29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú öllum ljóst að þeir hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Norðurl. e. sitja í faðmlögum eftir þessar umr. og er það falleg og góð mynd.

Ég vil leyfa mér að taka undir það sem hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni, að það yrði okkur til skammar og minnkunar ef Alþ. ætti að seilast niður í vasa þeirra höfðingsmanna sem viðurkenningu hljóta erlendis. Ég tel þá aðila, sem um ræðir í frv., Ólaf Jóhann Sigurðsson og Atla Heimi Sveinsson, mjög vel að þessum verðlaunum komna og fagna því að við skulum hafa fengið þarna tvenn verðlaun á sama árinu, tvær mikilvægar viðurkenningar frá Norðurlöndum til viðbótar við það sem áður var komið, eins og kemur fram í grg. með frv., Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness og Sonningverðlaunin. Og ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv. og mun greiða götu þess. En ég hefði talið eðlilegt að undanþiggja alla afreksmenn þjóðarinnar sköttum og útsvörum þegar þeir hljóta viðurkenningu þá sem í því felst að óskað er eftir því að þeir flytji boðskap sinn eða tjáningarform meðal erlendra þjóða. Hér á ég við þá leiklistarmenn eða aðra listamenn sem koma fram erlendis sem gestaleikarar eða gestir án fastráðningar. Ég vil undirstrika það, að ég á þar við alla listamenn og úr öðrum listgreinum en þeim sem ég tiltók, að þeir njóti skilnings okkar sem heima sitjum og fyllumst stolti, — ég vil segja það, því ég fyllist stolti þegar ég sé í fjölmiðlum, í sjónvarpi eða annars staðar, að íslendingur hafi verið boðberi íslenskrar menningar á einhverju sviði og vekur athygli meðal erlendra þjóða á okkar litla þjóðfélagi. Mér finnst að við eigum að vera það stórir, sem heima sitjum, að við eigum að veita þeim þá viðurkenningu sem við getum.

Nokkrum sinnum hefur Róbert Arnfinnsson verið heiðraður sem leikari með boði um að leika sem gestaleikari erlendis. Að sjálfsögðu tekur hann þóknun fyrir slíkar ferðir. En tekjur þær, sem hann hefur fengið erlendis, hafa íþyngt honum svo skattalega að hann telur sig ekki lengur geta án fjárhagstjóns tekið slíkum boðum. Ég tel það skaða fyrir íslensku þjóðina. Ég tel það hreint og beint skaða íslensku þjóðina ef menn í einhverri listgrein geta ekki um stundarsakir tekið erlendum boðum og þar með túlkað íslenska menningu meðal stórþjóðanna án þess að hreinlega bíða fjárhagslegt tjón af því. Ég vil segja það, að þegar þjóðin eignast afreksmenn á einhverju sviði, — ég vil ítreka það, ég er reyndar búinn að segja það áður, — þá á hún að kunna að meta þá öfundarlaust og greiða götu þeirra á öllum sviðum svo að frami þeirra heima og erlendis verði þeim sjálfum ekki síður en þjóðinni til ánægju. Ég beini því til hæstv. fjmrh. að hann beiti sér fyrir frv. til l. sem geri listamönnum okkar almennt auðveldara að njóta uppskeru vinnu sinnar að dagsverki loknu, og ég vil ítreka fylgi mitt við þetta frv. sem hér er um rætt.