25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Kristján Ármannsson):

Herra forseti. Ég vil nú í upphafi máls míns leyfa mér að nota þetta tækifæri og bera fram bestu þakkir til hæstv. ríkisstj. fyrir yfirlýsingu hennar um að hlaupið verði undir bagga með okkur íbúum á Kópaskeri og öðrum þeim sem orðið hafa fyrir verulegum búsifjum af völdum undangenginna náttúruhamfara, svo og hv. alþm. fyrir undirtektir þeirra. Þykist ég þess fullviss að þar mæli ég fyrir munn íbúa á þessu svæði.

Þáltill. sú, sem ég hef lagt fram á þskj. 435, er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir alvarlegt atvinnuleysi og frekari búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu á þessu ári.“

Till. þessari hef ég látið fylgja örstutta grg.: „Ástæðurnar fyrir flutningi þessarar þáltill. eru m.a. :

1. Það alvarlega ástand sem skapast hefur í vesturhluta sýslunnar vegna undangenginna náttúruhamfara.

2. Grundvöllur hefðbundinnar útgerðar frá Þórshöfn er brostinn á sama tíma sem nýtt og fullkomið frystihús stendur tilbúið til notkunar.

3. Yfirvofandi rekstrarstöðvun togaraútgerðar á Raufarhöfn, en hún er undirstaða atvinnulífs staðarins.

4. Brýn nauðsyn fyrirgreiðslu til þeirra ungu bænda í Hólsfjallabyggð sem þar hyggja á fasta búsetu. En hætta er á að þeim snúist hugur, verði dráttur þar á. Og er þá e.t.v. skammt að bíða algerrar eyðingar byggðar í Fjallahreppi.

5. Dráttur sá, sem orðið hefur á framkvæmd þáltill. Alþ. frá árinu 1972 um gerð sérstakrar byggðarþróunaráætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu.“

Þar, sem hér er nánast um punkta að ræða, þykir mér ástæða til að gera nokkru nánari grein fyrir þeim.

1. liður grg. minnar: „Það alvarlega ástand sem skapast hefur í vesturhluta sýslunnar vegna undangenginna náttúruhamfara.“ Það á því miður nokkuð langt í land að hægt sé að gera sér tölulega grein fyrir því beina tjóni sem orðið hefur í þeim hreppum sem hér um ræðir, en það eru Presthóla-, Öxarfjarðar- og Kelduneshreppur, enda á engan hátt séð fyrir endann á afleiðingum þessara hamfara. Ég segi: afleiðingum, með þá von í brjósti að þessum náttúruhamförum sé lokið um sinn, en um það er því miður ekkert hægt að fullyrða, og vissulega segir sagan okkur, að við ýmsu megi búast, svo og okkar vísindamenn. Ég hefði því e.t.v. frekar átt að segja: að koma í veg fyrir, að ekki væri séð fyrir endann á afleiðingum þeirra hamfara sem þegar hafa átt sér stað. Sem dæmi um það má nefna að allt frá áramótum hefur verið staðið í þrotlausri baráttu við verndun bújarða í Öxarfjarðarhreppi og í dag standa menn í nákvæmlega sömu sporum og sömu óvissunni og kostnaðurinn bara við þetta farinn að skipta milljónum. Einnig eru bæir vestan Jökulsár sem tilheyra Kelduneshreppi í hættu, því að enginn veit hvar Jökulsá kann að þóknast eða velja sér farveg til sjávar eftir þær landslagsbreytingar sem þarna hafa átt sér stað.

En allar götur er það ljóst að sé miðað við íbúafjölda, tekjur og efnahag íbúa á þessu svæði, þá er tjónið gífurlegt. En — og á það legg ég áherslu — til allrar hamingju er ekki hér um þær tölur að ræða sem ægja þurfi hv. alþm. eða hæstv. fjmrh. Ég rakst á í öllum þeim bunka af skjölum, sem voru hér á borði mínu þegar ég kom í hv. Alþ., fréttabréf frá Fjórðungssambandi norðlendinga þar sem m.a. sagði eitthvað á þá leið að Presthólahreppur hafi á s.l. ári haldið uppi búsetuþróun í Norður-Þingeyjarsýslu — út af fyrir sig ánægjulegt. En þetta var sagt út frá þeirri staðreynd að á s.l. ári fjölgaði íbúum í hreppnum um 15 — ég endurtek: um 15 manns. Þetta segir nú e.t.v. nokkuð um umfang vandamálsins séð frá sjónarhóli ríkisútgjalda, ef 15 manns geta haldið uppi búsetuþróun í heilli sýslu.

Kópasker er lítið þorp, en var í örum vexti og má sem dæmi nefna að helmingur íbúðarhúsa þar eru hús sem byggð hafa verið á s.l. 5 árum. Einnig má nefna sem dæmi að íbúafjöldinn hefur frá því árið 1970 og til 1. des. 1975 aukist um tæplega 50%. Á Kópaskeri býr mikið af ungu fólki, ungu og bjartsýnu fólki, og uppi voru margvíslegar hugmyndir um frekari og áframhaldandi nauðsynlega uppbyggingu á staðnum, kannske einkum í félagslegum efnum. En allar framkvæmdir á vegum hins opinbera og sveitarfélags hafa um mjög langan aldur legið niðri, ef svo má segja, eða því sem næst, og meðal þess, sem efst var á baugi hjá okkur, var bygging skóla, heilsugæslustöðvar, félagsheimilis og sýslubókasafns, svo að nokkuð sé nefnt í félagslegum efnum. En ég óttast það mjög og ekki að ástæðulausu að t.d. það unga fólk, sem ég áðan nefndi, hreinlega gefist upp og leiti annarra miða, ef svo má segja, verði nú stöðvun á uppbyggingu staðarins. Og ég leyfi mér að leggja áherslu á það að yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. fari sem fyrst að sjá stað á borði og framkvæmd hennar verði þess eðlis að fólkið finni að það geti í fyrsta lagi náð þeirri stöðu, sem komin var, og í öðru lagi haldið ótrautt áfram þar sem frá var horfið.

Það var eftir mikinn fund, á okkar mælikvarða alla vega, sem haldinn var á Kópaskeri 1971, að mig minnir, og það var einmitt á grundvelli þessa fundar sem Gísli Guðmundsson lagði fram till. til þál. hér á hv. Alþ. um gerð byggðaáætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Á þessum fundi voru mættir alþm. kjördæmisins og að mig minnir tveir ráðh. Þessi fundur var nokkuð vel undirbúinn af okkur heimamönnum. Við skiptum með okkur verkum til þess að tala yfir hausamótum gestanna, ef svo má að orði kveða, og mér var falið það hlutverk þá að tala um málefni Kópaskers. Á þessum fundi gerði ég mjög að umræðuefni hafnarmál okkar á Kópaskeri, en í jarðskjálftanum 13. jan. s.l. fór það mannvirki, þ.e.a.s. bryggjan, mjög illa og þegar er ljóst að á þessu ári a.m.k. verður hún a.m.k. ekki notuð til vöruflutninga. En eins og við höfum í raun og veru verið settir með okkar hafnarmannvirki, hafa þau fram til þessa því miður verið okkur ákaflega lítils virði sem slík, og það eru ekki mörg ár síðan Kópasker var t.d. algerlega tekið út af sakramentinu, ef svo má segja, þ.e.a.s. út af áætlun strandferðaskipa. Strandferðaskip hafa ekki lengur viðkomu á Kópaskeri. Ég vil því leggja á það sérstaka áherslu að í sambandi við það mikla tjón, sem orðið hefur á þessu mannvirki okkar, verði látin fara fram rannsókn á öðrum möguleikum sem leyst gætu þann mikla vanda sem við höfum ætið búið við í hafnamálum. Verður að sjálfsögðu, ef önnur lausn finnst, um að ræða fjárfrekt verkefni. Ég tel hins vegar óráð að fara nú að henda tugmilljónum króna í viðgerð á því, sem eins og ég áðan var að lýsa er okkur grátlega lítils virði, fyrr en slík rannsókn hefur farið fram.

Ég þykist vita að yfirlýsing hæstv. ríkisstj. um bætur okkur til handa hafi m.a. til komið þegar séð var hversu gölluð nýsett lög um Viðlagatryggingu Íslands reyndust. En það er ýmislegt fleira sem vekur menn til umhugsunar eftir slíka reynslu. Ég bendi í því sambandi á lög um almannavarnir, skipulagsmál þéttbýlisstaða á jarðskjálftasvæðum, sem vitað er um, og hönnun mannvirkja. En út í það fer ég ekki frekar hér, heldur vildi ég aðeins koma þessu hér á framfæri á hv. Alþ. því að þetta er mál sem ég lít svo á að verði að taka föstum tökum, því að staðreyndin er sú, að það eru mun fleiri og mun stærri staðir heldur en Kópasker sem eru á jarðskjálftasvæðum og það meiri jarðskjálftasvæðum heldur en Kópasker var talið fram til þessa a.m.k. En þetta var nú máske innskot.

En áður en ég segi skilið við þetta atriði í grg. minni verð ég því miður að láta í ljós nokkurn ótta í sambandi við framkvæmd á áðurnefndri yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. og þá einkum í því tilviki ef okkur heimamönnum er ætlað það hlutverk að leita dyrum og dyngjum í völundarhúsi ríkiskerfisins að svörum við því hvað sé hvers og hvers sé hvað, ef svo má segja, og verð að leggja áherslu á það aftur, eins og ég gerði hér áðan, að við þessa yfirlýsingu verði staðið og ríkisstj. fylgist með að það sé gert á viðunandi hátt. Það er álit mitt að kerfin geti svo e.t.v. í góðu tómi deilt um það hvað sé hvers í þessu efni: almannavarnir, Viðlagatrygging, Hafnabótasjóður, Bjargráðasjóður og hvað þetta allt saman heitir. Slíkt er því miður ekki á færi okkar heimamanna, og má kannske segja að við höfum um önnur kerfi frekar að hugsa að svo stöddu.

Þá er ég kominn að 2. lið í grg.: „Grundvöllur hefðbundinnar útgerðar frá Þórshöfn brostinn, á sama tíma sem nýtt og fullkomið frystihús stendur tilbúið til notkunar.“ Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst gegndarlaus ágangur annarra á hin hefðbundnu mið þeirra þórshafnarmanna, og ekki þarf að minna á framferði breta á friðaða svæðinu þarna einmitt rétt fyrir utan sem vissulega á sinn þátt í þessu. En heimamenn hafa bent m.a. á að sett yrði einhvers konar löggjöf er veitti þeim forgang að nýtingu sinna hefðbundnu miða með sínum hefðbundnu veiðiaðferðum. Þórshafnarbúar misstu af lestinni, ef svo má segja, í sambandi við kaup á skuttogara, enda voru þeir í þeim efnum nokkuð hikandi. Hér er vitaskuld um að ræða vandamál sem aðeins er hluti af enn miklu stærra vandamáli, sem er verndun og nýting fiskimiða okkar, og við verðum einnig að vona að hér sé um tímabundna erfiðleika að ræða. En mér er kunnugt um að nú að undanförnu hafa átt sér stað viðræður heimamanna og alþm., m.a. hæstv. forsrh., að ég held á laugardaginn var, um bráðabirgðalausn og hafa þær, að ég held, einkum beinst að því að kanna hvort ekki væri grundvöllur fyrir aflamiðlun sem — ef unnt reyndist — virðist jákvæðasta lausnin til bráðabirgða. En þessari athugun verður að hraða, því að nú í dag eru á milli 50 og 60 manns á atvinnuleysisskrá á Þórshöfn. Jafnframt verður svo vitaskuld að vinna að framtíðarlausn. Heimamenn hafa m.a. bent á og ekki þótt nóg að gert í sambandi við að efld yrði fiskileit, m.a. með því að kanna hvort ekki fyndust rækjumið eða skelfiskmið þarna rétt við bæjardyrnar hjá þeim, en í þeim efnum hefur þeim ekki fundist nóg að gert.

Þá er það 3. liður í grg.: „Yfirvofandi rekstrarstöðvun togaraútgerðar á Raufarhöfn, en hún er undirstaða atvinnulífs staðarins.“ Raufarhöfn er sá þéttbýliskjarni í Norður-Þingeyjarsýslu sem hefur hvað mesta sérstöðu. Sú var tíðin að Raufarhöfn malaði gull í þjóðarbúið, en svo fór sem fór og ástæðulaust að rekja það hér. Síldin kom og síldin fór og hefði það út af fyrir sig átt að verða okkur viðvörun, sem það að vísu varð að nokkru leyti. En það er ekki fyrr en nú á allra síðustu árum sem heimamenn hafa áttað sig á þeirri breytingu sem orðin var og þessi staður, sem fyrr malaði gull, stóð uppi allslaus því að lítið var eftir af gullinu á Raufarhöfn. Skipt var yfir og af vanefnum ráðist í kaup á skuttogara. Og það, sem fyrst og fremst hefur staðið þeirri útgerð fyrir þrifum, er að alla tíð hefur verið við slík vanefni að stríða að eðlilegum rekstrargrundvelli hefur ekki tekist að ná og hreppsfélagið hefur verið svo hlekkjað þessum stöðugu erfiðleikum útgerðarinnar að bitnað hefur á allri eðlilegri uppbyggingu og öðrum bráðnauðsynlegum verkefnum þess. Það er því bráðnauðsynlegt að veita Raufarhafnarbúum þá fyrirgreiðslu sem nægja mundi til þess að tryggja þann grunn sem þeir af vanefnum hafa og eru að berjast við.

4. líður í grg. er: „Brýn nauðsyn fyrirgreiðslu til þeirra ungu bænda í Hólsfjallabyggð sem þar hyggja á fasta búsetu. En hætta er á að þeim snúist hugur, verði dráttur þar á. Og er þá e.t.v. skammt að bíða algerrar eyðingar byggðar í Fjallahreppi.“ Hólsfjallabyggð er í verulegri hættu og það svo að ástæða þótti til, eftir að samþykkt var till. um gerð sérstakrar byggðaáætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu, að gera aðra sem ætti að hafa forgang og það var til tryggingar byggð á Hólsfjöllum, ekki aðeins í Fjallahreppi, heldur átti það einnig að ná austur yfir. Þrír ungir bændur hófu búskap í Fjallahreppi í trausti þess að þeim yrði veitt sú fyrirgreiðsla sem nauðsynleg var. En á því hefur staðið og er nú einn þeirra horfinn á braut, og slíkt hið sama verður um þá tvo, sem eftir sitja, að því er ég hef heyrt, fáist ekki nú á þessu ári sú fyrirgreiðsla sem lagt var til að veitt yrði í áðurnefndri áætlun eða grg. frá n. sem skipuð var í það mál. Ég legg áherslu á að þá er, eins og segir í grg., e.t.v. skammt að bíða algerrar eyðingar byggðar í Fjallahreppi.

Þá er ég kominn að 5. og síðasta tölulið í grg. minni. „Dráttur sá, sem orðið hefur á framkvæmd þáltill. Alþ. frá árinu 1972 um gerð sérstakrar byggðaþróunaráætlunar fyrir Norður-Þingeyjarsýslu.“ Hefði verið unnið með því sem ég vil nefna eðlilegum hætti og í anda þeirrar till. til þál. frá 1972 sem áður greindi, væri að öllum líkindum óþarft fyrir mig að leggja hér fram þá till. til þál. sem ég er nú að fylgja hér úr hlaði. Það var 1. apríl 1975 sem gefin var út heilmikil bók sem bar nafnið „Byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu, skýrsla og tillögudrög.“ Ég þykist vita að bæði dagsetningin, 1. apríl, og sú staðreynd, að þessi ritsmíð er mosagræn að lit, sé tilviljun, en táknrænt eigi að síður að mínu mati. Niðurstaða skýrslunnar sýnir svo neikvæða stöðu Norður-Þingeyjarsýslu að segja má að komið hafi ýmsum á óvart og jafnvel ýmsum er sýsluna byggja. Á sama tíma sem íbúatala landsins hefur tvöfaldast hefur engin fjölgun orðið í sýslunni. Á sama tíma sem allt ætlar, að því er virðist, um koll að keyra í þjóðarbúinu og talað er um 5-10% minnkun þjóðartekna, hvað það nú er, búa íbúar Norður-Þingeyjarsýslu við 25% — 1/4 lægri brúttómeðaltekjur en landsmeðaltal, svo að dæmi séu tekin, og er þá gjaldahliðin óuppgerð, svo sem 10–15 kr. dýrara hvert kg vöru og sú þjónusta öll sem sækja þarf langan veg eða seld er með okurverði heima fyrir, sbr. símakostnað og ótalmargt fleira.

Tilgangarinn með gerð þessarar byggðaáætlunar átti að vera sá að auka samkeppnisfærni þessa landshluta, að auka og efla trú heimamanna og annarra á framtíðarmöguleika þessa byggðarlags og snúa við þeirri óheillaþróun sem verið hefur. En svo að tilganginum sé náð þarf ekki að koma til aðstoð eða styrkur. Það er hátt sungið um það nú m.a. hér á hv. Alþ., að íslenska þjóðin hafi lifað um efni fram og geri enn, og rétt mun það vera. En ég held að öll þjóðin verði ekki með sanni sökuð um það, og ég held að ef þeir, sem sekir eru, eru látnir greiða eðlilega yfirdráttarvexti, ef svo má segja, til þeirra sem gætt hafa stöðu síns hlaupareiknings, væri betur og öðruvísi umhorfs í okkar þjóðfélagi.

Nefnd byggðaáætlun mun fyrir nokkru hafa verið send hæstv. ríkisstj. til staðfestingar, en virðist eiga í nokkrum erfiðleikum með að komast þaðan aftur, hvað sem veldur. Hvernig staðið var að gerð þessarar áætlunar sætti mikilli gagnrýni heimaaðila og þá sérstaklega sú furðulega ákvörðun að sleppa undirstöðuatvinnuvegi sýslunnar, landbúnaðinum. Mig langar — með leyfi herra forseta — að vitna hér í inngang að nefndri áætlun, en þar segir m.a. :

„Stjórn Framkvæmdastofnunar tók ákvörðun um áætlunargerð þessa hinn 12. sept. 1972 og fylgdu þau fyrirmæli að aðaláhersla verði framan af lögð á atvinnulíf sjávarþorpa landshlutans. Þetta byggðist á mikilvægi þéttbýlisstaðanna varðandi atvinnulíf og byggðaþróun sýslunnar. Einnig gætti í þessu vissrar varkárni gagnvart óskum um meiri stuðning við þróun venjulegrar búvöruframleiðslu en almennt er veitt.“ Ég endurtek: „Einnig gætti í þessu vissrar varkárni gagnvart óskum um meiri stuðning við þróun venjulegrar búvöruframleiðslu en almennt er veitt, auk þess sem Landnám ríkisins hefur sérstöku hlutverki að gegna við áætlunargerð um varðveislu búskapar í byggðum sem standa höllum fæti. Hins vegar var talið mjög áhugavert að kanna hvers konar nýja möguleika á sviði landbúnaðar sem ekki njóta verulegs almenns stuðnings.“ Ég endurtek: „sem ekki njóta verulegs almenns stuðnings, svo sem fiskirækt.“

Í þessari tilvitnun kemur mjög skýrt fram að mínu mati dæmi um þann blekkingaáróður, sem ég leyfi mér að nefna svo, meðvitaðan eða ekki, um það skal ég ekki dæma, sem hafður hefur verið frammi í umr. um landbúnaðarmál og um byggðamál og byggðastefnu almennt. Ég þykist muna það rétt, að eitt höfuðmarkmið núv. hæstv. ríkisstj., svo og vinstri stjórnarinnar sálugu, hafi verið þróttmikil byggðastefna, og allir stjórnmálaflokkar halda nú hátt á lofti fána þeim sem Gísli Guðmundsson dró fyrstur manna að húni. En það, sem mér finnst einkennt hafa málflutning stjórnmálamanna og annarra er um byggðastefnu eða byggðamál hafa fjallað, er sífellt tal um aðstoð, stuðning eða styrki til handa þessu eða hinu byggðarlaginu. Þetta kemur mér furðulega fyrir sjónir, og mér finnst það liggja í hlutarins eðli að slíkur málflutningur sé málstaðnum sem slíkum ákaflega neikvæður. Hann er neikvæður fyrir þá sem talað er um að þurfi t.d. aðstoðar eða styrkja við, þar sem þeir kunna að fá það á tilfinninguna að þeir séu einhverjir ölmusumenn í íslensku þjóðfélagi, neikvæður þeim, sem e.t.v. fá þá flugu í höfuðið að þeir séu að láta eitthvað af hendi af eigum sínum, líkt og um góðgerðastarfsemi sé að ræða, enda blasa afleiðingar þessa málflutnings hvarvetna við. Jafnvel heyrist frá sjálfum forustumönnum íslenskra bænda tal um nauðsyn á styrkjum og aðstoð landbúnaðinum til handa. Ég er nú enginn hagfræðingur eins og fleiri hér á hv. Alþ., en ég þykist sjá þá einföldu staðreynd að allt líf okkar hér á landi sem annars staðar sé komið undir afrakstri lands og sjávar. En þá kemur e.t.v. spurningin: Hvernig stendur á þessum málflutningi? Mín skoðun er sú að um sé að ræða afleiðingar af þeirri vestrænu — e.t.v. sýndargróðahagfræði, sem ég hef leyft mér að nefna svo, sem við höfum búið við. En ýmislegt er það sem bendir nú til þess að þessi hagfræði sé sem óðast að ganga af sjálfri sér dauðri. Finnst hv. alþm. það ekkert kaldhæðnislegt að tala um offramleiðslu, hvort sem er á mjólk eða öðrum matvælum, á sama tíma sem 75% íbúa jarðar líða skort? Og hvernig væri umhorfs í heiminum ef hin gamla og gullna regla kapítalísmans hefði fengið að ná til allra jarðarbúa, þ.e.a.s. reglan að framboð og eftirspurn skuli ráða öllum hlutum? Nei, gallinn er sá að þessi að mörgu leyti ágæta regla hefur aldrei tekið til annars en ákveðins ramma sem kapítalisminn hefur markað sér að eigin geðþótta. Það er hægt að taka mörg dæmi um þetta. Ég ætla ekki að gera það hér.

Herra forseti. Ég er nú ungur að árum og ég man ekki það langt aftur í tímann að efnahagsörðugleikar og vandamál þeim samfara hafi ekki verið sífelldur höfuðverkur stjórnvalda. En það er þannig með langvarandi höfuðverk að hann verður ekki læknaður með því að taka inn eina magnyltöflu. En einhvern veginn finnst mér það einmitt vera það sem alltaf er verið að gera. E.t.v. má líkja okkur við eiturlyfjasjúklinga sem alltaf þurfa meira og meira. Ein gengisfelling, 25% verðbólga, önnur gengisfelling, 50% verðbólga og svo áfram. Flestir vita hver verða yfirleitt að lokum örlög slíkra sjúklinga. En þótt útlitið hafi verið svart, — eins og ég sagði áðan er ég ungur maður og bjartsýnn, — og allir sjóðir eru sagðir tómir, þá er þetta nú ekki svo síæmt. Við eigum til allrar hamingju sjóði með innstæðum. Við eigum stórbrotið og víðáttumikið land sem hefur að bjóða ómengað loft og vatn og ómælda orku, svo að dæmi séu tekin. Við eigum eitt stærsta matvælaforðabúr, sem ein þjóð getur státað sig af, í sjónum í kringum okkur. En jafnvel allir þessir sjóðir eru forgengilegir og sá tími getur ekki verið langt undan að við áttum okkur á því að á höfuðstól þessara sjóða má ekki ganga og við verðum að láta okkur nægja vextina.

Hv. alþm. kann nú að þykja ég kominn eitthvað út fyrir ramma till. þeirrar sem ég er hér að fylgja úr hlaði. En hvað um það, ef ég sný mér beint að henni aftur og þá síðasta tölulið grg. minnar, þá vil ég leggja áherslu á að hæstv. ríkisstj. staðfesti hið fyrsta áðurnefnda áætlun svo að hægt verði að vinna áfram að frekari útfærslu hennar, ef svo má segja. E.t.v. er það svo að hæstv. ríkisstj. áliti að með staðfestingu sé stefnt í einhver stórkostleg fjárútlát. Ég hef a.m.k. ekki fundið það í þessari skýrslu, heldur sé þetta fyrst og fremst staðfesting á áframhaldandi störfum, því að vissulega er hér um spor í rétta átt að ræða þótt umdeilt hafi verið.

Mér er það fullljóst að vandamál okkar Norður-Þingeyinga eru ekkert einsdæmi. En ég legg áherslu á það að þótt útgjaldaaukning sé e.t.v. óhjákvæmileg nái till. mín fram að ganga og fái eðlilega afgreiðslu hæstv. ríkisstj., er hún að mínu mati einmitt til þess að forða frá enn frekari og ófyrirséðum margföldum útgjöldum áður en langt um líður.

Ég vil að svo mæltu leggja til að till. minni verði vísað til allshn. og fái þar skjóta meðferð og verði afgreidd á þessu Alþingi.

Að lokum vil ég þakka forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að fylgja þessari till. minni úr hlaði áður en ég yfirgef þetta virðulegasta leikhús þjóðarinnar.