04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er auðvitað ákaflega fróðlegt fyrir þingheim að heyra hvað þeir Lúðvík Jósepsson og Helgi Seljan hafa mikinn brennandi áhuga á orkumálum Austurlands. Einhvern veginn hefur það nú verið einkennileg tilviljun að meðan þeir réðu í fyrrv. ríkisstj. var lítil hreyfing á orkumálum Austurlands og hreyfing kemst ekki á þessi mál fyrr en eftir stjórnarskiptin. Ég vona samt sem áður að við séum samherjar í að ýta þessu máli sem best áfram.

Þegar ég leiðrétti þau ummæli hv. fyrirspyrjanda, Helga Seljans, áðan að ég hefði gefið fyrirheit um að fullnaðarákvörðun yrði tekin síðari hluta vetrar, þá er það engan veginn í mínum huga að á nokkurn hátt verði dregið að taka ákvarðanir. En ég vil ekki, þegar skýrt er frá áætlunum og ummælum sérfræðinga og stofnana að það sé lagt í munn ráðh. sem loforð af hans hendi. Í rauninni skýrði hv. síðasti ræðumaður, Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austurl., þetta ákaflega vel, óafvitandi þó kannske. Hann sagði að einhverjir verkfræðingar hefðu skýrt frá því á s. l. vori eða sumri á fundi með þm. Austurl., að þessum rannsóknum öllum yrði lokið í sept. s. l. Þetta hefur ekki staðist betur en það að rannsóknum sérfræðinganna er ekki lokið enn og þeir segja nú að þeim verði ekki lokið fyrr en síðla vetrar. Ég held þess vegna að það sé betra að hafa nokkurn fyrirvara á. Ég vil ekki gefa fyrirheit um að á einhverjum ákveðnum tíma eða dagsetningu sé öllum rannsóknum og athugunum sérfræðinga lokið og þá verði tekin fullnaðarákvörðun. Hitt vil ég að sjálfsögðu segja hér, sem ég meina og er ánægja að taka það fram hér, að strax og fullnaðarrannsóknir liggja fyrir og áætlanir, þá verður auðvitað tekin fullnaðarákvörðun um virkjunina. Ég vonast til þess að það geti orðið sem fyrst. Hins vegar þegar rannsóknaraðilar telja nú að þetta verði síðla vetrar, þá er hugsanlegt, eins og með fyrri áætlunina, tímaáætlunina, að þetta taki lengri tíma, og enn fremur er hugsanlegt að þegar þessar ég vil segja lokaathuganir þeirra liggja fyrir, þá finnist Alþ. og ríkisstj. að þurfi einhverjar viðbótarupplýsingar. En hinu vil ég slá föstu, að strax þegar fullnaðarrannsóknir og áætlanir liggja fyrir tel ég að þurfi að taka fullnaðarákvörðun um málið.

Ég vil svo aðeins bæta því við út af Austfjarðaför tveggja verkfræðinga frá Sviss að í stóriðjunefndinni eða viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, eins og hún heitir, eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, og ég veit ekki betur en viðræðunefndin hafi samþykkt einróma að verða við þessari beiðni svissneska álfélagsins. Mér hefur ekki verið tjáð að neinn ágreiningur hafi þar verið.

Það, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talar hér um einhverja íslenska embættismenn sem eru komnir beint eða óbeint í slagtog með erlendum auðhringum, það er mér alveg ókunnugt um og væri þá rétt á sínum tíma að hv. þm. leggi fram einhverjar upplýsingar um það ef svo er. Mér er ekki kunnugt um að það sé rétt, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir hér hvað eftir annað, að erlend fyrirtæki séu að skáskjóta sér hér inn í virkjanir og rannsóknir. Mér er ekki kunnugt um það. Hitt er svo öllum kunnugt, að sumum mönnum hefur tekist að skáskjóta sér inn á Alþingi.