24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér tvær breytingar. Sú fyrri er að rýmka heimild húsnæðismálastjórnar til þess að veita lán til kaupa á eldri íbúðum og til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Í húsnæðismálalögunum hefur verið slík heimild síðan 1970, en bundin við ákveðið hámark fyrir heildarlán á hverju ári. Árið 1974 voru það að hámarki 80 millj. samtals sem húsnæðismálastjórn mátti lána í þessu skyni. Á síðasta þingi var sú upphæð tvöfölduð, þannig að á árinu 1915 mátti lána samtals allt að 160 millj. kr.

Komið hefur í ljós að eftirspurn er mjög mikil eftir þessum lánum og þörfin ákaflega brýn að rýmka þessa heimild. Ljóst er að víða er nauðsynlegt og í rauninni í þágu einstaklinga, sveitarfélaga og þjóðfélagsins í heild að menn eigi þess kost að fá lán til að kaupa eldri íbúðir í stað þess að byggja sér nýjar. Borgarstjórn Reykjavíkur gerði í fyrra ályktun í þessu efni og beindi áskorun til Alþ. um að rýmka verulega þessa heimild. Á árinu 1974 voru umsóknir til húsnæðismálastjórnar um lán til kaupa á eldri íbúðum um 58C að tölu, en á s.l. ári voru þær 1100 að tölu. Þegar húsnæðismálastjórn hefur reynt að greiða úr þessum málum hefur hún ekki treyst sér til þess að veita háar upphæðir varðandi hverja íbúð, þannig að þessi lán, sem hjá húsnæðismálastjórn heita G-lán, voru að meðaltali á árinu 1974 210 þús. kr. fyrir íbúð, en á s.l. ári að meðaltali um 300 þús.

Það er æskilegt að geta veitt fleiri aðilum úrlausn en unnt hefur verið og einnig að hafa upphæðina hærri á hverja íbúð en verið hefur s.l. ár. Húsnæðismálastjórn hefur óskað eftir að fá þessa heimild rýmkaða og er frv. í samræmi við óskir hennar, á þá lund að hámarkið verði niður fellt, en að húsnæðismálastjórn skuli árlega gera till. til félmrh. um þá heildarfjárhæð sem heimilt er að veita á ári hverju í þessu skyni og ráðh. setji síðan ákvæði um þessi efni með reglugerð að fengnum till. húsnæðismálastjórnar. Ég vænti þess að hv. þdm. geti fallist á þessa úrlausn.

Hin breytingin er í 2. gr. og hún er flutt skv. óskum Sambands ísl. sveitarfélaga. Í lagaákvæðinu, sem sett var 1975 um byggingu leiguíbúða sveitarfélaga, var ekki ákvæði um það hvort eða hvenær væri heimilt að selja þessar íbúðir ef sveitarfélögin óskuðu eftir því að selja þær í staðinn fyrir að halda áfram að leigja þær út. Í reglugerð var hins vegar ákveðið að eftir 5 ár í fyrsta lagi mættu sveitarfélög selja slíkar íbúðir. Nú hefur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga farið þess á leit við félmrn. að það hlutist til um að sveitarfélögum verði heimilað án tímaskilyrða að selja umræddar íbúðir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þessi málaleitun er komin til vegna beiðni fjölmargra sveitarfélaga þar sem verið er að byggja slíkar íbúðir. Þær sveitarstjórnir, sem snúið hafa sér til Sambandsins, hafa látið í ljós að fengju þær ekki þessa heimild væri stefnt í ógöngur. Var bent á það að með því að veita rýmri heimild án tímatakmarkana til að selja þessar íbúðir yrði stefnt að því að taka upp sama fyrirkomulag og varðandi Breiðholtsíbúðirnar í Reykjavík, en til þeirra var veitt hliðstæð lánafyrirgreiðsla.

Þegar þetta mál var athugað í m.þótti ekki fært að breyta reglugerðinni á þessa lund, heldur þyrfti til þess lagabreytingu þar sem eingöngu var talað um leiguíbúðir. Þessi breyting í 2. gr. frv. um að bæta við á eftir „lán til byggingar leiguíbúða“ orðunum: „eða söluíbúða“ — er því flutt eftir einróma og eindreginni ósk Sambands ísl. sveitarfélaga.

Ég vænti þess að frv. þetta fái góðar viðtökur í hv. d. og legg til að því verði vísað til 2. umr. og félmn.