29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

215. mál, vegalög

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að endurskoða þyrfti ákvæði laga um sýsluvegasjóði. Þeir hafa á undanförnum árum ekki verið færir um að valda því hlutverki sem þeim hafa verið falin. Og eins og hér hefur verið gerð grein fyrir hafa ákvæðin um fjáröflun til þeirra ýtt undir heldur óheppilega þróun í skipulagi sveitarstjórnarmála að áliti okkar flm. og ýmissa fleiri.

Meginatriði þessa frv. lágu fyrir eða voru til athugunar í samgn. á síðasta þingi, er hún fjallaði um breyt. á vegalögum þá. En það þótti ekki vinnast nægur tími til að athuga þau eins og ástæða þótti til á þeim skamma tíma sem þá var eftir til þingloka. Það lá einnig fyrir þá að samkv. eindregnum tilmælum fulltrúa í samgöngunefndum þingsins hafði hæstv. samgrh. ákveðið að skipa milliþingan. til þess að athuga þessi mál. En nú er öllum kunnugt um hvað verk slíkra n. eru tímafrek, einkum þegar endurskoða þarf stóra og fjölþætta lagabálka. Þess vegna er það svo, að ekki eru líkur til að endurskoðað frv. að vegalöggjöf verði lagt fram fyrr en seinna á þessu þingi og þá sennilega ekki til afgreiðslu fyrr en á næsta þingi. Þetta kom fram í ræðu hæstv. samgrh. Hins vegar ber að þakka það, að hann hefur skilning á þessu máli og tók því vel og vinsamlega. Það er því ekki síst af þessum ástæðum, að okkur flm. þótti rétt að hreyfa þessum þáttum vegalöggjafarinnar til breyt. þegar á þessu þingi og draga það ekki lengur. Okkur er ljóst að frv. þetta leysir ekki fjárþörf sýsluvegasjóðanna, síst til fulls, en horfir þó til réttrar áttar og minnir á að þessi ákvæði þarf að endurskoða og breyta þeim til batnaðar hið allra fyrsta.