04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Það var býsna skemmtileg ræða sem hér var flutt áðan, og talsvert er hún kómísk þegar hún er skoðuð niður í kjölinn, a.m.k. sá hluti hennar sem fjallaði beinlínis um fjármál þ. e. a. s. peningaviðskipti flokka og fyrirtækja. Þessi hv. þm., Ragnar Arnalds, sem er hvorki meira né minna en form. í stórum stjórnmálaflokki, af hvaða ástæðum sem það er nú, gerir sér lítið fyrir og heldur því hér fram, að í frv. því, sem var til umr. hér í gær og ég flutti, felist það að af millj. kr. gjöf til Sjálfstfl. eða Sjálfstæðishússins ætti að endurgreiða 530 þús. ef það frv. yrði samþ. Nú ætla ég hv. þm. Ragnari Arnalds það ekki að hann hafi ekki lesið frv. eða hlustað á umr. og að honum sé ekki fullljóst að það stendur skýrum stöfum og margendurtekið að gert er ráð fyrir að 5% af skattskyldum tekjum fyrirtækis megi gefa skattfrjálst. Hann segir hér sjálfur að heildartekjur þessa fyrirtækis muni hafa verið 260 þús. kr. Eftir því ætti þá að mega gefa 13 þús. eða u.þ.b. skattfrjálst. Við vorum hér sessunautarnir að reyna að reikna út hvað mikil ósannindi þessa hv. þm. væru. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri nálægt 5000%.

Þessi málflutningur þessa manns er með þeim hætti að til algjörrar svívirðu er, að þetta skuli vera borið á borð á Alþingi íslendinga. Það er í málflutningi svona manna sem það er fólgið að fólkið ber ekki lengur virðingu fyrir þessari stofnun með sama hætti og áður var, þegar menn sjá vaða uppi slík ósannindi vísvitandi. Ég ætla honum ekki það að hann viti ekki að hann hafi farið með rangt mál, þá væri hann ekki hæfur til að vera þm.

Svona var málflutningurinn raunar allur. Hann var að dylgja um innanflokksátök í Sjálfstfl. og að Morgunblaðið hefði ætlað að gera einn þm. flokksins óvirkan. Ég ber ekki ábyrgð á skrifum Morgunblaðsins lengur, en ég las hvert orð um þessi mál í sumar og ég gat ekki séð annað en það væri fullkomlega heiðarleg fréttamennska að öllu leyti. Hann þekkir þessar baráttuaðferðir í sínum eigin flokki, það er mér kunnugt um, þess vegna ætlar hann öðrum þær.

Hann talaði um það, hv. þm., að till., sem hann og þeir fleiri flokksbræður hans fluttu hér fyrir tveimur árum, hefði ekki fengist afgr. Ég veit ekki til að þeir reyndu að fylgja mjög mikið eftir þeirri till. En það er kannske ekki tilviljun að till. sú, sem núna er flutt, er með þeim hætti, að hún gæti aldrei haft neina þýðingu. Hún er líklega vitlausasta till. sem hér hefur verið flutt. Upphaf hennar er svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að skipa 5 manna nefnd.“ Hvernig á Alþ. að skipa 5 manna n.? Á forseti Alþ. að gera það, á skrifstofustjórinn að gera það eða á sendillinn að gera það? Hver á að skipa þessa n.? Till. er að formi til vitlaus, hvað þá efnislega, og síðan að það sé hægt af einhverri n. að rannsaka allar fjárreiður flokka og fyrirtækja þeirra sem ekki eru einu sinni bókhaldsskyldir. Ætli Alþb. gæti ekki hent einhverjum plöggum í slíka n. og sagt: Svona stendur þetta hjá okkur góðu herrar? — Í gær var málefnalega um þetta vandamál rætt hér af báðum þeim þm. sem þó voru ekki sammála mér í öllu efni, en þeim datt auðvitað ekki í hug að taka á málum eins og þessi hv. þm. gerir. Sannleikurinn er sá að mér blöskrar svo að ég get ekki um þetta haft fleiri orð.