04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Á þskj. 32 flytjum við þrír þm. Alþb., hv. þm. Jónas Árnason og Helgi F. Seljan ásamt mér, till. til þál. um rannsókn á fjárreiðum stjórnmálaflokka og löggjöf um það efni. Fyrir tveimur árum fluttum við hinir sömu till. hér á Alþ. um svipað efni. Sú till. fékkst þá ekki afgr. þótt hún væri flutt snemma á þingi, að sjálfsögðu vegna þess að hún hlaut ekki nægan stuðning annarra flokka.

Þeir þm. annarra flokka, sem helst höfðu orð á því á sínum tíma, bæði í umr. og í blaðaskrifum, að þeir væru fúsir til að samþykkja till. af þessu tagi, voru þm. úr Sjálfstfl. Það var sem sagt á þm. þess flokks að skilja að Sjálfstfl. væri fús að samþ. nefndarskipan til þess að athuga þetta mál og yrði n. falið að semja drög að löggjöf um fjármál flokkanna. En þegar á reyndi kusu þm. Sjálfstfl. að leggjast á málið og ræða það í stað þess að standa við stóru orðin og tryggja framgang þess. Sjálfstfl. og Alþb. hafa lengi ráðið yfir meiri hl. atkvæða hér á Alþ. og hefðu því átt auðvelt með að koma þessu máli í höfn, hvað sem leið afstöðu annarra flokka, ef vilji hefði verið fyrir hendi. Það varð ekki og þess vegna hafa þessi mál legið í þagnargildi þar til nú í sumar.

En á þessu sumri fóru að gerast hin merkustu tíðindi. Fyrirtæki eitt hér í borginni fékk úthlutað lóð á svæði sem áður hafði verið samþ. í borgarstjórn að vera skyldi óbyggt svæði, svonefnt grænt svæði, einn af gróðurreitum borgarinnar. Þetta vakti mjög mikla athygli almennings, því að hér var um mjög dýrmæta lóð að ræða sem mátti og má nota undir stórhýsi með fjölmörgum íbúðum, en öðrum var ekki gefinn kostur á að sækja um þessa lóð. Jafnframt var það upplýst, sem ekki var víst ætlunin að upplýstist, að sama fyrirtæki hefði greitt 1 millj. kr. í húsbyggingarsjóð Sjálfstfl. Þetta var viðurkennt opinberlega af borgarstjóra og borgarstjórnarflokki Sjálfstfl. og málið sent saksóknara ríkisins og Sakadómi Reykjavíkur til frekari rannsóknar. Kjarni þessa máls er afar einfaldur og eftir stendur það eitt að fá úr því skorið hvort og þá hvaða samband var á milli þessara tveggja atburða, úthlutunar lóðar, sem ekki átti að úthluta, og greiðslu 1 millj. kr.

Ég ætla ekki að bæta hér neinu við þær staðreyndir sem fram hafa verið lagðar í þessu máli. Þetta var framhaldssaga í fjölmiðlum landsins um langt skeið og þm. þekkja þessa sögu. Í margar vikur biðu menn spenntir eftir því á hverjum morgni að sjá dagblöðin, því að alltaf var eitthvað nýtt að koma í ljós og jafnframt fléttuðust innanflokksátök Sjálfstfl. inn í myndina á nokkuð sérstæðan hátt. Skrif tveggja stuðningsblaða Sjálfstfl., Morgunblaðsins og Vísis, sýndu ótvírætt að reynt var að einangra málið við ákveðinn hv. þm., einn af forustumönnum Sjálfstfl. í borgarstjórn, og hagnýta það til að gera hann pólitískt óvirkan. Þetta fór á annan veg og endaði svo, eins og ég áðan sagði, að allur borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. neyddist til að taka á sig ábyrgðina.

Síðan hefur fátt verið af þessu máli að frétta þar til nú á allra seinustu dögum, að upp rís einn af hv. þm. Sjálfstfl. hér á Alþ., hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, og leggur fram frv. sem felur það í sér að þetta margnefnda fyrirtæki, sem fékk lóðina frægu og greiddi 1 millj. til Sjálfstfl., fái endurgreitt úr ríkissjóði 530 þús. af þessari einu millj. sem það greiddi Sjálfstfl. Eins og kunnugt er gengur frv. hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar út á það að tekjur jafnháar og nemur gjöfum til stjórnmálaflokka skuli vera skattfrjálsar, tekjuskattur félaga er nú 53% og þannig er þessi upphæð fengin. Þetta er óneitanlega mjög sérkennilegt innlegg í svonefnt Ármannsfellsmál.

Nú munu margir áreiðanlega velta því fyrir sér hvers vegna þessi ágæti hv. þm. er svo smekkvís að leggja til einmitt núna fyrir hönd Sjálfstfl., í beinu framhaldi af svonefndu Ármannsfellsmáli, að ríkissjóður hlaupi undir bagga með þessu fyrirtæki, sem fékk lóðina, og borgi meiri hlutann af gjaldinu til Sjálfstfl. Ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér, ekki síst eftir umr. hér á Alþ. í gær, og ég er ekki frá því að ég hafi fundið eina skýringu. Ef flett er upp í skattskrá Reykjavíkur fyrir 1975 kemur nefnilega í ljós að sama árið og hlutafélagið Ármannsfell snarar út 1 millj. kr. í flokkssjóð Sjálfstfl. fær það í tekjuskatt upphæð sem nemur aðeins 145 976 kr. Það táknar sem sagt, að félagið hefur ekki haft nema 275 426 kr. í hreinar álagðar tekjur, enda þótt veltan hafi verið dálítið meiri, þ. e. a. s. næstum þúsund sinnum meiri, um 236 millj. kr. Hlutafélagið Ármannsfell er sem sagt eitt af þessu mörgu fyrirtækjum sem er nánast á köldum klaka ef dæma má af skattskránni og hefur haft í skattlagðar tekjur minna en einn öryrki eða ellilífeyrisþegi, sem ekki hefur annað að lifa af en tekjutrygginguna eina. Þessi vesalings aumingi, sem er svo illa staddur fjárhagslega, lendir sem sagt í því óláni að vera látinn borga 1 millj. til Sjálfstfl. Það er næstum fjórum sinnum hærri upphæð en nam nettótekjum félagsins á s. l. ári. Það virðist því liggja afar beint við að álykta, a. m. k. meðan ekki koma fram aðrar og skynsamlegri skýringar, að eftir útkomu skattskrárinnar hafi þeir sjálfstæðismenn fengið svolítið samviskubit, og hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, sem ekkert má aumt sjá, eins og allir vita, virðist hafa tekið að sér það hlutverk að beita sér fyrir því hér á Alþ. að Ármannsfell hf. fái 530 þús. kr. endurgreiddar úr ríkissjóði.

Frv. hv. þm. fjallar að vísu ekki eingöngu um viðskipti Ármannsfells hf. við Sjálfstfl. Það fjallar um þess háttar viðskipti almennt, um framlög fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka og annarra líknarstofnana. Það er tilgangur flm. frv., Eyjólfs K. Jónssonar, að koma viðskiptum af þessu tagi í kerfi með 53% eða 40% aðild ríkissjóðs eftir því hvort um er að ræða félag eða einstakling. Þannig virðist a. m. k. beinast liggja við að álykta eftir það sem á undan er gengið í viðskiptum þeirrar líknarstofnunar við styrktarmenn sína sem hv. þm. er hér fulltrúi fyrir.

Snúum okkur að efni þeirrar till. sem hér liggur fyrir.

Áður en frv. hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar var lagt fram hér í þingi, nánar til tekið tveimur dögum áður, kom fram till. okkar þremenninga úr Alþb. um rannsókn á fjárreiðum stjórnmálaflokkanna. Í till. er á það bent að líklega sé Ármannsfellsmálið ekkert einsdæmi. Það eru sams konar rök og hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson gengur út frá einnig í till. sinni, en við teljum nauðsynlegt að mál af þessu tagi séu rannsökuð almennt. Um það held ég að allir hv. þm. ættu að geta orðið sammála. Við höfum líka áhuga á því eins og fyrrnefndur hv. þm. að ríkissjóður styrki starfsemi stjórnmálaflokkanna. Við bendum á að starfsemi stjórnmálaflokkanna er grundvallaratriði í stjórnskipun íslendinga og til þess að gegna því hlutverki sínu, að vera tengiliður kjósenda og Alþ. verða flokkarnir að hafa talsverð umsvif. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt — og þarf ekki að orðlengja það frekar — að reynt sé að hamla gegn því eins og frekast er unnt að fjársterkir einstaklingar eða fyrirtæki beiti fjármagni sínu til að afla sér fríðinda eða hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir í eiginhagsmunaskyni. Þess vegna virðist eðlilegast að stjórnmálaflokkum séu áætlaðar ákveðnar lágmarkstekjur eftir fastákveðnum lýðræðislegum reglum.

Í flestum nálægum löndum hafa verið tekin upp ríkisframlög til styrktar starfsemi stjórnmálaflokka. Víða eru þessi framlög miðuð við kjósendafylgi flokkanna. Þannig mun þetta vera á Norðurlöndum, en í nokkrum löndum, þ. á m. í Vestur-Þýskalandi, er fyrst og fremst miðað við þingmannafjölda hvers flokks, a. m. k. er það eftir upplýsingum sem ég hafði um þessi mál, en eru að vísu nokkurra ára gamlar, því að þessi skipan mála hefur verið upp tekin í nær öllum nálægum löndum, fyrir allmörgum árum víðast hvar. Vafalaust er það í bestu samræmi við almennar lýðræðisreglur að kjósendur hafi jafnan rétt til þess að ákveða hvernig framlögum skuli skipt milli stjórnmálaflokka og ég hef ekki orðið var við að bræðraflokkar Sjálfstfl. í nálægum löndum, hægri sinnaðir flokkar, hafi talið eðlilegt að fjársterkir aðilar utan þjóðþinganna tækju ákvarðanir um framlög ríkisins til stjórnmálaflokkanna.

Ég vil í þessu sambandi benda hv. alþm. á litla fréttaklausu sem birtist í októberhefti Nordisk Kontakt sem fyrir fáum dögum hefur verið dreift hér á borð til þm., en þar er einmitt fjallað um skipan þessara mála í Noregi. Að vísu er ekki gerð þar grein fyrir þeim lagareglum sem þar er farið eftir, en þar er fyrst og fremst upplýst að ríkisstyrkur til stjórnmálaflokka verði aukinn um 3 millj. frá s. l. ári, ef till. ríkisstj. nái fram að ganga, og hann verði þá á næsta ári 17 millj. norskar kr., en það eru rúmar 500 millj. ísl. kr. Ef við tökum fólksfjölda þessara tveggja landa, Íslands og Noregs, til samanburðar, þá væri samsvarandi tala einhvers staðar nærri 25 millj. ísl. kr. Til viðbótar þessu greiðir ríkið 13 millj. norskra kr. til starfsemi stjórnmálaflokka að sveitarstjórnarmálum og er ætlast til þess að upphæðin renni sérstaklega til flokksfélaganna, en ekki til flokkanna sjálfra. Samanlagður fjárstyrkur norska ríkisins til flokkanna er því um 30 millj. norskra kr., þ. e. í kringum 900 millj ísi. kr. Í þessari frásögn í Nordisk Kontakt kemur skýrt fram að í Noregi eru framlög ríkisins fyrst og fremst miðuð við atkvæðafylgi flokkanna.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, er um skipan 5 manna n. til að fjalla um fjármál stjórnmálaflokkanna og undirbúa löggjöf um það efni. Við flm. þessarar till. erum svo sannarlega reiðubúnir að breyta orðalagi tillgr. og efni hennar og víkja til þeim verkefnum, sem n. eru ætluð, ef það gæti orðið til að stuðla að því að hreyfing kæmist á þetta mál. En það er, sem sagt till. okkar að verkefni n. verði að rannsaka fjárreiður stjórnmálaflokkanna svo og fjármál fyrirtækja, fasteigna og blaða, sem þeim eru tengd. Ég vek athygli á þessu orðalagi tillgr., vegna þess að í ágætri ræðu, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt um þetta mál í gær í Nd. og ég vil lýsa mig samþykkan í öllum atriðum, var minnst einmitt á það að ekki væri nægilegt að taka til athugunar fjármál stjórnmálaflokkanna, heldur yrði einnig að taka með inn í dæmið fjármál þeirra hlutafélaga sem flokkarnir hefðu stofnað til styrktar blaðaútgáfu sinni eða annarri starfsemi, og þetta er að sjálfsögðu laukrétt. Einmitt þess vegna er orðalag till. nokkuð viðtækt og þar ekki aðeins minnst á fjárreiður flokkanna, heldur fjármál fyrirtækja, fasteigna og blaða sem þeim eru tengd.

Í tillgr. er gert ráð fyrir að n. leiti sem gleggstra upplýsinga um fjármálasvið flokkanna, hvernig þeir afla sér tekna, hvaðan þær koma, hvernig þeim sé varið. Að lokinni þessari rannsókn skal n. gefa þinginu skriflega skýrslu um niðurstöður sínar og jafnframt leggja fyrir Alþ. frv. til l. um fjármál stjórnmálaflokkanna sem m. a. fjalli um opinberan stuðning við starfsemi flokkanna og eftirlit með fjárreiðum þeirra.

Ég vil taka undir það, sem m. a. kom fram í umr. hér í Nd. Alþ. í gær og oft hefur áður komið fram, að um leið og fjármál flokkanna erta tekin til athugunar er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að skilgreina stöðu flokkanna og fjalla um réttindi þeirra og skyldur. Það er hreinlega tími til kominn að sett sé ítarleg löggjöf um flokkana, enda er stórfurðulegt hve íslensk löggjöf er fátæk af ákvæðum um stjórnmálaflokka, jafnveigamiklu hlutverki og þeir gegna í þjóðfélagi okkar. Ég hef áður bent á — og vil gera það hér enn — að í stjórnarskrá lýðveldisins er hvergi minnst á stjórnmálaflokka, en hins vegar eru þingflokkar einu sinni nefndir á nafn í tengslum við úthlutun uppbótarþingsæta. Í kosningalögunum eru aftur á móti nokkur ákvæði sem snerta stjórnmálaflokka, og í lögum um sérfræðilega aðstoð við þingflokkana eru einnig ákvæði sem hér skipta máli. En þetta eru einu ákvæðin sem til eru í lögum um flokkana, og ég held að allir sjái, sem þetta mál skoða, að hér er um harla fátækleg ákvæði og brotakennd að ræða.

Ég hef einnig minnt á það áður og vil endurtaka það hér að hugtakið „þingflokkur“ hefur tvenns konar merkingu í lögum. Skv. kosningalögunum getur einn þm. kjörinn í kjördæmi talist þingflokkur, en skv. lögum um sérfræðilega aðstoð við þingflokkana er þingflokkur skv. 3. gr. laganna samtök a. m. k. tveggja eða fleiri þm., sem eru „fulltrúar stjórnmálaflokks sem hefur komið á fót landssamtökum“, eins og segir í lögunum. En einn þm. telst aftur á móti utanflokka þó að hann hafi myndað um sig stjórnmálaflokk. Að sjálfsögðu er þetta augljóst ósamræmi í íslenskri lagasetningu. Eins má nefna opinbera styrki til blaðaútgáfu. Aðeins þau blöð hafa fengið fram að þessu framlög sem tengd eru stjórnmálastarfsemi með fulltrúa á Alþ., en vegna þess að ekki er við nein lagaákvæði að styðjast í þessu efni hefur orðið að ráða fram úr þessum málum með öðrum hætti og hafa þá að sjálfsögðu komið upp ýmiss konar álitamál og ágreiningsefni einmitt við skiptingu blaðafjárins.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Í umr. hér á Alþ. og í blaðaskrifum um þetta mál hafa margir lýst skoðunum sínum á þessu máli. Mér virðist ljóst að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi verið sammála um að rétt væri að stjórnmálaflokkar væru bókhaldsskyldir og ekki hvíldi nein leynd yfir fjármálum þeirra. Ég hef einnig orðið var við að menn úr öllum stjórnmálaflokkum telja nauðsyn á að skilgreina betur en nú er gert í lögum stöðu stjórnmálaflokkanna, réttindi þeirra og skyldur. Eins hefur komið skýrt fram í þessum umr, að menn úr öllum stjórnmálaflokkum telja óhjákvæmilegt að framlög verði reidd af hendi af almannafé til stjórnmálaflokkanna, þ. e. a. s. að þessi framlög verði á kostnað ríkissjóðs að meira eða minna leyti. Og ég hef í fjórða og síðasta lagi orðið var við að menn úr öllum stjórnmálaflokkum, þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, með að vísu einni undantekningu, hafa lagt til að fjármagninu verði skipt með lýðræðislegum hætti. Ég tel því sýnt að um þetta mál sé að skapast víðtæk samstaða hér á Alþ. Ég hef satt að segja alls ekki ástæðu til að ætla að hv. þm. Sjálfstfl. almennt aðhyllist hinar ólýðræðislegu hugmyndir sem einn hv. þm. þess flokks hefur lagt hér fram á Alþ., og ég hef því fyllstu ástæðu til að vona að sú till., sem við höfum lagt hér fram, hljóti jákvæða afgreiðslu.

Ég vil að lokum leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. allshn.