24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

213. mál, veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Að þessu frv. um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum. Það er í samræmi við skoðanir okkar íslendinga og aðgerðir í hafréttarmálum að einstök ríki verði að geta haft hemil á eða stjórnað veiðum þegna sinna á fjarlægum miðum fram yfir það sem byggt er á viðurkenndum alþjóðasamþykktum. Íslensk stjórnvöld hafa í dag ekki vald til stjórnunar veiða íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelginnar nema til grundvallar liggi gild alþjóðasamþykkt sem Ísland er aðili að. Ber orðið brýna nauðsyn til að rýmka heimildir til stjórnunar veiða íslenskra skipa utan landhelgi og kemur þar tvennt til. Annars vegar getur verið að íslendingar vilji eða þurfi að ganga lengra í takmörkun veiða en alþjóðasamþykktir gera ráð fyrir, og hins vegar getur og hefur komið upp sú staða að íslendingar geti ekki samþykkt tilteknar reglur sem alþjóðanefndir setja, en vilji samt halda uppi veiðum og takmarka þær þá sjálfir.

Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna síldveiðarnar í Norðursjó. Íslendingar hafa að ýmsu leyti viljað ganga lengra til takmörkunar þessara veiða en Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur viljað samþykkja, og eins hafa danir sett ýmis skilyrði fyrir löndunarréttindum í Danmörku sem horfa til takmörkunar veiðanna umfram það sem Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur samþykkt. Eins og fyrr segir, er ekki lagaheimild fyrir hendi til þess að takmarka eða stjórna veiðum íslenskra síldarbáta í Norðursjó í samræmi við þetta. En vegna góðrar samvinnu við útgerðarmenn og skipstjóra íslensku bátanna og við Landssamband ísl. útvegsmanna hefur þetta blessast til þessa. Þó hafa komið upp tilvik þar sem tilfinnanlega hefur komið í ljós skortur á lagaheimild til að setja bátunum veiðireglur.

Sem dæmi um alþjóðasamþykkt, sem íslendingar hafa ekki talið sig geta samþ., má nefna samþykkt Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar um loðnukvóta við Nýfundnaland og skiptingu hans á milli þjóða. Íslendingar hafa getað fallist á ákvæði um heimakvóta á þessu svæði, en hins vegar hefur engan veginn verið hægt að samþ. skiptingu hans milli aðildarríkja. Skiptingu þessari var þannig háttað að nánast öllum kvótanum var skipt upp á milli norðmanna og rússa, einungis vegna þess að þessar tvær fiskveiðiþjóðir urðu fyrstar til þess að fara að veiða loðnu á þessu svæði fyrir u.þ.b. 3–4 árum. Íslendingar byrjuðu þarna veiðar í fyrra og hefðu, ef þeir hefðu verið bundnir af samþykktinni, aðeins mátt veiða þarna 5. þús. tonn af loðnu. Nótaskipið Sigurður héðan úr Reykjavík veiddi þarna rúmlega 15 þús. tonn af loðnu í fyrra, og það er líklegt að fleiri íslensk nótaskip vilji reyna þessar veiðar á komandi sumri. Líklega eru allir sammála um hve brýnt það er að finna þessum skipum verkefni, og við íslendingar teljum að við eigum að hafa fullan rétt á því að keppa við rússa og norðmenn í þessum veiðum úti fyrir strönd Kanada þótt þessar tvær þjóðir hafi byrjað veiðarnar tveim árum á undan okkur. Við verðum þó að geta haft stjórn á veiðum okkar þarna, bæði vegna þess að við viljum auðvitað ekki að farið verði yfir þann heildarkvóta, sem vísindamenn mæla með, og eins erum við að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að taka tillit til óska strandríkisins Kanada ef það skyldi síðar meir vilja auka hlutdeild sina í þessum veiðum á kostnað annarra þjóða og þ. á m. okkar íslendinga.

Af þessum tveimur dæmum ætti að vera ljóst hve brýn nauðsyn er á því að frv. þetta verði samþ., auk þess sem ég vísa til þess sem segir í athugasemdum. Þá ber þess að geta, að eftirlit með því að haldnar séu reglur um veiðar í fiskveiðilandhelginni getur orðið erfitt ef ekki er hægt að setja sams konar reglur um veiðar utan landhelginnar. Íslendingar hafa t.d. strangari reglur um lágmarksstærðir fisktegunda og um möskvastærðir botnvörpu en ákvæði alþjóðasamþykkta eru um sama efni. Þess vegna þykir nauðsynlegt vegna eftirlits og eðli málsins samkvæmt að íslensk skip séu háð sömu reglum að þessu leyti, hvort heldur þau veiða innan eða utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.