23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

103. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Kristján Ármannsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða, þar sem hefur verið komið inn á mína stétt og það sem ég kannast dálitið við, en því miður er ég nú ekki með mikið af tölum, að þakka þó hv. alþm. fyrir það að þeir hafa allir lýst yfir nauðsyn á því að rekstrarlánin væru hækkuð. En einn hv. þm. kom inn á það að líta bæri á málið í heild, og þar er ég sammála vegna þess að rekstrarlánin eru bara lítill hluti af heildinni.

Ég gerði það lítillega að athuga s.l. ár. Það er vissulega rétt að þá tvöfölduðust þessi rekstrarlán og var mikil hjálp í því. En ég tók þetta saman árið 1975. Það var ár sem hjá flestum var dregið úr framkvæmdum. Þá tek ég dæmi út frá afurðalánum og endurgreiðslu afurðalána upp í greiðslur og fengnum rekstrarlánum, fóðurkaupalánum, hafíslánum, áburðarlánum, sem sagt dæmið í heild, og þá virtist mér það í stórum dráttum hjá mínu kaupfélagi, sem er 100% sauðfjárkaupfélag, koma þannig út: Ég tók stöðu bænda á vissum tíma, ég held ég fari rétt með að það hafi verið í júnílok og septemberlok, og með því að taka til þarfa kaupfélagsins, ef svo má segja, 20% af þessari heild, þá kom í ljós að í júnílok var það bil, sem kaupfélagið í raun og veru brúaði fyrir bændur, rétt um 600 þús. kr., en í septemberlok var það komið upp í rétt tæplega eina millj. Þetta eru, eins og ég tók þetta, ákaflega geigvænlegar tölur, þótti mér, og ég hef hreinlega ekki skýringu á því hvernig þetta var hægt. En eins og ég tók fram áðan eru afurðalánin í þessu dæmi, endurgreiðsla afurðalána og uppgjörsgreiðslur, sem koma fyrir seldar afurðir, og áburðarlánin sem hæstv. ráðh. kom inn á, sem sagt öll lán tilheyrandi sauðfjárbúskap. Eins og útlitið er núna sé ég og fleiri, held ég, fram á algjört strand. En ég vil þó taka það fram, að aðalatriðið í þessu máli er kannske ekki það að heildarfjárhæðin vaxi, heldur fyrst og fremst að þetta komi á einhvern hátt í heild jafnt út fyrir árið. Mér er kunnugt um að menn hjá t.d. Sambandi ísl. samvinnufélaga hafa ákveðnar hugmyndir um það og hafa gert yfir það ágætis yfirlit sem ég hef þó ekki kynnt mér nægilega.

Ég vissi ekki að þetta kæmi hér til umr., en ég vildi a.m.k. leggja áherslu á það að rekstrarlánin eru bara ofurlítill hluti af heildarvandamálinu. En þetta dæmi sem ég hef tekið, því miður var ég ekki með það skjalfest, en tók það saman í grófum dráttum, og þetta var á ári sem mjög var dregið úr allri fjárfestingu. Ég vil sem sagt þakka þeim hv. alþm. sem tekið hafa undir að leysa þetta vandamál sem er alveg gífurlegt.