25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er aðalefni till., sem hér er til umr., að afnema tekjuskatt af launatekjum. Nú verður að sjálfsögðu að afla ríkissjóði einhverra annarra tekna í staðinn og þá er það hugmynd flm. að þær tekjur verði aðallega óbeinir skattar, einkum flatur skattur á alla veltu og svo áframhaldandi söluskattur sem síðar yrði breytt í virðisaukaskatt.

Ég vil strax taka það fram að ég er andvígur þessari till. og meginefni hennar. Ég viðurkenni fúslega að tekjuskattskerfið er stórgallað eins og það er í dag, og ég er reiðubúinn að fallast á það sjónarmið að mikil bót væri að því að afnema tekjuskatt af miðlungsháum tekjum og að sjálfsögðu algerlega á lágtekjum. En ég er ekki reiðubúinn til að fallast á að tekjuskattur af hátekjum verði afnuminn með öllu. Tekjuskatturinn er fyrst og fremst mikilvægur sem tekjujöfnunartæki og ég vil því ekki afnema hann. Það væri spor aftur á bak að fella tekjuskattinn algerlega niður og ég mótmæli því alveg sérstaklega, sem fram kom hjá hv. 1. flm. þessarar till., að slíka stefnu megi sérstaklega kenna við vinstri menn eða jafnaðarmenn í öðrum löndum. Ég vil benda á að hlutfall tekjuskatta af heildarskattbyrði er almennt miklu hærra en hér er í þeim löndum þar sem jafnaðarmenn eru við völd. Með því að afnema tekjuskattsálagningu á hátekjufólk er hætt við að sú ráðstöfun kæmi beint eða óbeint niður á lágtekjufólki og fólki með miðlungstekjur. Við vitum að launamismunur í þjóðfélaginu hefur farið vaxandi og þrátt fyrir allt hefur tekjuskatturinn það sér til gildis að hann stuðlar að tekjujöfnun.

Í till. þeirra flm. eru hins vegar nokkrar hugmyndir sem ég get fúslega tekið undir að eru til hins betra, eindregið til hins betra. Ég vil að vísu taka það fram að þar eru einnig aðrar hugmyndir sem ég er ekki reiðubúinn að samþykkja. Ég er t.d. efins um það að virðisaukaskatturinn sé örugglega mikið til bóta. Ég vil a.m.k. fá að skoða það svolítið betur áður en ég sannfærist um það. Ég hef orðíð var við að í þeim löndum, þar sem virðisaukaskattur hefur verið nú um nokkurt skeið. er upp komin mjög hörð gagnrýni einmitt á það skattkerfi. En eins og ég sagði, þá eru þarna nokkrar hugmyndir sem ég vil mjög eindregið styðja. Það eru hugmyndir sem fram koma í tl. 2 um skatta af tekjum einstaklinga af eigin atvinnurekstri og þá fyrst og fremst að laun einstaklinga af slíkum rekstri verði áætluð miðað við það sem telja megi eðlilegt miðað við vinnuframlag í þágu fyrirtækisins, í öðru lagi að reglur um afskriftir verði teknar til endurskoðunar og í þriðja lagi að settar séu nýjar reglur um áhrif vaxtagreiðslna á tekjuskattsgreiðslur.

Það vill nú svo til að ég flutti snemma á þessu þingi á þskj. 34 till. sem einmitt víkur að öllum þessum þremur meginatriðum. Þar er lögð á það áhersla að fyrningarreglur verði endurskoðaðar og ákvæði um verðhækkunarstuðul og flýtifyrningu verði afnumin, en fyrningarhlutfall miðað við eðlilegan endingartíma eigna, — þetta er sem sagt alveg sama hugmyndin og kemur fram hjá flm. þeirrar till. sem hér er til umr., — einnig að ákveðið verði hámark vaxtafrádráttar og í þriðja lagi að þeim einstaklingum, sem hafa tekjur sínar af eigin rekstri, verði framvegis áætlaðar lágmarkstekjur. Hér er að vísu um svolítið mismunandi orðalag að ræða og í framkvæmdinni yrði þetta kannske ekki alveg nákvæmlega eins, en ég tel samt að hér búi sama meginhugsunin á bak við.

En sá er munurinn á þeim hugmyndum, sem fram koma í till. þeirra Alþfl.-mannanna, og svo aftur þeirri till., sem ég hef lagt hér fram, og þeim hugmyndum, sem fram koma í grg., að ég vil ekki nota þennan væntanlega tekjuauka ríkisins til þess að lækka skatta á hátekjufólki. Ég tel miklu eðlilegra að nota þennan væntanlega tekjuauka ríkisins til þess að lækka óbeina skatta og þ. á m. söluskatt sem hefur hækkað mjög mikið á seinustu árum, svo fremi að ríkissjóður teljist þá aflögufær og unnt sé að lækka skatta almennt. En því miður hefur ekki verið það ástand á ríkisbúinu nú seinustu missirin að útlit sé fyrir að ríkissjóður sé verulega aflögufær.

Ég held að enginn þurfi að vera undrandi á því að tekjuskattskerfið, eins og það er í dag, sé óvinsælt. Það er alveg ljóst að tekjuskattsálagningin, sem fram fer á grundvelli núverandi skattalaga, er hreint hneyksli. Eins og ég minnti á við umr. um þá till. sem ég lagði hér fram í haust, þá eru hvorki meira né minna en 430 félög sem hafa álitlega veltu hvert og eitt og samanlagða veltu sem nemur 20 þús. millj. kr., en borga þó ekki eina einustu krónu í tekjuskatt. Og þó eru þau félög miklu fleiri með langtum hærri veltu sem borga litinn tekjuskatt, en þó einhvern. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óþolandi ástand, og þessu þarf að breyta.

Ég tel enga ástæðu til að orðlengja um afstöðu mína frekar að þessu sinni. Ég tel sem sagt rangt að afnema tekjuskatt með öllu því að ég lít á tekjuskattskerfið sem mjög mikilvægt tekjujöfnunarkerfi þrátt fyrir allt, en ég legg á það áherslu að á þessu kerfi þarf að gera stórfelldar breytingar og það þarf að koma í veg fyrir það með markvissum ráðstöfunum að menn skjóti undan miklum tekjum, ýmist með ólöglegum hætti eða með lögvernduðum hætti, eins og nú er.