25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta tvenns konar misskilning sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar.

Fyrra atriðið á eflaust rót sína að rekja til þess, sem hann lét sjálfur getið í ræðu sinni, að hann heyrði ekki upphaf framsöguræðu minnar. Ég hélt því ekki fram að nokkur jafnaðarmannaflokkur, sem við völd hefði verið í Vestur-Evrópu, hefði framkvæmt afnám tekjuskatts. Það, sem ég sagði, var að það sjónarmið að breyta stighækkandi tekjuskatti, eins og hann hefði verið framkvæmdur, í einhverja tegund neysluskatts, ætti vaxandi fylgi að fagna innan jafnaðarmannaflokka Vestur-Evrópu. Hitt er mér auðvitað alveg ljóst, að tekjuskattur launþega hefur hvergi verið afnuminn, hvorki þar sem jafnaðarmenn ráða né þar sem borgaraflokkar ráða. En hitt endurtek ég, það er rétt, að þeim jafnaðarmannaforingjum fjölgar, það sjónarmið á auknum stuðningi að fagna innan jafnaðarmannaflokkanna að rétt sé að gera þá kerfisbreytingu sem þessi till. fjallar um, en um þetta atriði fjallaði ég einmitt í upphafi ræðu minnar.

Ástæða þess, að það er jafnaðarmannaflokkur á Íslandi sem ríður á vaðið með að gera hreina till., ómengaða till., skýra og ljósa, um að stiga þetta mjög mikilvæga spor, er einfaldlega sú að ég hika ekki við að fullyrða að í engu landi Vestur-Evrópu er misrétti í skattaálögum á launþega annars vegar og atvinnurekstur hins vegar jafnmikið og hróplegt og einmitt hér á Íslandi, eins og m.a. kom greinilega fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ástæðan til þess, að við kveðum upp úr með þetta, er að við höfum horft upp á áratugalangar tilraunir til að reyna að leiðrétta og laga tekjuskattskerfið, en þær hafa alltaf reynst vera árangurslausar. Nú finnst okkur ranglætið vera orðið svo hróplegt og svo augljóst að það eina, sem geti bætt úr ranglætinu, sé hreinlega að hætta því að leggja tekjuskatt til ríkisins á launþega.

Hitt atriðið, sem mér finnst nauðsynlegt að leiðrétta og ég get gert í örfáum orðum, var að hann hefði misskilið þann hluta grg. þar sem um er að ræða samanburð á þeirri upphæð, sem einstaklingar greiddu í fyrra í tekjuskatt, annars vegar og félög hins vegar. Á það er bent í grg. að í fyrra greiddu einstaklingar, bæði launþegar og þeir sem stunda atvinnurekstur, 5.6 milljarða í tekjuskatt, en félög einn milljarð. Samkv. núgildandi lögum er nettótekjuskattsgreiðsla einstaklinga 5.7 milljarðar, brúttó 7.2. Sá frádráttur, sem hann gerði að umtalsefni, til greiðslu útsvars og barnabóta er 1504 millj. kr., svo að nettótekjuskattsgreiðsla einstaklinga er í ár áætluð 5.7 millj., en nettótekjuskattsgreiðsla allra félaga 1.7 millj. Þarna er ég í grg. og í ræðu minni áðan að bera saman nettóskattgreiðslu einstaklinga, allra einstaklinga, bæði launþega og atvinnurekenda, annars vegar og svo félaga hins vegar. En hann virðist hafa skilið það þannig að talan 5.6 milljarðar varðandi árið í fyrra, nettótalan 5.7 milljarðar varðandi árið í ár sé sú tala sem ég geri ráð fyrir að ríkið muni missa, muni tapa í tekjum við það að hætta að leggja skatta á launþega. Þetta sagði ég aldrei. Þvert á móti tók ég skýrt fram í ræðu minni, ég held einum tvisvar sinnum, að því miður væri engin tala til um það, — a.m.k. hef ég ekki fundið hana og er þó sæmilega kunnugur skýrslum sem gefnar eru út um efnahagsmál á Íslandi, þ. á m. skattamál, — það er engin tala til um það hve einstaklingar greiða mikið til ríkisins í tekjuskatt af launum sínum. Þá tölu vantar. En þá tölu geta sérfræðingar hæstv. fjmrh. eða fjmrn. auðvitað reiknað út. Þess vegna nefndi ég enga tölu um tekjumissi ríkisins. Ég varaðist að nefna hana af því að ég vildi ekki fara með tölu sem var áætluð. En ég sagði að til væri áætlun um það hvað félög greiddu, hvað greiddur tekjuskattur þeirra, sem stunda atvinnurekstur, svaraði til hárrar hlutfallstölu af brúttóveltu alls atvinnurekstrar í landinu og sú tala næði ekki 1%. Af því vildi ég draga þá ályktun að ef við vildum bæta ríkissjóði tekjumissinn af því að hætta að innheimta tekjuskatt af einstaklingum, burt séð frá því sem hægt væri að hækka tekjur ríkisins í framhaldi af því að ríkið hefur tekið að sér 2 söluskattsstig og framlengt ákvæðin um hið eina olíusjóðsstig, sem gerir vandamálið auðvitað stærra, þá hlyti að vera hægt að lækka útgjöld ríkisins verulega og það hlyti að koma tekjuauki af þeim breytingum sem till. fjallar um og hv. síðasti ræðumaður lýsti eindregnu fylgi sínu við, en það, sem á vantaði, ætti síðan að taka með brúttóskatti á allan atvinnurekstur í landinu. Talan, sem hv. þm. nefndi um 10 milljarða kr. tekjumissi ríkisins, hlýtur að vera byggð á einhverjum misskilningi, vegna þess að í fjárl., sem ég hef hér fyrir framan mig stendur: Tekjuskattur einstaklinga, brúttótekjuskattur allra einstaklinga, þ.e.a.s. bæði þeirra, sem eru launamenn, og þeirra, sem stunda atvinnurekstur, er 7.2 millj. Mér hefur auðvitað aldrei dottið í hug að afnema persónuafslátt til greiðslu útsvars eða greiddar barnabætur, en það verður að draga frá ef verið er að tala um skattbyrði einstaklinganna, og það er það sem ég var að gera. En 10 milljarða talan hlýtur að vera fengin — ja, ég átta mig ekki á hvernig hún er fengin. (Gripið fram í: Fengin frá Þjóðhagsstofnun.) Ég þarf að fá nánari skýringu á því hvernig Þjóðhagsstofnunin hefur fengið þá tölu, því að sjálf fjárl. segja að brúttótekjuskattur allra einstaklinga sé 7.2 millj. Hér fer eitthvað á milli mála, sem við þm. getum eflaust báðir fundið sameiginlega í hverju liggur.