25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Út af síðustu orðum hv. 12. þm. Reykv., þá skildi ég orð hv. þm. Kristjáns Ármannssonar þannig að hann notaði þau í gamni, en ekki að hann vildi kasta neinni rýrð á Alþ., enda þykir mér það ólíklegt ef hv. þm. Kristján Ármannsson notar slík orð í óvirðingarskyni um Alþ. Ég get hins vegar tekið undir þá ádrepu sem hv. þm. Albert Guðmundsson hafði hér almennt um að okkur ber að halda uppi virðingu Alþingis og við eigum ekki að beina neinum óvirðingarspjótum gagnvart þinginu. Undir það hlýt ég að taka og mun ætíð gera. En ég vil nú bera blak af hv. þm. Kristjáni Ármannssyni. Ég fylgdist vel með orðum hans og fann það á tóninum að hann sagði þetta raunar í gamni, en ekki í alvöru, enda mun þetta stundum hafa borið á góma hér áður sem gamanmál.

En í sambandi við það mál, sem hér er til umr., þá vil ég leyfa mér að taka undir þá till. sem hér er flutt og ég vil taka mjög undir það mál sem tillögumaður hefur flutt fyrir sinni till., því að það er óhætt að segja að í öllum greinum var mál hans þannig að þar var rétt og satt skýrt frá ástæðum í öllum höfuðatriðum, einkum hvað varðaði ástandið í Norður-Þingeyjarsýslu, atvinnuástandið þar, og hvílík nauðsyn er á því að bæta þar úr. Því miður er það nú samt svo, að þetta er ekkert nýtt vandamál í Norður-Þingeyjarsýslu. Norður-Þingeyjarsýsla hefur verið nú um mjög langt skeið á vissan hátt á afturfarastigi að því leyti til, að þar hefur orðið ekki eingöngu hlutfallsleg fólksfækkun, heldur hefur þar orðið bein fólksfækkun, beint í tölum talið, og mun vera það landssvæði þar sem fólki hefur einna mest fækkað hér í landinu, þannig að þetta er ekkert nýtt að svo sé. Þannig var þetta t.d. á árabilinu frá 1960–1970 og þar á eftir, að þessi þróun átti sér stað, mjög alvarleg þróun. Á þessu tímabili varð mikil byggðaröskun. Og það var einmitt af þeim ástæðum sem menn hafa leitt kannske meira hugann að nauðsyn þess að gera sérstakt átak til þess að reisa við hag þessarar sýslu, þessara byggða, gera það með beinum áætlunum. Sá þm., sem mjög lengi var þm. fyrir Norður-Þingeyjarsýslu sem kjördæmi og siðar þm. alls Norðurl. e., Gísli heitinn Guðmundsson, við vitum, að þessi mál brunnu mjög á honum einmitt vegna staðþekkingar, og hann var mikill frumkvæðismaður að því að þessi mál, byggðaþróunarmálin, væru rædd hér og tekin skipulega á Alþ. og af ríkisvaldi. Einmitt reynsla hans sem þm. norður-þingeyinga kenndi honum hvílík nauðsyn var að vinna að málum á þann veg. En vissulega sá Gísli Guðmundsson þetta mál í miklu víðara samhengi.

Það hefur borist hér í tal að Framkvæmdastofnun ríkisins hafi látið gera sérstaka byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Það er rétt, sem fram kemur hér á þskj., að ályktun var gerð í þessa átt á Alþ. vorið 1972 og þessu máli var síðan af ríkisstj. vísað til Framkvæmdastofnunarinnar á því ári. En þá var Framkvæmdastofnunin ný og rétt að taka til starfa og hafði ekki mannafla sjálf til þess að vinda sér að því að gera þessa áætlun innan stofnunarinnar, enda var þá búið þegar að fela henni mjög mikil verkefni sem hún hlaut að sinna. Því var það að það leið nokkur tími áður en farið var að vinna að þessari áætlun. En vorið 1973 var sérstakt verkfræðifirma hér í Reykjavík ráðið til þess að vinna að byggðaþróunaráætluninni undir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og í umboði hennar og að sjálfsögðu í samráði við heimaaðila. Þessi verkfræðistofa vann síðan mjög mikið og gott verk og skilaði verki sínu á árinu 1974, má segja, að langmestu leyti og síðan endanlega 1975 um vorið. Síðan var áætlunin til meðferðar hjá Framkvæmdastofnuninni fram á haustið 1975, þ.e.a.s. fram í okt., þá var hún endanlega samþ. á fundi í Framkvæmdastofnuninni og þá send ríkisstj. til staðfestingar.

Nú hafa liðið allmargir mánuðir, því miður, og mér er ókunnugt um að ríkisstj. hafi staðfest byggðaþróunaráætlunina. Það er alilangt síðan ég ásamt öðrum þm. úr Norðurl. e. beindi skrifl. fsp. til ríkisstj. um þetta mál, en svar hefur ekki borist enn þá við henni. En ég reikna með að hún komi til umr. í næstu viku, eða ég vona að svo verði.

Það er ákaflega auðvelt í sjálfu sér, eins og því miður kom hér fram hjá tveimur hv. ræðumönnum, að gera lítið úr byggðaþróunaráætluninni. Ég held að ég finni það einna helst að þeim ræðum sem þeir fluttu hér, hv. frsm. og hv. þm. Stefán Jónsson, að mér fannst eins og tónninn gagnvart byggðaþróunaráætluninni væri óþarflega neikvæður að ýmsu leyti. Sannleikurinn er sá að þessi byggðaþróunaráætlun hefur ýmsa kosti, og hún hefur a.m.k. einn höfuðkost að mínum dómi, og ég hygg að hv. þm. Stefán Jónsson geti orðið mér mjög sammála um bað, við erum að vissu leyti sammála um það allir, og það er að áætlunin gengur ekki út á það að umsteypa, umbylta norður-þingeysku mannlífi. heldur að halda því nokkurn veginn í því horfi sem er, þ.e. að áfram verði landbúnaður og sjávarútvegur höfuðatvinnugreinar sýslunnar og það verði bændur og sjómenn sem setji svip sinn á mannlíf Norður-Þingeyjarsýslu. Þetta tel ég vera höfuðkost þessarar áætlunar og vil gjarnan að gefnu tilefni benda á þetta atriði.

Sama er að segja um áætlunina sem í gangi hefur verið varðandi byggð á Hólsfjöllum. Ég vona að svo þurfi ekki að fara og ég vona að það sé óþarfasvartsýni, sem hér hefur komið fram í ræðustól, að þeir ungu menn, þeir bændur, sem leitast hefur verið við að stuðla að að byggju áfram á Hólsfjöllum, — ég vona að það þurfi ekki að koma til þess að þeir flytjist þaðan brott, jafnvel þótt svo kunni að vera að viss dráttur hafi orðið á tilteknum fjárframlögum. Eigi að síður er það staðreynd að það er búið að verja þegar allmiklu fé til umbeðinnar uppbyggingar þar, og ég hef þá trú að það verði ekki látið við það eitt sitja. Og ég vona að þessir menn hafi þolinmæði til þess að biða og vinna að því að þetta nái fram að ganga, því að það er rétt sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði hér áðan, að það er hryggileg tilhugsun ef svo fer að Hólsfjallabyggðin leggst í eyði. Það þýðir það, ef byggðin á Hólsfjöllum leggst í eyði og yfirleitt Fjallabyggðin, — ég meina þá Möðrudal líka og Víðidal, — ef þessi byggð tæmist, þá þýðir það að það verður engin mannabyggð á svæðinu úr Mývatnssveit allt austur á Jökuldal. Þetta er þess vegna sannarlega stórmál, og það snertir ekki bara það fólk, sem þarna býr, heldur í raun og veru snertir það landið í heild að þessi byggð nái að halda sér. Og ég vona og ég er svo bjartsýnn og ég trúi því satt að segja að þeir ungu menn einkum, sem við höfum haft í huga í sambandi við vissa uppbyggingu á Hólsfjöllum, — ég hef þá trú að þeir hafi biðlund og þolinmæði til þess að vera þar áfram, enda hafa þeir vissulega bundið sér ýmsa bagga í því sambandi og þeir standa þar í mikilli uppbyggingu. Þeir eiga sannarlega allt gott skilið og þeir eiga mikinn stuðning skilið í því sambandi, og ég hef þá trú að hann verði veittur þó að einhver dráttur kunni að hafa orðið á því. Að þessu leyti er ég ekki svartsýnn.

Hins vegar hef ég verulegar áhyggjur af því sem nú er að gerast á Þórshöfn. Það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því sem þar er að gerast. Þar hefur atvinnugrundvöllurinn brostið, má segja, nokkuð óvænt að því leyti til að fiskimiðin, sem löngum hafa verið mjög í kringum Langanes og á Þistilfirði, þessi mið hafa stórlega rýrnað. Það sýndi sig á síðasta ári, og það hefur sýnt sig á þeim mánuðum sem liðnir eru af þessu ári, þannig að sá bátafloti, sem er á Þórshöfn og jafnvel er stærri en hann var fyrir nokkrum árum, hann veiðir nú helmingi minna aflamagn heldur en var fyrir 3–4 árum. Þetta er mikið alvörumál, og hefur mjög komið til kasta okkar þm., eins og hér hefur borið á góma, að ræða þessi mál og finna lausn á þeim í samráði við heimamenn og samkv. þeirra beiðni. Við höfum, þm., ekki einu sinni, heldur oftar átt viðræður við ráðh. um þessi mál. Segja má þess vegna að þau séu nokkuð í gangi. En því miður verður ekki séð á þessari stundu til hverrar lausnar verður gripið.

Vissulega er það rétt, sem hér hefur komið fram, að það, sem Þórshafnarmenn vantar fyrst og fremst, er öflugt fiskiskip sem getur sótt lengra en á þessi uppurnu heimamið. Það er vissulega rétt. En því miður höfum við rekið okkur aftur á aðrar ástæður hér í landinu, að það hafa verið settar nýjar reglur um skipakaup, og svo hitt, að sú stefna virðist vera mjög uppí hjá ráðamönnum að ekki beri að fjölga fiskiskipum meira í landinu vegna þess ástands sem almennt er á fiskstofnunum og á fiskimiðunum. Ég verð að segja að af þessu hef ég miklar áhyggjur og hygg að sé það mál sem er einna brýnast af því sem gera þarf í málefnum norður-þingeyinga nú. En hitt er jafnvíst, eins og ég hef raunar sagt, að allt það sem fram kemur í þessari till. og grg. hennar og í ræðu flm. hennar, allt er þetta rétt með farið, að þessum málum öllum þarf að hyggja, þó að einhver áherslumunur kunni að vera í því hjá okkur hvað brýnast sé og hvar hættan sé mest.

Ég hef bent á það áður að þessi óheillaþróun og mikla búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu er ekki ný af nálinni. Þetta er gamalt mál, því miður. Þetta hefur verið að gerast í gegnum árin og raunar mestalla þessa öld. En líklega hefur það verið einna verst á áratugnum eftir 1960 og fram undir þetta, þannig að það er full ástæða til þess að grípa hér í taumana. Ég held að þó að byggðaþróunaráætlunin, sem hér hefur mjög borið á góma, sé ekki gallalaus og þurfti að bæta á ýmsan hátt, þá held ég samt, að hún sé mjög gagnlegur leiðarvísir í þessu efni og þess háttar að norður-þingeyingar mundu sætta sig vel við ef kjarni hennar yrði framkvæmdur og ef sú stefna, sem hún boðar, kæmist í framkvæmd.