25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Kristján Ármannsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt, einkum tvö atriði. Vil ég þá byrja á því að biðja hv. þm. Albert Guðmundsson afsökunar ef ég hef komist þannig að orði að það hafi sært hann, sú var ekki ætlunin. Þetta var, eins og einhver sagði, „innan gæsalappa“ hér hjá mér, en e.t.v. hefði ég átt að segja frekar leikvöllur heldur en það sem ég sagði. En eins og kom fram hefur þetta því miður verið til umr. fólks á meðal, og þegar ég kem hingað í hv. Alþ. eru það ýmsir af hv. alþm. sem bjóða mig velkominn í leikhúsið. Þetta var síður en svo sagt í neinni niðrandi merkingu við þessa vissulega virðulegustu stofnun landsins. Og ég minnist þess að á framboðsfundi einhvers staðar sagði ég eitthvað á þá leið, að sé talað um hv. Alþ. sem leikhús, þá hlýtur allt þjóðfélagið og öll þjóðin að vera eitt allsherjarleikhús vegna þess að Alþ. er og getur aldrei verið annað en spegilmynd þjóðarinnar að mínu mati. Alþ. er óneitanlega og verður vonandi um alla framtíð virðulegasta stofnun þessarar þjóðar. En sem sagt, hafi ég komist þannig að orði að óviðurkvæmilegt hafi verið, þá bið ég herra forseta og aðra afsökunar á því.

En svo var aðeins eitt atriði. Ingvar Gíslason, hv. þm., sagði eitthvað á þá leið, að e.t.v. það, sem hann hafi helst haft út á að setja, væri það að ég hafi gert of lítið úr þessari byggðaþróunaráætlun. Þá vil ég segja það að ef við skiptum henni í tvennt, þ.e.a.s. nafnið á henni var „Byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu, skýrsla og tillögudrög“, þá er ég mjög ánægður með fyrri hlutann, en ég hef lýst því yfir áður á fundum um seinni hlutann, þ.e.a.s. það sem við getum kallað tillögudrög sem eru að mörgu leyti ákaflega óljós, að mér fyndist hann ekki bera vott um bjartsýni eða, eins og ég held að ég hafi orðað það, þróttmikla byggðastefnu. Sem dæmi um það er að t.d. það svæði sem ég nefndi hér fyrst, þ.e.a.s. Kópasker og þeir þrír hreppar sem Kópasker er þjónustumiðstöð fyrir, er nú þegar eða var réttara sagt búið að ná þeirri stöðu sem lagt var til í þessari byggðaþróunaráætlun. Og ef einhver skyldi nú standa í þeirri meiningu að það væri eitthvað út frá þessari áætlun sem þessi framþróun hefur þarna verið eða það væri vegna þess að til okkar hefði komið einhver sérstök fyrirgreiðsla, þá er slíkt alger misskilningur. Þetta var byggt upp algerlega af heimamönnum og án þess að þessi byggðaáætlun kæmi, svo að hægt sé að nefna, inn í það. Það vil ég hins vegar taka undir, að við norður-þingeyingar stefnum, held ég, hvergi að neinu borgríki, ef svo má segja, heldur að geta treyst stöðu okkar. Ef við tökum sem dæmi Kópasker, þá er þetta, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, ákaflega lítill staður og Kópasker er ekkert annað en þjónustumiðstöð aðliggjandi sveitahreppa fram til þessa. Það er kominn vísir þar að útgerð núna, en vegna þess hversu byggðin er lítil, þá verður þessi þjónustumiðstöð ákaflega dýr, og það hlýtur hver maður að sjá að vöxtur upp að vissu marki er allur til hagsbóta. En við erum, held ég, hvergi í Norður-Þingeyjarsýslu að fara fram á að þar verði stofnaðar borgir, kaupstaðir eða annað því um líkt.

Að lokum vil ég færa hv. alþm., sem tekið hafa til máls, bestu þakkir fyrir þær undirtektir sem þessi till. mín hefur fengið.