25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. 1. flm. afsökunar á því, að ég heyrði ekki upphaf hans máls, en ég hélt nú satt best að segja á tímabili að það væri búið að ræða þessa till. hér, enda langt síðan hún var lögð fram, og þó að flm. leggi til að hún verði samþ., þá trúi ég vart að hann leggi á það mikla áherslu þar sem lítil áhersla hefur verið á það lögð að koma þessu máli til n. eins og raun ber vitni.

Hann gat þess að það hefði um áratugaskeið verið reynt að leiðrétta tekjuskattskerfið og það er rétt. Og nú þykir hv. flm. og mér skilst öllum Alþýðuflokksmönnum vera nóg komið og það sé kominn tími til að gefast endanlega upp við að leiðrétta þetta kerfi, heldur leggja það niður. Ég hafði vænst þess að það yrði gert stórt og myndarlegt átak í því að endurskoða tekjuskattskerfið og leiðrétta þar augljósa vankanta og misrétti. Hv. flm. hefur lengi verið í ríkisstj. og ég vænti þess að hann hafi reynt þar skilmerkilega að bæta þetta kerfi, en þó efa ég það, því að að mínum dómi hefur í raun og veru ekki verið gerð nein alvarleg tilraun til þess að laga þetta kerfi á undanförnum áratugum. Það er því að mínum dómi nokkuð fljótráðið að leggja til að leggja það niður, jafnvel af mönnum sem hafa ekki gert tilraun til að lagfæra það.

Því var lýst yfir hér á Alþ. í fyrravetur, bæði af hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., að það yrði lagt fyrir Alþ. frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, og það var meira að segja sagt að það yrði gert nú í upphafi þings. Því miður hefur ekki getað orðið af því og tel ég það miður. Ég verð að segja það, að mér þykir nokkur dráttur verða þar á, en vænti þess, og þakka hæstv. fjmrh. fyrir að upplýsa það, að niðurstöður muni nú loks vera að koma. En það er vissulega ekki nægilegt að fá niðurstöður viðkomandi nefndar. Alþ. þarf að fjalla um þetta mál og fjalla um það í alvöru, vil ég segja, en ekki með því að meðhöndla þau mál á þeim grundvelli sem fram kemur í þessari þáltill. og öðru sem hefur verið lagt fram hér á Alþ. á undanförnum árum í skattamálum. Það verður að gera af meira raunsæi og meiri alvöru.

Flm. gat þess að það væri stefna Alþfl. að leggja niður tekjuskatt, aðrir jafnaðarmannaflokkar hefðu svipaða stefnu og mér skildist jafnaðarmannaflokkar hér í nágrannalöndunum. Ég þykist vita að hann eigi þar m.a. við verkamannaflokka á hinum Norðurlöndunum, og ég leyfi mér að efast um að þeir hafi tekið upp þessa stefnu. Ég veit ekki betur en það hafi í raun og veru enginn verkamannaflokkur verið meira ráðandi á Norðurlöndum en Verkamannaflokkurinn í Svíþjóð, og hvernig standa þessi mál í Svíþjóð? Mér er kunnugt um það að hátekjumaður sem er í þeirri aðstöðu að geta jafnvel skammtað sér laun, ef hann er kominn ofarlega í skattstigann og fær milljón í laun, þá heldur hann eftir 140 þúsundum. Þetta vænti ég að sé rétt, mér hefur verið tjáð þetta af áreiðanlegum aðilum. Tekjuskattskerfið í Svíþjóð er því mun áhrifameira en tekjuskattskerfið hér, og er þó um að ræða land þar sem verkamannaflokkur hefur ráðið áratugum saman. Að vísu hafa komið fram mjög margar veilur í skattkerfinu í Svíþjóð, en ég leyfi mér að draga í efa að það hafi verið lagt til í því landi að mæta því máli með því að leggja kerfið niður. Það er gott og vel að þetta sé stefna Alþfl. hér á landi, en ég leyfi mér a.m.k. að efast um að verkamannaflokkarnir á Norðurlöndum hafi tekið þetta mál jafnskilmerkilega upp í sina stefnuskrá.

Í þessari þáltill. er vikið að mörgum atriðum. Ég ætla að leyfa mér að fara í örstuttu máli yfir nokkur af þeim atriðum sem flm. telja hér upp.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að það skuli greint á milli þess hvort skattgreiðandi eða launþegi hefur tekjur af atvinnurekstri eða er launþegi. Um þetta er í sjálfu sér ekkert að segja. Þetta er í samræmi við grundvallarstefnumörkun í þáltill.

Í öðru lagi kemur fram að við ákvörðun á skattskyldum tekjum einstaklings af eigin atvinnurekstri skuli laun hans áætluð. Ég vil leyfa mér að benda á að það er ekkert einfalt mál að ætla sér að fara að taka upp einhverja algilda reglu um áætlun launa án nokkurs tillits til afkomu fyrirtækja. Má vel vera að þetta hljómi vel, en ég er þeirrar skoðunar að hér sé um alranga leið að ræða og eigi mun fremur að leggja áherslu á að miða við einkaúttekt út úr fyrirtækinu, en ekki einhverjar áætlanir sem eru oft og tíðum háðar duttlungum opinberra aðila. Það er mun raunhæfara að skattleggja það, sem einstaklingurinn tekur til eigin þarfa, heldur en að skattleggja á grundvelli einhverrar áætlunar án tillits til þess hvort hann hefur fengið það fjármagn til ráðstöfunar eða ekki.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að félög skuli áfram greiða tekjuskatt og er vissulega gott að vita til þess að það á ekki algjörlega að leggja kerfið niður. En þó kæmi vissulega líka til greina, fyrst á að fara yfir í þetta kerfi, að félög greiddu einnig óbeinan skatt, þ.e.a.s. nokkurs konar virðisaukaskatt af mismun innkominna tekna og útgjalda. Það er vissulega mögulegt.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að reglur um afskriftir eigna skuli við það miðaðar að afskriftir svari til raunverulegrar verðmætisrýrnunar miðað við verðmæti eignarinnar þegar afskrift fer fram. Ég skil þessa grein ágætlega þar til hér er komið, en síðan er bætt við: „en að jafnan sé miðað við mat á upphaflegum endingartíma eignarinnar, þ.e. að kaupandi eignar afskrifi hana með sama hætti og seljanda hennar hefði borið að gera, þannig að sama eign verði aldrei afskrifuð oftar en einu sinni.“ Ég verð nú að segja það, að mér finnst þetta stangast nokkuð á við það sem hv. flm. sagði hér, að þeir teldu að það ætti að viðurkenna rétt atvinnurekstrarins til að afskrifa af raunverulegu verðmæti, en hér er lagt til að ef eign gengur kaupum og sölum og hefur verið afskrifuð að fullu hjá seljanda, þá hafi kaupandi engan rétt til að afskrifa eina einustu krónu. Ég verð að segja það að mér finnst þetta dálítið undarleg hugmyndafræði. Þetta mál á að leysa á allt annan hátt. Það á að leysa á þann hátt að skattleggja eða rýra áskriftarstofn þess aðila sem selur, en ekki þess sem kaupir. Það væri undarlegt ef útgerðarmaður seldi gamlan bát til manns sem hefði ekki efni á að kaupa sér nýjan bát. Aumingja maðurinn, sem kaupir þennan gamla bát, fær ekki leyfi til að afskrifa eina einustu krónu, en af því að útgerðarmaðurinn, sem átti gamla bátinn, hefur efni á því að kaupa sér splunkunýjan bát úr skipasmíðastöð hér, þá á hann að hafa óskoraðan rétt til afskrifta! Þetta er hugmyndafræði sem ég skil ekki og ég trúi því vart að þetta sé hugmynd hv. flm. Ég held að það hljóti að vera að hér hafi einhver ruglingur orðið.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að reglur um heimild til þess að draga vexti af skuldum frá tekjum verði við það miðaðar að um hafi verið að ræða eðlilega lánsfjáröflun í þágu atvinnurekstrarins. Hvað er þessi eðlilega lánsfjáröflun? Eru hv. flm. tilbúnir til að setja það í skattalög, hvað er eðlileg lánsfjáröflun, og ákveða á þeim grundvelli hvaða vextir eru frádráttarbærir og hvaða vextir eru ekki frádráttarbærir. Satt best að segja hafði ég talið að það sé í sjálfu sér ekki mikill eðlismunur á fjármagnskostnaði og öðrum kostnaði. Og hvers vegna að skera niður þennan kostnaðarlið? Af hverju ekki að ganga á alla kostnaðarliði fyrirtækjanna og skera þá niður um mismunandi prósentu? Það er vissulega rétt að vaxtafrádrátturinn er orðinn afskaplega mikill og hefur oft komið til tals að skerða vaxtafrádrátt. En yfirleitt hefur verið um það rætt að skerða þennan vaxtafrádrátt hjá einstaklingum, en ekki hjá fyrirtækjum sem er mjög erfitt í framkvæmd vegna þess að það er erfitt að draga skilin. Ég fyrir mitt leyti er ekki tilbúinn til að skilgreina þetta hugtak: „eðlileg lánsfjáröflun“, og tel því hér vera um óraunhæfa till. að ræða þótt vera megi að megi koma þessu betur fyrir.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir því að hagnaður á sölu eigna verði skattlagður að svo miklu leyti sem hann á ekki rót sína að rekja til rýrnunar á verðgildi peninga. Hér er enn eitt matsatriðið sem ég er ekki sammála hv. flm. um. Ég tel að það sé algjörlega óframkvæmanlegt að fara að skilja það í tvennt, hvað er hagnaður af sölu eigna vegna rýrnunar verðgildis peninga og hvað er raunverulegur hagnaður, þ.e.a.s. hagnaður ef miðað er við verðbólguna núll. Ég tel að hér eigi að miða við mismun á bókfærðu verði og söluverði, en ef viðkomandi aðili, sem rekur fyrirtæki, heldur áfram atvinnurekstri og fjárfestir aftur, þá hafi hann heimild til að draga þennan hagnað frá öðrum eignum og rýra þar með annan afskriftarstofn. Þetta er einnig erfitt mál þar sem það er vitað að meginhluti af fjárfestingu hér á landi er fjármagnaður með lánum úr opinberum sjóðum og það er óeðlilegt að líta aðeins á hækkun eignarinnar vegna rýrnunar verðgildis peninga, en taka ekkert tillit til hvernig viðkomandi eign er fjármögnuð.

Í sjöunda lagi er hér lagt til að þegar gildandi lagaákvæði um hækkun söluskatts, sem nú rennur í Viðlagasjóð og Olíusjóð, falla úr gildi skuli þau framlengd, en tekjur af þeim hluta söluskattsins renni í ríkissjóð til þess að mæta missi tekna af tekjuskatti af launatekjum. Hér hafa hv. flm. séð að mundi vera möguleiki að fá allmargar krónur upp í tekjumissinn sem er hins vegar mun hærri en þeir gera ráð fyrir, eins og ég skal koma að síðar. En á sama þingi leggja tveir flm. að þessari till. um afnám tekjuskatts af launatekjum fram till. til þál. um jöfnun á kostnaði við kyndingu húsa og í annarri þáltill. leggja þeir til að eini tekjustofninn, sem hefði gert mögulegt að koma þó þarna á einhverri jöfnun, verði lagður niður. Ég sé ekki hvernig er hægt að taka svona tillöguflutning alvarlega, þegar menn leggja til fyrst í 76. máli Sþ. að leggja niður tekjustofn sem hefur verið notaður til að jafna húshitun í landinu og leggja svo fram aðra þáltill. um jöfnun á kostnaði við kyndingu húsa og þá á sjálfsagt að finna upp nýjan tekjustofn til þess, hver sem hann á nú að vera. Þetta finnst mér vera ábyrgðarlaus tillögugerð, svo að ekki sé meira sagt.

Í áttunda lagi er gert ráð fyrir því að ítarleg ákvæði verði sett er miði að því að koma í veg fyrir röng framtöl til söluskatts, tekju- og eignarskatts, eftirlit með því að þeim ákvæðum sé hlýtt sé eflt verulega. Hér er vissulega liður sem allir geta verið sammála um. En þetta er kannske ekki fyrst og fremst spurning um það að setja ákvæði, heldur fyrst og fremst spurning um það að hafa nægilegt fjármagn, þ.e.a.s. efla skattstofurnar, efla rannsóknardeild ríkisskattstjóra með meiri fjárveitingum frá Alþ. og auka sektarákvæði skattalaganna. Það er þetta sem hefur höfuðþýðingu, að beina meira fjármagni til þessa eftirlits og hækka sektarákvæðin. En þetta er vissulega mikilsverður liður sem oft er lítið talað um, þ.e.a.s. framkvæmd skattalaganna. Það er ekki nægilegt að hafa fullkomin og góð skattalög. Það er ekki síður mikilvægt og í raun og veru enn þá mikilvægara að tryggja eðlilega framkvæmd þessara sömu skattalaga.

Í níunda lagi er lagt til að það verði lagt gjald á veltu fyrirtækja, þ.e.a.s. til þess að mæta þeim tekjum sem ekki er hægt að ná á annan hátt. Það má vel vera að þetta sé sú leið sem menn eru tilbúnir að fara, að auka veltuskatta. En það er sami uppgjafartónninn í þessari till. Það á að leggja á brúttóveltu fyrirtækja. Það á að varpa tekjuhugtakinu þar með fyrir borð og gefast upp við að skilgreina það hugtak betur eða þá að auka eftirlit með framkvæmd skattalaganna. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að veltuskattur sé í sjálfu sér hálfgerð grautarstefna, því að það er á engan hátt eðlilegt að leggja á skatt í hlutfalli við veltu, hvorki á fyrirtæki né aðra, en ekki í hlutfalli við tekjur. Þetta er leið sem hægt er að fara þegar menn eru endanlega búnir að gefast upp við allt annað. Og satt best að segja hélt ég að sú stefna hafi verið mörkuð af þeirri ríkisstj. sem hv. flm. Gylfi Þ. Gíslason, átti aðild að, þegar hún lagði fram sitt frv. um tekju- og eignarskatt stuttu áður en hún fór frá völdum, þar var mörkuð sú stefna, ef ég man rétt, að veltuskattar, sem nú eru lagðir á af sveitarfélögum, skyldu smátt og smátt lagðir niður. En bað má vera að hv. 1. flm. hafi ekki verið samþykkur þeirri stefnu.

Í tíunda lagi er lagt til að fyrir árslok 1976 skuli söluskatti breytt í virðisaukaskatt. Ef hv. flm. hafa kynnt sér þá grg. sem alþm. barst í vor um virðisaukaskatt, þá vænti ég þess að það hafi verið hægt að lesa það í þeirri grg. að hér væri ekki um mál að ræða sem hægt væri að koma á á stuttum tíma. Það er algjörlega vonlaust mál að ætla sér að koma þessu kerfi á á árinu 1976, enda er vafasamt hvort það sé rétta leiðin að fara yfir í virðisaukaskattskerfi eða þá að breyta söluskattskerfinu. Ég ætla ekki um þetta að fullyrða. Það er mjög margt sem mælir með virðisaukaskatti, það er margt sem mælir á móti honum, og menn skulu ekki ætla að virðisaukaskattur sé eitthvert himnaríki skattanna, eins og oft hefur komið fram, að því er mér hefur skilist, sem leysi öll okkar vandamál í skattamálum. Það er mesti misskilningur. Það er í sjálfu sér eðlilegt, þegar menn sjá gallana á þeim kerfum sem við búum við, að menn mæni á önnur kerfi, en það ber að varast að taka þau upp án þess að athuga þau mjög gaumgæfilega.

Í ellefta lagi er gert ráð fyrir að hvort hjóna um sig verði sérstakur skattgreiðandi. Ég er samþykkur þessu atriði og tel að það eigi mikinn rétt á sér.

Í tólfta lagi skuli endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga þannig að frjálsræði þeirra verði aukið um álagningu skatta. Þetta má verá gott og blessað. En við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir búsetu manna. Ef eitt sveitarfélag leggur á mun meiri skatta en önnur, þá er hætt við að menn reyni að komast frá því sveitarfélagi. Þetta er vissulega reynsla sem við höfum héðan frá Íslandi. Þetta hefur gerst, það hafa verið lögð á meiri gjöld í einu sveitarfélagi en öðru og er að vissu marki enn í dag þótt hér sé mun meiri jöfnuður nú. Ég vil aðeins ítreka að það er mjög hættulegt að auka frjálsræði svo að það sé hætta á mjög mismunandi sköttum.

Flm. hafa ákveðnar till. um hvernig bæta megi þann tekjumissi sem hlýst af því ef þessi atriði kæmu til framkvæmda.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að 3% söluskattur þar á móti komi sem þegar er nýttur af ríkissjóði til ýmissa mála, þ. á m. til ýmissa félagslegra mála. Ég er helst á því ef þessar tekjur yrðu teknar í burtu að þá kæmi það við ýmsa líði sem við hv. alþm. yrðum tregir til að samþykkja, þótt menn geti í sjálfu sér samþykkt að fella niður tekjurnar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir brúttóveltuskatti, en flm. gera ráð fyrir því að hér sé aðeins um það að ræða að mæta 5.7 milljörðum samkv. í fjárl. En það er ekki svo, því að það er gert ráð fyrir að á árinu 1976 verði álagður tekjuskattur á einstaklinga tæplega 10 milljarðar kr. — eða um það bil 9.9 milljarðar kr. — og frá því dragast barnabætur sem eru sennilega tæpir 3 milljarðar kr., og einnig dregst þar frá svokallaður neikvæður skattur sem gengur upp í útsvar. Nú geri ég varla ráð fyrir því að flm. ætli sér það — eða er það hugmynd þeirra? — að leggja niður barnabætur og leggja niður neikvæðan tekjuskatt, því að ekki verður annað ráðið af þessari till. en að svo sé, þannig að hér er um mun hæri fjárhæðir að tefla. Ef menn ætla að mæta 10 milljörðum með söluskatti, þá er þar um að ræða um það bil 8–9 prósentustig til viðbótar í söluskatti. Og ef menn ætla enn að breyta því kerfi yfir í virðisaukaskatt, þá gæti ég trúað að það yrði mjög nálægt 40% virðisaukaskattur, því að virðisaukaskattur er annars eðlis. Virðisaukaskattur leggst fyrst og fremst á neysluna, þ.e.a.s. á heimilin í landinu, en söluskatturinn leggst þó að allmiklu leyti á fyrirtækin, þ.e.a.s. sú þjónusta, sem fyrirtækin greiða, er í mörgum tilfellum með söluskatti. Ég er því helst á því að þegar öll þessi kerfi verða komin í gang, virðisaukaskattskerfi og ekkert tekjuskattskerfi, þá verði heimilin í landinu farin að greiða allháan skatt sem ýmsir yrðu ekki ánægðir með þótt hv. flm. telji að svo verði.

Í mínum huga er þetta vandamál, sem hér er komið inn á, mjög stórt. En hins vegar eiga menn ekki að mæta því eins og virðist vera ríkast í mönnum almennt í þjóðfélaginu og mjög viða, að það skuli lagt niður. Menn fórna höndum og segja: Sjáið þið gallana, þeir hafa ekki verið lagfærðir, og um það má sjálfsagt kenna sofandahætti stjórnvalda og Alþ. — En við eigum fremur að snúa okkur að því að lagfæra þetta kerfi. Það er hægt að gera og ég ætla ekki að fara að rekja það í sjálfu sér í hverju slíkar lagfæringar eiga að felast. Ég er þó tilbúinn til þess ef tækifæri gefst til hér síðar, en ég vil leggja á það áherslu að þeirri endurskoðun, sem fjmrh. vitnaði til. verði hraðað og hún lögð fram á Alþ. þannig að menn fái tækifæri til þess að ræða þetta á skynsamlegum grundvelli og því verði hraðað sem mest má vera að koma hér á breytingum.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar hæstv. fjmrh. taldi að það væru mjög athyglisverð ákvæði í þessari þáltill. Að mínum dómi er ekkert athyglisvert ákvæði í þessari þáltill., og ég vænti þess að sú endurskoðun, sem fram fer, taki ekki mið af þessari þáltill. Hann gat þess að stefna Sjálfstfl. hafi verið sú að það yrði ekki lagður skattur á almennar launatekjur og það er í sjálfu sér stefna út af fyrir sig. Ég býst ekki við því að tekjuskattur af svokölluðum almennum launatekjum í dag sé ýkjamikill. Frádrátturinn er orðinn það mikill, persónufrádrátturinn, að tekjuskattur á almennar launatekjur er tiltölulega mjög lítill. En hins vegar fannst mér koma fram í orðum hans, að það væri ekki stefna flokksins að leggja niður tekjuskattskerfið. Ég fagna því og vænti þess að við það verði staðið, að Sjálfstfl. a.m.k. berjist ekki fyrir jafnfráleitri hugmynd.

Hann gat þess að afstaða launþegasamtakanna hafi breyst á undanförnum árum, þ.e.a.s. að launþegasamtökin hafi lagt mun meiri áherslu á beina skatta, en viljað draga úr óbeinum sköttum. En hver er ástæðan fyrir þessari afstöðu? Er það ekki einmitt vegna þess að forustumenn launþegasamtakanna hafa talið það vonlaust mál að berjast fyrir auknum skattjöfnuði. Þeir hafa gert það í mörgum tilfellum á undanförnum árum. En ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég tel að launþegasamtökin eigi að þrýsta mun meira á að það verði komið á auknum skattjöfnuði og leggja minni áherslu á að leggja tekjuskattskerfið niður, sem ég efast nú um að sé stefna launþegasamtakanna. Tekjuskatturinn var lækkaður mikið 1974 1 sambandi við kjarasamninga eða um rúm 40%. Hann var lækkaður en á ný á s.l. ári. Ég tel að það hafi verið misráðíð að gera það og menn sem sóttu það mál sem fastast, hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því hvað hafi tekið við, því að menn verða að skilja að það er til lítils að leggja niður kerfi, sem er gallað, og breyta sköttunum þannig, að þeir fari inn í kerfi sem er engu siður gallað og kannske miklu gallaðra og verra en hitt.

Áhrif söluskattsins eru margvísleg. Það má t.d. færa sönnur á það að söluskatturinn hefur orðið þess valdandi að aðstöðumunur fólksins í landinu hefur aukist. Söluskatturinn leggst þyngra á þá sem úti á landi búa og þurfa að kaupa yfirleitt dýrari þjónustu en þeir sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeir þurfa að kaupa dýrari símaþjónustu, þeir þurfa að borga flutningskostnað og fleira svipaðs eðlis, sem þýðir að þetta fólk þarf að borga meiri söluskatt og þar með er ójöfnuður kominn á vegna sífellt hækkandi söluskatts. Einnig er ljóst að yngra fólk verður meir fyrir barðinu á söluskatti heldur en þeir sem eru búnir að koma sér fyrir og eru orðnir ráðsettir. Maður, sem byggir hús í fyrsta skipti í dag, þarf að greiða mun meiri söluskatt heldur en maðurinn sem byggði hús fyrir 20 árum, og maður, sem kaupir heimilistæki og húsgögn, þarf að greiða mun meiri söluskatt af þessum vörum heldur en maðurinn sem gerði slíkt fyrir 10–20 árum, en fyrir 20 árum var söluskattur ekki til. Menn verða einnig að gera sér grein fyrir því að aukin skattheimta af þessu tagi kemur mismunandi niður á kynslóðunum meðan áhrifa þessara hækkana gætir.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vænti þess að það verði lögð á það öll áhersla að hraða endurskoðun skattkerfisins og það verði undirstrikað af Alþ. íslendinga að tekjuskattskerfið og tekjuskatturinn verði ekki lagður niður, því að það er gífurlegur jöfnuður sem felst í tekjuskattskerfinu, jöfnuður sem ég sé ekki að sé hægt að koma á á annan hátt með góðu móti. Og ég trúi því vart að Alþfl. ætli að berjast harðri baráttu fyrir þessari stefnu, a.m.k. ekki ef sá flokkur ætlar að kalla sig jafnaðarmannaflokk.