25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 81 hafa hv. þm. Alþfl. flutt till. um afnám tekjuskatts af launatekjum. Hv. 1. flm. þessarar till., hv. 9. þm. Reykv., hefur nú gert grein fyrir henni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela þeim aðilum, sem nú starfa að endurskoðun gildandi skattalaga, að miða till. sínar m.a. við þessi grundvallaratriði“ — sem síðan eru talin upp í 12 liðum.

Í þessari þáltill. er að finna ýmis athyglisverð atriði sem að sjálfsögðu verða skoðuð í sambandi við þá endurskoðun sem nú er unnið að í skattamálum, en eins og hæstv. Alþ. er kunnugt hefur á undanförnum mánuðum verið unnið á vegum fjmrh. að ýmsum athugunum og undirbúningi að breytingu skattalöggjafar sem m.a. varðar ýmsa liði í fram kominni þáltill. Atriði í þessari þáltill. eru misyfirgripsmikil og vægi þeirra misjafnt að mínu mati.

Sú staðreynd, að heildarlöggjöf um tekjuskatt og eignarskatt hefur ekki verið sett síðan 1962, talar sínu máli. Þær öru breytingar, sem orðið hafa í þjóðfélaginu og í samkeppnislöndum okkar, krefjast þess að lögin séu aðlöguð aðstæðum hverju sinni, jafnframt því sem vart mun finnast önnur löggjöf sem snertir alla borgara beint eða óbeint og hefur áhrif á nær öllum sviðum þjóðfélagsins.

Það hefur lengi verið um það deilt hvort beinir skattar skuli á lagðir eða tekna ríkissjóðs aflað með óbeinum sköttum. Stefna Sjálfstfl. í þessum málum hefur verið skýr og var skýrt mörkuð 1960, en lagt var til í þeirri löggjöf, sem þáv. ríkisstj. setti, að almennar launatekjur yrðu tekjuskattsfrjálsar. Það mun ekki heldur ofmælt að Sjálfstfl. hafi lengst af verið einn um að vilja leggja aðaláherslu á óbeina fremur en beina skatta, þótt nú sé svo komið málum að heyra megi raddir í öðrum flokkum sem vilja stefna í þessa átt og jafnvel ganga svo langt að afnema tekjuskatt alveg af einstaklingum eða af launþegum, eins og segir í þáltill. þeirri sem hér um ræðir.

Hin breytta afstaða launþegasamtakanna til óbeinna skatta kom glöggt í ljós í sambandi við kjarasamningana 1974 þegar beinu skattarnir voru lækkaðir, en þeir óbeinu hækkaðir, sbr. lög um skattkerfisbreytingu sem samþ. vorn það ár. Svipuð afstaða launþegasamtakanna kom fram við kjarasamningana á s.l. ári, þegar nokkrar stefnumarkandi og mikilvægar breytingar voru gerðar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt sem voru bæði líður í þeirri endurskoðun skattalaganna, sem nú fer fram, og þáttur í því að greiða fyrir lausn þeirrar kjaradeilu sem þá átti sér stað.

Ég mun fara örfáum orðum um þær breytingar sem gerðar hafa verið í tíð núv. ríkisstj., þ.e.a.s. nánar tiltekið s.l. vor. Þegar allt er talið má ætla að beinir og óbeinir skattar hafi verið lækkaðir með lögunum frá apríl 1975 um 2 milljarða 250 millj. kr., þar af tekjuskattur einstaklinga um 1 milljarð og útsvör um 400 millj. Samfara lækkun tekjuskatts voru teknar upp nýjar reglur sem fela í sér tekjujöfnun og aukið réttlæti. Persónufrádrætti frá tekjum var til fulls breytt í persónuafslátt frá skatti, sem þýðir að margir sem lítið eða ekkert gagn hafa af frádrætti, geta nýtt sér afsláttinn. Persónuafsláttur er nýtanlegur til greiðslu útsvars, þannig að fjöldi framteljenda þurfti ekki að greiða útsvar eða fékk útsvar greitt að hluta. Útborgun afsláttar, sem tekin hafði verið í smáum stíl upp 1974, var felld niður nema hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, en sú útborgun var sameinuð við tekjutryggingu almannatryggingakerfisins. Sérstakar reglur takmörkuðu þátttöku persónuafsláttar í útsvari. Allar ívilnanir ríkissjóðs vegna barna voru sameinaðar í svokallaðar barnabætur, sem eru nánast útborganlegur afsláttur með börnum. Reyndist þetta koma sér einkar vel fyrir barnmargt fólk með miðlungstekjur og lágtekjur. Skattlagningu sambýlisfólks var breytt því til hagsbóta. Mér er tjáð af ýmsum aðilum, þ. á m. forustumönnum verkalýðsfélaganna, að hinn almenni launþegi telji þær breytingar, sem gerðar voru, mjög til bóta. En greinilegt er að betur má ef duga skal, og því er unnið að frekari tillögugerð, eins og ég gat um áður og ég vék að í fjárlagaræðu minni s.l. haust. En hér er um vandasamt og tímafrekt verk að ræða, eins og ég veit að hv. flm. þáltill. þeirrar, sem hér er til umr., gera sér grein fyrir.

Þar sem ég á von á því að geta gert Alþ. grein fyrir þeim athugunum, sem hér er vikið að, tel ég ekki ástæðu til þess að ræða einstaka liði þáltill. í smáatriðum. Þó get ég ekki látið hjá líða vegna þess, er fram kemur í grg., að nefna nokkrar tölulegar staðreyndir er varða mál þetta og ég hef fengið upplýsingar um hjá skattyfirvöldum.

Álagður tekjuskattur á einstaklinga nam á s.l. ári rúmlega 7 milljörðum 653 millj. kr. Greiddar barnabætur gegnum skattkerfið, annaðhvort með skuldajöfnun eða endurgreiðslu, námu tæpum 2 milljörðum 625 millj. kr. Og þátttaka ríkissjóðs í greiðslu útsvara lágtekjufólks nam milli 750 og 800 millj. kr. Fjöldi einstaklinga, sem bar að telja fram 1975, var 104 680, þar af báru tekjuskatt 53 786 eða 51.38%, en engan tekjuskatt báru 50894 eða 48.62%. Þeir aðilar, sem telja verður að hafi haft að aðalstarfi atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, eru áætlaðir 12 369 eða 11.82% framteljenda, en í grg. er gert ráð fyrir 7 500, sem stafar af því að þá munu bændur ekki taldir með. Þar af báru tekjuskatt 6 893 eða 55.73 % þeirra, en tekjuskattslausir voru 5476 eða 44.27 %. Af heildarfjölda tekjuskattsgreiðenda var hundraðshluti þeirra aðila 12.82%, en af fjárhæð tekjuskattsins 19.43%. Af heildarfjölda skattlausra aðila var hundraðshluti þessa hóps 10.76%. Fjöldi þeirra framteljenda, sem fengu greitt útsvar sítt að öllu leyti eða hluta, var milli 4.5 og 49 þús. af 99 347 einstaklingum sem útsvör báru eða á milli 45 og 49% allra útsvarsgjaldenda. Af álögðum tekjuskatti á einstaklinga á s.l. ári er áætlað að tekjuskattur þeirra, sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi höfðu með höndum, hafi numið 1.5 milljörðum eða 19.5% álagðs tekjuskatts, þótt fjöldi þessara gjaldenda hafi ekki numið nema 13% af heildarfjölda gjaldenda. Þegar frá hafa verið talin ýmis félög, sem enga starfsemi hafa, þ.e.a.s. þau félög sem hætt eru starfsemi eða aldrei hafa hafið starfsemi þótt skráð séu sem félög, eru tekju- og eignarskattsskyld starfandi félög um 4300, þar af greiða 2722 þeirra eða um rúm 63% tekjuskatt sem í heild nam rúmlega 1 milljarði 215 millj. kr. á árinu 1975. Í grg. þáltill. er gert ráð fyrir 5190 félögum, og stafar það af því að þá eru meðtaldir sjóðir og stofnanir sem ekki eru skattskyld, en greiða önnur gjöld, svo sem tryggingagjöld, og hafa þar af leiðandi verið tekin með. Einstaklingar og félög í atvinnurekstri eru í heild tæplega 16 700 af tæpum 109 þús. framteljendum eða 15.32% framteljenda. Þessir aðilar báru rúma 2 milljarða og 700 millj. kr. af 8 milljörðum 869 millj. kr. álagðs tekjuskatts á s.l. ári eða um 30.5%. Auk þess báru skattskyldir einstaklingar og félög í atvinnurekstri um 5 milljarða og 600 millj. kr. af svonefndum atvinnurekstrargjöldum, þ.e. aðstöðugjaldi, landsútsvari, íbúðalánasjóðsgjaldi, launaskatti og tryggingagjöldum, svo og báru einstaklingar í atvinnurekstri um 1 milljarð 150 millj. til 1200 millj. kr. í útsvör eða um 15% allra álagðra útsvara þótt gjaldendafjöldi þeirra sé innan við 12%.

Í grg. þáltill. kemur fram að önnur meginbrtt. feli m.a. í sér að á einstaklinga í atvinnurekstri verði lögð útsvör hliðstæð útsvörum launþega. Í þessu sambandi þykir rétt að benda á að sveitarfélög hafa heimild til að áætla útsvarsstofn einstaklings í atvinnurekstri, sbr. ákvæði 4. málsgr. 23. gr. l. nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Það er því á valdi hverrar sveitarstjórnar hvort þessi heimild er notuð eða ekki.

Þá kemur fram í grg. þáltill. að framkvæmd tekjuskattsinnheimtu sé óhemjudýr og miklu dýrari en innheimta söluskatts, og vék frsm. till. að því áðan. Það mun rétt vera í sjálfu sér að innheimta söluskatts er ódýrari en innheimta tekjuskatts. En gæta verður þess í öllum umr. um kostnað við framkvæmd tekjuskattsálagningar að í tengslum við þá framkvæmd er ekki eingöngu álagning tekjuskatts, heldur og eignarskatts, ákvörðun barnabóta til um 34 500 aðila á s.l. ári, ákvörðun um þátttöku ríkisstj. í greiðslu útsvara lágtekjufólks til um 45–49 þús. aðila. Enn fremur byggist á framkvæmd tekjuskattsálagningar öll álagning útsvara í landinu sem nam rúmum 7 milljörðum 810 millj. kr. á s.l. ári á tæpa 100 þús. aðila. Þá tengist þessu beint og óbeint eftirlit og álagning atvinnurekstrargjalda og landsútsvars á atvinnurekendur, sjóði og stofnanir sem nam á s.l. ári 6 milljörðum 229 millj. kr., og að lokum endurskoðun sölugjalds, álagðs 1974 um 13 milljarða 591 millj. kr.

Þótt tekjuskattskerfið í núverandi mynd yrði lagt niður þarf að vera fyrir hendi í framtíðinni framkvæmdakerfi sem sæi fyrir grunni til útsvarsálagningar og næði til jafnmargra aðila og tekjuskattskerfið í dag, auk þess sem framkvæma þyrfti álagningu og eftirlit með umræddum atvinnurekstrargjöldum og sölugjaldi. Jafnframt má á það benda að gögn til álagningar tekjuskatts eru í verulegum mæli nýtt til tölulegra athugana fyrir Hagstofu Íslands og Þjóðhagstofnunina. Auk þess byggjast á upplýsingum úr tekjuframtölum ýmsar vottorðagjafir, svo sem fyrir Tryggingastofnun ríkisins, Húsnæðismálastofnun ríkisins, Lánasjóð námsmanna o.fl.

Í fjárl. yfirstandandi árs er byggt á því að raunveruleg álagning tekjuskatts nemi um 9.9 milljörðum kr., greiddar barnabætur 3 milljörðum 281 millj. og þátttaka ríkissjóðs í greiðslu útsvara lágtekjufólks um 940 millj. til 1 milljarðs. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé ætlun flm. þessarar till. að vilja afnema greiðslu barnahóta eða þátttöku ríkissjóðs í greiðslu útsvara lágtekjufólks, en slíkt yrði óframkvæmanlegt ef það kerfi í sambandi við tekjuskatt, sem nú er, yrði með öllu lagt niður. Fyrir utan ýmiss konar afmörkuð vandamál, ef afnema á tekjuskatt af launatekjum, er rétt að hafa í huga að slík lausn hefur bæði í för með sér kosti og galla. Kæmu þá ýmis ný vandkvæði til sögunnar. Hætt er við að sumum þætti verða leit að breiðu bökunum, eins og það hefur verið orðað, og þau vandamál, sem nú eru í sambandi við eftirlit snúast við. Þá yrði það erfið þraut fyrir stjórnmálamenn að veita þeim uppbætur sem töpuðu á stökkbreytingu frá beinum sköttum í óbeina skatta og reyndar erfitt að sjá hvernig það yrði framkvæmanlegt nema með því að hafa hliðsjón af tekjum, og þá er aftur komið upp vandamál í sambandi við afmörkun þess hóps sem fá ætti bætur. Einnig er rétt að hafa í huga tengingu tryggingabóta við tekjur og framtíðarskipan mála varðandi tengsl skattkerfis og tryggingakerfis.

Ég hef vikið að þessum atriðum hér til þess að sýna fram á hversu vandasamt verk það er að vinna að endurskoðun skattalaga. Það hefur m.a verið mjög til umræðu hér í okkar landi að breyta frá söluskattskerfinu núverandi í virðisaukaskatt og þá gjarnan vitnað til nágranna okkar og reynslu þeirra af virðisaukaskattskerfinu. Öll sú athugun, sem fram hefur farið, hefur beinst að því að réttara væri að taka upp virðisaukaskattskerfið. En nú er komið í ljós, m.a. hjá okkar næstu nágrönnum, í Noregi, að reynsla þeirra af virðisaukaskattskerfinu virðist ætla að verða með þeim hætti að fram er komin till. um að söðla þar um og taka upp aftur söluskattskerfið sem þeir áður höfðu. Þetta sýnir okkur að það er enginn einn skattur sem leysir öll vandamál eða nálgast fullkomnun þegar allra sjónarmiða er gætt. Þess vegna ætti að gæta þess að hlaupa ekki öfganna á milli og því rís sú spurning hvort heppilegt sé að leggja með öllu niður beina skatta.

Eins og ég gat um áður, mun ég á næstunni gera hv. Alþ. grein fyrir þeirri vinnu sem í gangi hefur verið í fjmrn., auk þess sem ég á von á því að í upphafi næstu viku verði sú vinna komin það langt að þingmannanefnd sú, sem þingflokkarnir hafa tilnefnt í, geti fengið til meðferðar þau gögn sem fyrir liggja. Því tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till. hér. En eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar munu að sjálfsögðu þau atriði, sem hér er bent á, fá þá skoðun sem eðlileg þykir. Verður gerð grein fyrir því, hvort heldur á þessu þingi eða síðar, þegar áfram verður haldið þessari endurskoðun, hver niðurstaða þeirrar skoðunar hefur orðið.