24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af athugasemdum hv. tveggja þm. sem hafa tekið þessu frv. mjög vinsamlega.

Út af þeirri athugasemd, sem kom fram hjá hv. 1. landsk. þm. og hv. 5. þm. Norðurl. e. tók undir, að þetta frv. gæti verið í heildarfrv. um fiskveiðilögsöguna, þá vil ég aðeins benda þeim og öðrum hv. þm. á að frv. um nýtingu fiskveiðilögsögunnar er afmarkað við 200 mílna fiskveiðilögsögu, en þetta frv. er afmarkað við allan ólöglegan sjávarafla sem íslenskt skip kemur með að landi. Þess vegna gæti eftir því frv., sem á aðeins að ná til 200 mílna fiskveiðilögsögu, oft komið upp að menn segðu: Ég var þarna og þarna. Þess vegna töldum við í rn. nauðsynlegt að hafa sjálfstætt frv. til þess að ná þessum ákvæðum öllum, og ég veit að þm. fallast á þetta sjónarmið.

Í sambandi við athugasemd hv. 5. þm. Norðurl. e. að þau sé vafasamt hvort eigi að gefa ráðh. slíka heimild, þá notar vitaskuld enginn ráðh. sjálfur slíka heimild Hann fer eftir sínum ráðgjöfum í rn. og ráðh. hefur ekkert endanlegt úrskurðarvald um þetta. Þó að hann úrskurði getur hver sá sem telur að rn. hafi beitt hann órétti kært til meðferðar dómstóla. Það verður auðvitað að vera hið æðsta stjórnvald í þessum efnum sem hefur vald til að taka þessa ákvörðun, en hins vegar á svo einstaklingurinn rétt á að fá slíkum úrskurði hnekkt fyrir dómstólunum. Það er aðeins verið að koma hér í veg fyrir að menn geti þénað á lögbrotum, og það er mjög ríkur vilji hjá mér að koma í veg fyrir það.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá síðari ræðumanni, að eins og síldveiðarnar gengu til í fyrra, þá hitnaði okkur afar mikið í skapi og við viljum alls ekki að slík meðferð endurtaki sig. Og sama er að segja um allan afla. Eftir því sem ég hugsa meira um smáfiskadráp, þá er ég alltaf að komast nær þeirri skoðun sem réttri að það eigi að skylda öll skip að koma með þann fisk að landi sem drepinn er. Ég held að það sé í raun og veru æðimikil refsing á hvern þann mann, sem drepur ólöglega fisk, að að verða koma með hann að landi og síðan sé þessi afli gerður upptækur. Ég held að það sé töluvert meiri refsing heldur en einhver sektarákvæði sem menn lenda þá í í eitt skipti af 50 eða 100, þess vegna held ég að þetta sé sú lausn sem við eyjum helsta til þess að koma í veg fyrir þennan andstyggilega verknað á sama tíma við erum að kvarta og kveina undan minnkandi fiskgengd, sem rétt er.

Út af frv. um nýtingu fiskveiðilögsögunnar sagði hv. 1. landsk. þm. að hann hefði talið að það hefði átt að vera búið að flytja þetta frv. fyrir nokkrum mánuðum. Ég held að það sé röskur mánuður síðan málið kom frá fiskveiðilaganefndinni og ég skal taka alveg á mig þá sök að frv. er ekki komið fram enn þá. Ég tel það skyldu mína sem sjútvrh. að reyna að ná eins víðtæku samstarfi og hægt er við þá þm. sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls, og það eru menn úr öllum flokkum þingsins. Ætlun mín er sú, að þegar náðst hefur samkomulag um allt sem við getum kallað stefnumörkun í þessu máli, þá verði þetta frv. flutt af þm. úr öllum flokkum, en ekki sem stjórnarfrv. Það hefur verið gert áður um frv. sama efnis. Þrátt fyrir það að fiskveiðilaganefndin hefur skilað af sér er enn þá nokkur ágreiningur sem ég vil gera ítrustu tilraun til þess að jafna. Það fær enginn allt það sem hann vill sjálfur. Við verðum að leita viðtæks samstarfs í sambandi við frv. Hitt verður svo að ráðast, þegar frv. er komið inn á Alþ., að það geta komið fram till. frá hinum ýmsu héruðum og þingmönnum úr einstökum kjördæmum og þá verður bara að ráða atkvgr. um þær till. Höfuðatriði málsins er að þetta frv. fari í gegn, ekki endilega á þessu þingi. Ég tel mjög æskilegt að það fari í gegn á þessu þingi nema þm. séu almennt á því að frv. eigi ekki að afgreiða af því að það kemur svo seint fram. Það gerðist líka fyrir þremur árum, þá féllst þáv. sjútvrh. á að láta frv. daga uppi á því þingi. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég ætla hvorki að lýsa yfir einu eða öðru í þeim efnum. Ég ætla ekki að berjast eins og ljón fyrir því að frv. verði afgreitt ef það kemur fram mjög ákveðinn vilji þm. að lögfesta það ekki á þessu þingi, þó að ég telji það hins vegar mjög æskilegt.

Þetta mál verður sennilega til umr. síðar svo að ég ætla ekki að orðlengja frekar um það. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram í sambandi við þessar athugasemdir, en ég vona að eftir að ég hef gefið þessa skýringu séu þm. á eitt sáttir um nauðsyn þess að þetta frv. nái fram að ganga.