29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

215. mál, vegalög

Flm. (Pálmi Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landb.- og samgrh. fyrir þær undirtektir sem komu fram í hans ræðu og að hann lýsti samstöðu með þeirri hugsun sem felst í þessu frv. Hins vegar gat hann þess að hann hefði kosið að þetta frv. hefði verið látið bíða þangað til þrautreynt væri hvort sú n., sem nú vinnur að endurskoðun vegalaganna, næði ekki samkomulagi og samstöðu og að frv., sem á þeirri samstöðu væri byggt, væri lagt fyrir yfirstandandi Alþingi.

Ég vil út af þessum orðum hæstv. ráðh. láta það koma fram, að mér var kunnugt um þá n., sem að þessum málum hefur starfað, og ég hef dokað við með flutning þessa frv. frá því að þing kom saman í haust. Ég hef séð drög, sem þessi n. hefur kynnt flokkunum, og mér hefur skilist að mikill vafi leiki á því að samstaða náist um þau drög, sem þar liggja fyrir, og starf n. að öðru leyti nokkuð í óvissu. Ég verð einnig að segja að í þeim drögum, sem ég hef séð frá þessari n., tel ég að ekki sé gengið a.m.k. nægilega til móts við þau sjónarmið sem þetta frv. er byggt á, og hvað sem starfi n. líður, þá tel ég nauðsynlegt að láta ekki þing líða svo að ég komi ekki þessum sjónarmiðum á framfæri í frv. formi. Þar á ég raunar bæði við þann þátt frv., er tekur til sjálfstæðis sýsluvegasjóðanna, og eins hinn þáttinn, er varðar tekjuöflun sýsluvegasjóða og á hvern hátt hún hefur áhrif á skipun sveitarstjórnarmála í landinu.

Ég vil minna á það, að við afgreiðslu frv. um breyt. á vegalögum á síðasta Alþ. flutti ég þetta frv. efnislega sem brtt. Það frv. kom tiltölulega fáum dögum fyrir þinglok til þessarar hv. d., og má segja að eðlilegt gæti talist að þær brtt., sem ég þá flutti, næðu ekki fram að ganga, menn teldu sig þurfa að taka þær til nánari athugunar en unnt var á þeim fáu dögum sem þá lifðu þess Alþingis. En með tilliti til þess, hve seint hefur gengið starf þeirrar n., sem nú vinnur að endurskoðun vegalaganna, og að hve litlu leyti ég hef séð þar gengið til móts við þau sjónarmið sem ég hreyfi með þessu frv., þá treystist ég ekki til að láta þetta Alþ. líða svo að ég kæmi þessum sjónarmiðum ekki á framfæri, og það höfum við hv. 4. þm. Vesturl. gert með flutningi þessa frv.

Ég vil svo vænta þess að sú hv. n., sem vinnur að endurskoðun vegalaga, ef hún starfar áfram að þessum málum og gerir ráð fyrir að koma því verki frá sér, þá taki hún þetta frv. til athugunar með í sínu verki. Ég vænti þess einnig að hv. þingdeild láti ekki Ííða svo þetta Alþ. að hún taki ekki til afgreiðslu þetta frv., a.m.k. ef heildarfrv. um breyt. á vegalögum verður ekki lagt fram.