23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

167. mál, hrognkelsaveiðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er ekki að spyrja að dugnaðinum í vestfirðingum. Hv. 4. þm. Vestf. flutti hér till., en sjútvrh. hæstv., sem jafnframt er 1. þm. Vestf., var búinn að verða við óskum hv. 4. þm. Vestf., áður en hv. 4. þm. Vestf. hafði tækifæri og tíma til að mæla fyrir þessari till., og setja þá reglugerð sem 4. þm. Vestf. var að biðja um. En hvernig sem á því stendur, þá hefur tekist svo til við setningu þessarar reglugerðar að í henni eru atriði sem allir eru ekki alveg fullkomlega sammála um. Ég hef í höndum umkvörtun frá mönnum á Sauðárkróki, sem telja með rökum að ákvæði í þessari nýsettu reglugerð sé með þeim hætti að það valdi verulegum erfiðleikum fyrir útgerð þeirra. Það er einkum það sem stendur í 3. gr., en eins og flm. tók fram er innihald reglugerðarinnar m.a. það, að á bátum, sem eru stærri en 8 tonn, þarf sérstakt leyfi sjútvrn. til þess að veiða hrognkelsi. Það kann að vera að þetta sé réttmætt ákvæði og eðlilegt að rn. fylgist með því að ekki sé verið að nota óhóflega stóra báta í þetta. En í 3. gr. stendur: „Bátum, sem stunda hrognkelsaveiðar, er óheimilt að stunda jafnframt annan veiðiskap, svo sem þorskveiðar í net.“ Þetta atriði kemur ákaflega illa við suma af þessum mönnum. Þetta eru bátar, — nú veit ég ekki hvernig það er annars staðar, — en fyrir Norðurlandi veitir ekkert af því þegar verið er að sækja sjó að vetrinum að þetta séu dálitlir farkostir, því að þar er sjórinn úfinn, eins og menn vita, og allra veðra von og útgerð talsvert meiri erfiðleikum bundin heldur en sums staðar annars staðar. Jafnframt því sem togarar í þorpunum fyrir norðan þurfa yfirleitt að sækja afla sinn um mjög langan veg vestur fyrir land eða austur fyrir land, þá er afar mikil nauðsyn í þessum byggðarlögum að þar sé stunduð útgerð á þessum litlu bátum, og þeir hafa drýgt fyrir sér með því að stunda þorskveiðar, en skreppa á hrognkelsi eftir því sem göngum hefur skilað. Þegar lítið hefur verið um þorskinn, þá hafa þeir sinnt hrognkelsunum. Og eins og flm. benti rækilega á, þá er þetta tímabundinn atvinnuvegur og hrognkelsavertíðin fellur e.t.v. ekki alveg nákvæmlega á þá daga sem þeir stimpla þá í sjútvrn. Þess vegna vildi ég láta þetta koma fram, úr því að hér var komið á dagskrá þetta mál. að jafnvel þó að reglugerðin sé sett af dugnaði, þá eru í henni atriði sem ég held að nauðsynlegt sé að endurskoða með tillíti til kringumstæðna á hverjum stað. Það er heimilað í reglugerðinni að veita undanþágu á báta sem eru stærri en 8 tonn og það er alveg nauðsynlegt, því að á þessum bátum er ómögulegt annað en hafa leyfi til hrognkelsaveiða. En það er ekki, að því er ég hest fæ séð, í reglugerðinni opnað fyrir þann möguleika að þeir geti rennt færi meðan þeir eru í hrognkelsastússinu.