30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða um landhelgismálið. Tilefnið er fyrst og fremst atburðirnir sem gerðust á miðunum fyrir austan land s.l. föstudag þegar tvær breskar freigátur og einn dráttarbátur gerðu þar sérstaklega ósvífna árás á íslenskt varðskip, varðskipið Baldur, sem telja má hiklaust að hafi verið ein ósvífnasta árás sem gerð hefur verið á íslenskt löggæsluskip í þeirri deilu sem nú stendur yfir við breta út af fiskveiðimálum. Ég átti í rauninni von á því að hæstv. ríkisstj. léti opinberlega heyra frá sér í tilefni af þessum atburðum þegar skýrt hafði verið allgreinilega frá því, hvað gerst hafði, í útvarpi og sjónvarpi og frásögn skipherrans á varðskipinu lá fyrir og þar sem það lá einnig fyrir að hún var með nokkuð sérstökum hætti, þar sem hann undirstrikaði með sterkum orðum að hann teldi að hér mætti tala um þáttaskil í þessari deilu vegna sérstaklega ósvifinna árása og mikilla hótana af hálfu bretanna. Það var því fyllilega ástæða til þess að einhver hefði komið af hálfu ríkisstj. og gert grein fyrir því í sambandi við þessar fréttir hvað ríkisstj. hygðist nú fyrir, hvernig hún hugsaði sér að svara þessum ósvífnu árásum. En frá hæstv. ríkisstj. heyrðist ekki neitt, og þó að hér væri þingfundur á Alþ. í gær, þá kom enn ekkert frá ríkisstj. Mér þykir því ástæða til þess að hefja hér umr. um þetta mál á þessum fundi og óska nú eftir því að hæstv. ríkisstj. skýri frá því hvað hún hugsar sér að gera, því að vitanlega getur ekki verið fullnægjandi að mótmæla eftir hinni gömlu formlegu leið í gegnum sendiherra á svipaðan hátt og bretar gera sjálfir í sambandi við atburði eins og þennan. Eftir slíku tekur enginn og slík mótmæli verða varla tekin mjög alvarlega ef ekkert annað fylgir þar á eftir.

Samkv. frásögn skipherrans á varðskipinu Baldri er ljóst að önnur breska freigátan hefur gert yfir 20 tilraunir til þess að sigla á varðskipið í þessari lotu. Henni tókst að gera fjóra árekstra mjög alvarlega, en til viðbótar kom svo önnur freigáta á vettvang og skv. lýsingu skipherrans er ljóst að skipherrann á þeirri freigátu hefur haft uppi meiri og frekari hótanir en fram hafa komið áður í deilunni. Þær hótanir verða ekki skildar á annan veg en þann að ætlunin sé að taka íslenskt varðskip fullkomlega úr umferð, jafnvel með því að sökkva því. Eftir því sem skipherrann á varðskipinu segir voru loftvarnavélbyssur þessarar freigátu mannaðar og hlaðnar skotfærum og skipshöfnin á þessari freigátu virtist vera fulltilbúin til vopnaaðgerða, og mér sýnist á þeim myndum, sem birtar hafa verið af þessum atburðum, að það komi allgreinilega fram á þeim að hér sé réttilega frá skýrt.

Þegar atburðir af þessu tagi gerast, þá er alveg augljóst mál að íslensk stjórnvöld verða að láta heyra frá sér með nokkuð sérstökum hætti Við alþb.- menn höfum gert í tilefni af þeim árekstrum, sem áður hafa orðið, ítrekaðar till. um hvað okkur sýnist réttast að gera í þessu máli. Ég skal rétt aðeins rifja þær till. upp og bæti þar kannske við einhverjum í tilefni af því hvernig málin standa nú.

Við höfum lagt á það sérstaka áherslu að við ættum að efla okkar landhelgisgæslu talsvert verulega frá því sem verið hefur. Það fer ekkert milli mála að gæslan hefur verið of veik. Það hefði átt að vera búið að bæta við í gæsluskipaflotann a.m.k. 2–3 skipum af Baldurs gerð fyrir alllöngu. Þetta gátum við mjög auðveldlega gert. Þessi skip áttum við hér tilbúin svo að segja. Nú hefur að vísu verið skýrt frá því að það standi til að ríkissjóður taki á leigu tvö svona skip til viðbótar við Baldur, en þá hefur það einnig fylgt með að aðeins annað þessara skipa, sem taka á á leigu, eigi að bætast við í gæsluskipaflotann, hinu eigi að ráðstafa í þágu Hafrannsóknastofnunarinnar til þess að fylgjast með ýmsu sem hún þarf að fylgjast með á fiskimiðunum. Ég tel alveg einsýnt að bæði þessi skip eiga að bætast við í gæsluskipaflotann eins og nú standa sakir, en það er auðvelt að útvega Hafrannsóknastofnuninni léttara skip og slík skip eru mörg til, tiltæk til þeirra starfa sem hún þarf að vinna.

Við höfum einnig bent á það margsinnis og fyrir löngu að það hefði átt að útvega gæslunni eitt verulega hraðskreitt skip sem mjög hefði ógnað veiðum breta og væri sérstaklega heppilegt þegar dregur fram á vor og sumar. Ég tel það algjöran útúrsnúning þegar till. um þetta atriði eru túlkaðar þannig að við séum að krefjast þess að eignast hér herskip sem eigi að taka upp herskipaátök við breta. Við mundum að sjálfsögðu beita svona skipi, hraðskreiðu skipi, fyrst og fremst til þess að klippa veiðarfæri frá landhelgisbrjótum. Þetta skip gæti þjónað okkur mjög vel. Og það er líka algjörlega ástæðulaust að bera því við að ekki sé hægt að fá svona skip. Svona skip eru til í flestum löndum og það er tiltölulega auðvelt að fá slík skip annaðhvort leigð eða keypt ef gengið er rösklega eftir því. Það er líka rétt að athuga það, að till. um það að útvega skip í þessum tilgangi eru einmitt komnar frá okkar skipstjórum á varðskipunum.

Þá höfum við lagt til og ítrekum hér með að það á að ráða skiptiáhöfn fyrir varðskipin hið allra fyrsta svo að hægt sé að halda skipunum lengur úti en verið hefur og reyna á þann hátt að koma í veg fyrir alveg óþarfar siglingar skipanna á milli landshluta. Þetta hefði mátt vera búið að gera fyrir löngu og þetta er sjálfsagt að gert verði.

En auðvitað kostar þetta allt peninga, það vitum við. Því höfum við líka gert till. um að afla Landhelgissjóði tekna, m.a. á þann hátt, sem er líka svar sem yrði tekið eftir frá okkar hálfu, að leggja sérstakan toll á breskar vörur, sem fluttar eru inn til landsins, og gera þannig tvennt í einu: Hafa áhrif á það að draga verulega úr kaupum okkar á breskum vörum og til þess munu bretar finna og finna að þeir geti tapað fleiri vinnudögum í sínu heimalandi á því að láta mál þróast á þann veg heldur en þeim vinnudögum sem þeir kynnu að tapa af því að leggja niður þær veiðar sem þeir eru að reyna að streitast við að halda hér uppí. En það væri einnig hægt að afla nokkurra tekna í Landhelgissjóð því að ekki yrðu sennilega lögð niður öll viðskipti við Bretland, og þá væri líka réttmætt að þeir greiddu fyrst og fremst til Landhelgissjóðs með svona tolli sem keyptu þessar bresku vörur eins og sakir standa. Enn hefur ekkert heyrst frá hæstv. ríkisstj. hvað hún hyggst fyrir til að efla fjárhag gæslunnar.

Ég tel einnig sjálfsagt með tilliti til viðræðna okkar við færeyinga að reyna að koma því fram að bretar geti ekki á neinn hátt í sambandi við ránsveiðar sínar hér við land notað Færeyjar til þess að stytta sér leið og að stoða sig í þessari iðju, en það er alveg augljóst að það hefur verið gert að undanförnu. Ég tel að það væri aðeins eðlileg krafa okkar til færeyinga með tilliti til þess, sem við höfum þegar gert fyrir þá, og með hliðsjón af því, sem ætlunin mun vera að gera í sambandi við nýja samninga, að gera þá kröfu til þeirra að þeir loki fyrir alla slíka þjónustu við breta og þar með verði bretum enn torveldað að stunda veiðar hér við land.

Til viðbótar við till. af þessari gerð, sem allar miða að því að styrkja okkar varnarstöðu á miðunum og torvelda enn meir en verið hefur veiðar breta, þá höfum við í Alþb. ítrekað bent á að við eigum að grípa til þeirra pólitísku vopna sem við ráðum yfir til þess að knýja bretana til undanhalds. Við höfum lagt til að fyrsta aðgerðin í þeim efnum ætti að vera að við kölluðum heim sendiherra okkar hjá NATO og undirstrikuðum með því hvernig við lítum á þetta mál. Næsta skref ætti síðan að vera að tilkynna yfirstjórn NATO að ef NATO herfloti breta, sem notaður er gegn okkur, væri ekki farinn út úr okkar fiskveiðilögsögu innan tiltekins tíma, þá mundum við grípa til þeirra mótaðgerða að loka einnig fyrir NATO þeim herstöðvum sem það hefur í okkar landi, og auðvitað væri rétt framhald af þessu að tilkynna því, að ef það hafi ekki áhrif á breta í þessum efnum, þá munum við ganga úr bandalaginu, við getum ekki tekið þátt í Atlantshafsbandalaginu með þjóð sem beitir okkur slíku hernaðarofbeldi eins og bretar hafa gert og gera enn.

Spurningin í þessum efnum er: Viljum við og þorum við að grípa til þeirra pólitísku vopna sem við vitum að við höfum eða viljum við ekki gera það? Till. okkar alþb.-manna í þessum efnum eru alveg skýrar, en það virðist vefjast mjög fyrir hæstv. ríkisstj. hvað hún treystir sér til að gera í þessum efnum.

Ég vil einnig í tilefni af þessu leggja fyrir ríkisstj. nokkrar spurningar varðandi málið og þá fyrst og fremst þessa: Getur það verið að ríkisstj. sé enn að hugleiða það að gera samninga við breta, eins og málin hafa þróast? Ég veitti því athygli að í leiðara Morgunblaðsins í dag er enn vikið að því að hagkvæmast og best væri fyrir okkur að gera skammtímasamning við breta um landhelgismálið.

Ég tel að eins og málið stendur eigi þjóðin öll kröfu á því að hæstv. ríkisstj. svari því skýrt og skorinort hvort það kemur yfirleitt til mála af hennar hálfu, eins og mál hafa þróast, að taka upp nokkra samninga við breta um veiðar hér við land og hvort sá möguleiki sé ekki með öllu útilokaður úr því sem komið er. Og í öðru lagi vil ég spyrjast fyrir um það hvort ríkisstj. vilji ekki, m.a. vegna þeirra atburða sem nýlega hafa gerst, lýsa því yfir að þau tvö skip, þeir tveir togarar sem hún hyggst taka á leigu, þeir verði báðir látnir fara í gæsluna og aðstoða þann gæsluflota, sem fyrir er, og aðrar leiðir farnar til þess að sinna kröfum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég óska eindregið eftir að fá svör við því hér hvort ríkisstj. vill ekki lýsa því yfir að þeim tveim togurum, sem væntanlega verða teknir á leigu nú næstu daga, verði báðum bætt við í gæsluflotann, en ekki aðeins öðru skipinu eins og fréttir höfðu borist um.

Í þriðja lagi óska ég eftir að fá upplýsingar um það, hvort ákvörðun hafi ekki verið tekin um að ráða skiptiáhöfn á skipin þannig að hægt sé að skipta um áhafnir sem allra næst átakasvæðunum og spara skipunum siglingu, — hvort þetta hafi ekki þegar verið afráðið og verði tekið upp til þess að gera gæsluna enn þá virkari en hún hefur verið.

Í fjórða lagi vil ég inna eftir því hvort ríkisstj. teldi ekki eftir atvikum rétt að taka upp málið við færeyinga til þess að reyna að koma á þann hátt í veg fyrir að Færeyjar séu notaðar til þess að greiða fyrir ránsferðum breta hér við land.

Og síðast, en ekki síst, spyr ég enn einu sinni um það hvort ríkisstj. hafi ekki rætt það mál að heita hér pólitískum hótunum við breta á þann hátt að kalla sendiherrann heim frá NATO og með því að tilkynna yfirstjórn NATO að verði bresku herskipin ekki komin út fyrir 200 mílna mörkin innan tiltekins tíma, þá munum við loka fyrir þá aðstöðu sem NATO hefur í okkar landi. Hefur þetta ekki verið rætt? Hver er afstaða ríkisstj.? Það er enginn vafi á því að ef við beittum þessu vopni, þá mundi það duga.

Þá er annað mál þessu skylt sem ég hlýt að víkja hér að. Það er í nánum tengslum við þessa atburði. Jafnhliða hafa komið fréttir um það að nýlega hafi það gerst að áður auglýst friðunarsvæði við Suðausturland, þar sem bannaðar voru allar togveiðar allt árið og auglýsing hafði verið birt um það skv. ósk togaraskipstjóra á Austfjörðum og skv. till. fiskveiðilaganefndar, — nú hefur það gerst og þá á býsna sérkennilegan hátt að þetta friðunarsvæði hefur verið stórlega minnkað, verulegur hluti þess hefur verið opnaður á ný, augsýnilega eftir kröfum bjóðverja. Ég hef fengið þær fréttir frá mjög glöggum skipstjóra á Austurlandi varðandi þetta atriði að í ljós hafi komið við athugun að þetta friðaða svæði hafi aftur verið að verulegum hluta opnað formlega nú 20. mars, þó hafi engar tilkynningar borist um þessa opnun blöðum landsins fyrr en 24. mars og landhelgisgæslan segir sig ekki hafa fengið upplýsingar um opnunina fyrr en 25. mars. Það er einnig staðfest að skipherrann á einu því gæsluskipi, sem er fyrir Austurlandi, hafi ekki vitað neitt um þessar breytingar 28. mars. En eitt er vist, að þeir togaraskipstjórar á Austfjörðum, sem þarna stunda veiðar, fengu fréttir um breytingu á þessu svæði frá skipum þjóðverja, heyrðu þá tala um opnunina í talstöðvum sínum og vissu að þeir voru byrjaðir á veiðum á þessu friðaða svæði. Þessu hefur verið harðlega mótmælt af skipstjórum á Austurlandi, alveg einróma. Ég tel að þetta sýni að það er enn slík undanlátssemi ríkjandi í ríkisstj., að þegar vestur-þjóðverjar knýja á um það að svæði, sem merkt hafði verið sem friðunarsvæði og lokað íslendingum, þegar þeir vilja komast inn á svæðið, þá er það opnað þó að þurfi að grípa til alveg óvenjulegra vinnubragða til þess að opna fyrir þeim. Nú liggur það einnig fyrir samkvæmt umsögn íslensku skipstjóranna, sem þarna stunda veiðar, að á þessu svæði er nú mikið um smáufsa að ræða eða smáan milliufsa sem þeir telja að þurfi að friða.

Undanlátssemi af þessu tagi er auðvitað alveg forkastanleg. Ég vil vænta þess að það, sem hefur verið að gerast í þessum málum, í landhelgismáli okkar, leiði ekki til þess að ríkisstj. linist í aðgerðum sínum. Aðgerðir hennar hafa verið nægjanlega linar til þessa. Það þyrfti að herða á aðgerðunum og reyna þannig að fá enn þá sterkari samstöðu um það sem gert er.

Ég er ekki á neinn hátt með því, sem ég segi hér, að kvarta undan þeim erfiðleikum sem við hljótum að mæta í sambandi við það að halda út í þessari deilu. Mér er ljóst að það mun taka allmikið á okkur á marga lund. En ég tel að hér sé um svo mikið að tefla að við verðum að sýna fulla festu og sýna þeim, sem reyna að beita okkur ofbeldi, að við erum ekkert að hugsa um að gefast upp fyrir þeim. Við ætlum að halda út í deilunni. Við ætlum að herða á því, sem við getum hert á, varðandi okkar eigin varnir, og við munum beita þeim vopnum, sem við höfum yfir að ráða, til þess að reyna að stöðva þá. En við ætlum okkur ekki að gefast upp. Það er þetta sem ég tel að þurfi að koma fram. Það versta af öllu í málinu er ef ríkisstj. sýnir af sér linkind og hik og eitthvert ráðleysi þegar hinir herða á sókn sinni.

Ég vil nú vænta þess að hæstv. ríkisstj. gefi hér upplýsingar frá sinni hálfu um þau mál sem ég hef gert hér að umtalsefni, og ég vil mega vænta þess að hún geti gengið til móts við þau sjónarmið sem ég hef sett hér fram.