23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

167. mál, hrognkelsaveiðar

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Það bregður nú svo undarlega við að í raun og veru er búið að framkvæma það sem mælst er til að framkvæmt verði í þeirri till. til þál. sem hér var 1ögð fram fyrr í vetur. Er þetta eitt af fleiri dæmum um það að þingstörf ganga hér oft seint. Það hefur ekki komið oft fyrir að vegna annarra þingstarfa hafi staðið á mér að flytja mál þegar röðin hefur verið komin að mér.

En ég verð að segja það að ég er því þakklátur að brugðist var svo hart og vel við að setja reglugerð um það mál sem hér er fjallað um, en það er sem sagt reglugerð sem sett yrði annaðhvort af sjútvrh. eða landbrh. eða báðum, vegna þess að þessi málaflokkur heyrir óneitanlega undir þá báða.

Mér sýndist, þegar ég fór að kanna þessi mál í vetur, raunar strax í haust, að það kynni að stefna í nokkurt óefni um þennan þátt þjóðarbúsins. Það er hér um að tefla verulega fjármuni. Mér kom það raunar á óvart þegar ég sá að útflutt söltuð grásleppuhrogn eru hátt í 600 millj. kr. virði og þetta er tiltölulega stór þáttur í okkar útflutningsverðmætum. Ég hafði hugmynd um það að miðað við afkomu þeirra, sem á liðnum árum og þá ekki síst á liðnu vori stunduðu hrognkelsaveiðar, var hugur í mjög mörgum að taka til við þessar veiðar nú á þessu ári, enda er það mála sannast að þegar kom fram yfir áramót voru uppseld öll hrognkelsa- eða grásleppunet í landinu. Það virtist því einsætt að miðað við þá vitneskju sem fyrir lá hjá Hafrannsóknastofnuninni, miðað við þær kröfur sem gerðar eru um veiðar almennt varðandi upplýsingaskyldu til að fá mat á hver sóknin er og hver aflinn er á hverja sóknareiningu, þá væri nauðsynlegt að setja um þetta reglugerð. Jafnframt yrði tekið á því máli hvernig þessi vara yrði unnin, þar hafa að sjálfsögðu gilt ákveðnar reglur, en að það þyrfti að tryggja rækilega að þeir, sem stunduðu þessar veiðar, hefðu ekki leyfi til þess að verka aflann um borð í sínum skipum við allt aðrar aðstæður heldur en krafist er í landi.

Ég vildi jafnframt leggja áherslu á það með flutningi þessarar till. að rannsóknum yrði haldið áfram og þær yrðu auknar. Mér er kunnugt um það að rannsóknirnar eru núna fyrst og fremst framkvæmdar á vegum útibús Hafrannsóknastofnunarinnar á Húsavík og þar eru uppi áætlanir um það að fylgjast mun betur með hrognkelsagöngum og stærð stofnsins heldur en gert hefur verið hingað til. Ég vil í því sambandi segja það, að mér kom nokkuð á óvart þegar lögð var fram skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar um miðjan okt. s.l. um ástand fiskstofna. Þar eru talin upp flest þau nytjadýr sem veidd eru úr sjó, hvort heldur eru fiskar, krabbar eða skeldýr, nema þessi virðulega fisktegund, hún er þar undanskilin og þar eru engar upplýsingar um hana að finna. Það getur komið til að mínu mati að kveðið verði á um veiðisvæði og að kveðið verði á um veiðitíma á viðkomandi veiðisvæðum, og þó ég hafi ekki kynnt mér nægilega reglugerðina sem sett var, þá efast ég um að þar hafi verið ákveðinn nokkur tími á hverju veiðisvæði út af fyrir sig, en eins og við vitum er veiðitíminn fyrir Norðurlandi allt annar en sums staðar annars staðar við Ísland. Það er t.d. hafin vertíð fyrir Norðurlandi nú. Það er um það bil mánuður þar til vertíð hefst á Ströndum. Það eru tveir mánuðir og jafnvel meira þangað til vertíðin hefst við skulum segja við Barðaströnd. Og þá kemur spurning upp hvort ekki er hægt að tryggja ákveðna friðun með að ákveða hvenær veiðitími skuli hefjast á ákveðnu svæði og hvenær honum skuli lokið, og þá ætti að vera hægt að tryggja að ekki væri verið að veiða stofninn til hins ítrasta, þannig að það fáist einhver hrygningartími sem ætti að tryggja viðgang stofnsins.

Herra forseti. Ég verð að segja það og endurtaka það, að ég er því ákaflega feginn að það hefur þegar verið sett reglugerð um þetta efni. Þar kemur fram að það er hætta á ágangi stórra báta. Það hefur verið ákveðið að þeir skuli þurfa til þess leyfi. Með því er tryggð viss vernd. Og ég vil aðeins vekja athygli á því, svo sem ég sagði áðan, — þetta heyrir bæði undir landbrh. og sjútvrh., — að þarna er mjög mikil spurning um það hvort hlunnindi jarða haldist. Ég lít svo á sjálfur að það sé ekki hægt að hrófla við hinni hefðbundnu veiði sem hefur verið stunduð innan svokallaðrar nethelgi. Hins vegar hafa verið uppi raddir um að það ætti að færa nethelgina lengra frá landi en verið hefur til verndar hinum minni bátum sem stunda þessar veiðar úr landi. Ég tel sem sagt, að það sé ekki hægt að setja reglur eða leyfisveitingar hvað þessar veiðar snertir, en um leið og þetta er komið út úr nethelginni eru þetta veiðar sem heyra undir sjútvrn. — innan nethelgi sem sagt undir landbrn. — og þess vegna hefði ég talið eðlilegt að við setningu reglugerðarinnar yrði þarna samstarf á milli þessara tveggja rn. En það skilst mér að hafi ekki átt sér stað, heldur sé reglugerðin sett einhliða af sjútvrh. En það má segja að það sé gott hvaðan sem gott kemur, og mun ég ekki hafa um það frekari orð.