hefði verið á árinu þar á undan og að sú mikla hækkun, sem átt hefði sér stað, hefði samt sem áður ekki dugað fyrir öðru en þeim verðlagsbreytingum sem átt hefðu sér stað. Nú kann hins vegar vel að vera að þetta komi eitthvað öðru vísi út á öðrum svæðum og þá einkum á þeim svæðum sem eru enn þá háðari sauðfjárbúskap, þeim kaupfélögum sem eru enn þá háðari sauðfjárbúskap en þessi tilteknu kaupfélög eru. Ég býst við að ástandið hafi verið langverst á Norðausturlandi og Austurlandi, þannig að þegar sem sagt stendur í stað á öðrum svæðum, þá má vera að það hafi batnað þó eitthvað verulega á þeim svæðum og í heildina tekið hafi verið heldur um framför að ræða. Ekki skal ég vefengja það í sjálfu sér. En það virðist vera að batinn, sem átt hafi sér stað í þessu efni, hafi verið svo lítill á seinasta ári að hann sé lítt merkjanlegur viðast hvar og að um sé að ræða enn algerlega ófullnægjandi ástand í þessum efnum. Afleiðingin af því er svo að sjálfsögðu sú, að viðskiptaaðilar sauðfjárbændanna treysta sér ekki til þess að veita þeim þann gjaldfrest og þá viðskiptafyrirgreiðslu sem áður tíðkaðist, og kemur þetta fram með margvíslegum hætti. Ég býst t.d. við að flestir þeir, sem hafa verið að byggja hús á þessum svæðum á seinustu tveimur árum, hafi orðið varir við það að sú fyrirgreiðsla, sem viðskiptaaðilar þeirra hafa veitt í þessum efnum, hefur versnað mjög verulega vegna vaxandi rekstrarfjárskorts einmitt á þessum svæðum.

Ég verð að játa það, að ég hefði kosið að hæstv. ráðh. hefði verið ofboð lítið jákvæðari gagnvart þessari till. en raun bar vitni, þótt ekki væri nú kannske hægt að segja að hann væri neikvæður. En kannske telur hann ástæðulaust að koma þessu máli fram með aðstoð Alþ., þar sem hann hafi önnur ráð til þess í gegnum ríkisstj. og bankakerfi. Við skulum vona að hans lítt jákvæða afstaða stafi fyrst og fremst af þess háttar ástæðum, pólitískum og praktískum, en ekki því að hann sé andvígur efni till. Mér þótti þó að gagnrýni hans á till. væri með litlum rökum þegar hann sagði að varla væri þess að vænta, að Seðlabankinn mundi lána 75% af væntanlegum afurðalánum, eins og gert er ráð fyrir í till. Það er gert ráð fyrir því að lánin byrji í ársbyrjun og séu komin upp í 75% í ágústlok, vegna þess að þá væru rekstrarlánin orðin hátt í það jafnmikil, jafnvel meiri en afurðalánin og væri þá ekki þörf á þeim eða þau gengju sem sagt upp í að greiða rekstrarlánin. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt hjá ráðh. Auðvitað mundi niðurstaðan verða sú, enda er auðvitað tilgangurinn með tillöguflutningnum einmitt sá, að það er verið að færa fram lánsfjártímann þannig, og það er auðvitað megintilgangurinn að lánin komi ekki fyrst og fremst þegar afurðirnar eru tilbúnar, heldur komi lánin miklu fyrr á árinu. Hvort þetta yrði þá eitt og sama lánið, sem um yrði að ræða, eða tvenns konar lán áfram, rekstrarlán annars vegar og afurðalán hins vegar, má auðvitað athuga sérstaklega. Ég reikna með að þetta yrði að vera áfram í því formi sem hér er gert ráð fyrir, vegna þess að þetta er auðvitað fyrst og fremst spurning um form lána og um veðtryggingar og annað þess háttar. Það var af þeirri ástæðu sem er auðvitað eðlilegt að þegar afurðirnar liggja loksins fyrir, þá séu lánin veitt formlega út á þær, og þannig hlyti þetta að vera. Það, sem um er að ræða, er að það er raunverulega verið að veita það fjármagn, sem lagt er í afurðalánin, miklu fyrr á árinu en nú er gert. Breytingin, sem till. okkar snýst um, felur þetta fyrst og fremst í sér, og ég trúi ekki öðru en landbrh. hljóti að vera hagstæður og jákvæður gagnvart slíkri tillögu.

Ég sem sagt vil leyfa mér að vona að ráðh. sé miklu jákvæðari í þessu máli heldur en kom fram í málflutningi hans áðan, vegna þess að annað getur ekki staðist. Ég vil svo sérstaklega þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir ágætar undirtektir hans við þessari till., en öðru hef ég ekki hér við að bæta.