24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. góðar undirtektir undir þetta frv.

Út af því, sem hv. 7. landsk. þm., Helgi Seljan, ræddi hér, þá vil ég undirstrika að tilgangurinn með þessu frv., 1. þess, er að auka það fjármagn sem veitt verði til lána vegna kaupa á notuðum íbúðum. Og ég vil bæta því við, að ég tel brýna nauðsyn bera til að meðaltalsupphæð þeirra lána, sem hér er um að ræða, verði hækkuð verulega.

Varðandi ræðu hv. 2. þm. Reykn., Odds Ólafssonar, þá hreyfði hann atriði sem er mjög athyglisvert, þ.e. að ellilífeyrisþegar eða gamalt fólk geti átt kost á því að fá lán til viðgerða á íbúðum sínum þótt ekki sé um öryrkja að ræða. Þetta mál var rætt nokkuð og athugað í félmrn. vegna þess að hv. þm. hafði minnst á þessa hugmynd við mig áður, en það varð niðurstaðan að gera ekki að svo stöddu í stjfrv. till um breytingu að þessu leyti, þ.e.a.s. að rýmka eða stækka þann hóp manna sem gæti fengið þarna lán. En ég tel sjálfsagt að þetta mál verði kannað í félmn., og þá vil ég taka fram að ég tel réttlætismál að þarna verði rýmkað til og ellilífeyrisþegar eigi þess kost að komast þarna inn. En það þarf að setja þar einhverjar skorður við til þess að rýmka þessa heimild ekki óeðlilega mikið. Mér finnst sjálfsagt að þetta mál sé athugað vandlega.

Ég vil taka það fram í sambandi við G-lánin svokölluðu, að ég tel hagkvæmt fyrir þjóðarheildina að stuðlað verði að betri nýtingu eldri íbúða, og sú rýmkun, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, miðar einmitt í þá átt.

Varðandi leiguíbúðirnar hafa komið fram nokkrar aths. frá tveim hv. þm. Hv. 4. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, fagnaði 1. gr. frv. eindregið. Met ég þá yfirlýsingu mikils vegna þess mikla kunnugleika sem hv. þm. hefur á þessum málum, bæði frá sinni tíð sem félmrh. og í húsnæðismálastjórn. En varðandi leiguíbúðirnar lét hann í ljós nokkrar áhyggjur út af því að þessar íbúðir gætu lent í braski. Það er alveg rétt, að þessu þarf að huga vandlega, og ætlunin var að setja þarna nokkrar skorður við í reglugerð. Ef mönnum sýnist svo er mjög athugandi að setja það í sjálf lögin eða láta það koma fram í nál. eða á annan veg að það sé ósk og vilji nm. og þm. að setja þar skorður við um leið og þessi söluheimild er rýmkuð eftir ósk sveitarfélaganna.

Varðandi orð hv. 5. þm. Austf., Halldórs Ásgrímssonar, þá er alveg rétt að með lagabreytingunni frá 1973 um heimild til byggingar 1000 leiguíbúða sveitarfélaga átti að greiða úr mjög miklu vandamáli viða um byggðir landsins. Það voru hins vegar þeir annmarkar á þeirri lagasetningu að ekki var samtímis séð fyrir auknu fé til Byggingarsjóðs í þessu skyni. Þess vegna hefur komið upp sá mikli vandi hversu miklu fé af hinum almennu tekjum Byggingarsjóðs væri hægt að verja í þessu skyni. Ef menn vilja, eins og hv. þm. lét í ljós, láta leiguíbúðirnar hafa algeran forgang, hlýtur það að bitna á hinum almennu húsnæðismálastjórnarlánum til landsmanna yfirleitt og þá e.t.v. á verkamannabústöðum. Ég geri ráð fyrir að ekki séu allir sammála um að þessi tegund íbúða skuli hafa algeran forgang yfir allar aðrar íbúðabyggingar. Húsnæðismálastjórn mun hafa reynt að fara hér nokkuð bil beggja og gæta hófs á þeim efnum eða finna þann gullna meðalveg, veitt töluvert fé til byggingar leiguíbúða án þess að skerða um of hin almennu húsnæðislán.

En annar annmarki var sá, að þess var ekki nægilega gætt hvernig þessar 1000 leiguíbúðir féllu að hinu almenna húsnæðislánakerfi. Í því efni er sérstaklega eitt atriði sem mjög mörgum er áhyggjuefni, og það er að sums staðar hefur dregið úr byggingu verkamannabústaða eða jafnvel verið hætt við áform um byggingu verkamannabústaða vegna leiguíbúðanna. Ætla ég að margir telji það illa farið. Nú var það á s.l. sumri að skipuð var n. til að endurskoða húsnæðismálalögin og gera till. um skipan þessara mála allra í heild. Meðal þeirra verkefna, sem sú n. hefur fengið til meðferðar, eru að sjálfsögðu leiguíbúðirnar og hvernig best verði fundin leið til að greiða úr húsnæðisvandamálum ýmissa byggðarlaga, sem ætlunin var að reyna að leysa með þessu. Þessi n. mun að sjálfsögðu líka kanna hvort unnt sé að samræma þessar hugmyndir við byggingu verkamannabústaða og aðrar byggingar í landinu. Auk þess hefur þessi n. það til meðferðar hvernig hagkvæmast sé að framkvæma þann samning sem gerður var í febrúar 1974 milli verkalýðssamtakanna og þáv. ríkisstj. um byggingu íbúða á félagslegum grundvelli gegn því fyrirheiti lífeyrissjóða innan Alþýðusambandsins að verja á næstu árum 20% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á bréfum Byggingarsjóðs.

Ég vænti þess að hv. félmn. taki mál þetta til gaumgæfilegrar athugunar og afgreiði það jákvætt. Þau atriði, sem hér hefur verið hreyft af einstökum þm., verða að sjálfsögðu rædd í n. og ég vænti þess að hún hafi samráð bæði við félmrn. og húsnæðismálastjórn um málið.