30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þorskastríðið heldur áfram og enn hefur breski flotinn aukið árásir sinar á íslensku varðskipin, sem leitast við að gegna skyldustörfum sínum fyrir austan land, með þeim árangri að átt hefur sér stað harðasta viðureign síðan þessi átök hófust. En svo bregður nú við að ef frá eru skilin miðin og íslensk heimili þar sem íslendingar hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp, þá virðist hafa fallið dúnalogn yfir landhelgismálið. Fréttir herma að þessi hörðustu átök milli tveggja skipa, sem átt hafa sér stað fyrir austan, hafi komist í eina smáfrétt á forsiðu í London, en rétt verið getið á innsíðum í öðrum blöðum. Og víst er það, að breska ríkisstj. eyðir ekki miklum tíma í að hugsa málið þessa dagana. Þeir hafa öðrum hnöppum að hneppa og eru að búa sig undir að mynda nýtt ráðuneyti. Hitt er öllu furðulegra, að sama dúnalogn virðist vera yfir ríkisstjórn íslands í þessu máli, og skal ég ekki segja hvort hún hefur fyrir því sömu afsökun og hinir bresku kollegar hennar. En ekki verður betur séð en að viku eftir viku ríki þögnin og aðgerðaleysi sem stefna ríkisstj. í landhelgismálinu. Það er því ekki óeðlilegt að vakið sé máls á þessu utan dagskrár hér á Alþ. og fer að verða býsna einkennilegt að það skuli líða mánuðir svo að málið sé ekki nefnt í sölum Alþ. öðruvísi en að stjórnarandstaðan kveðji sér hljóðs utan dagskrár.

Í undanförnum umr. um þetta mál hefur verið flutt hörð gagnrýni á ríkisstj. fyrir það hversu seint hún hefur starfað að aukningu landhelgisgæslunnar, sem allir virtust þó vera sammála um að væri brýn og aðkallandi nauðsyn. Nú hefur það að vísu gerst, að tilkynnt hefur verið að ríkisstj. ætli að leigja tvo togara og annar þeirra muni fara í landhelgisgæsluna, en hinn til rannsóknarstarfa. Svo langt sem þetta nær er ég því fullkomlega samþykkur. En ég tel að það hefði átt að gera þetta fyrr og skipin hefðu þurft að vera fleiri en tvö, þar af aðeins eitt til landhelgisgæslunnar.

Þó ekki hefði komið til ítrekaðra átaka á hafinu fyrir austan, þá er ýmislegt að gerast sem gefur tilefni til þess að við ræðum þetta mál og reynum að gera okkur grein fyrir hver staða okkar er. Fer hún batnandi á þessu tímabili aðgerðarleysis ríkisstjóranna í London og Reykjavík eða fer hún versnandi? Eða, kann einhver að spyrja, er hún nokkurn veginn óbreytt?

Hafréttarráðstefnan er nú byrjuð fyrir vestan haf og fer heldur óefnilega af stað. Þau mál, sem okkur varða mestu, eru í annarri nefnd, og ég las einhvers staðar um helgina að þar hafi verið fluttar 50 ræður um fyrstu 2 af 170 greinum, sem þar þarf að ræða, og í þessum 50 ræðum hafi nálega ekkert efni verið nema hamingjuóskir til forseta n. eins og mjög tíðkast á þeim vettvangi.

Hitt er ef til vill frekar áhyggjuefni fyrir okkur, að í viðtali við ríkisútvarpið, sem hér hefur verið flutt, hefur Hans G. Andersen, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagt það berum orðum að honum finnist vera þungt fyrir fæti með allt tal um íslenskan málstað á þessari ráðstefnu, og ég skil hann svo að íslenska sendinefndin liggi undir ámæli fyrir það, að við skyldum færa út áður en að ráðstefnan lauk störfum sínum. Í sjálfu sér þarf þetta ekki að koma okkur mjög á óvart, vegna þess að fulltrúar á þessari ráðstefnu eru yfirleitt lögfræðingar sem hugsa hver frá sínu sjónarmiði síns heimalands á lögfræðilegan hátt og horfa ekki á neitt annað en lagabókstafinn. Það er ekki á þeim vettvangi sem við vinnum þetta stríð, heldur á vettvangi mannlegra aðstæðna og mannlegrar sanngirni. En látum það vera.

Það, sem við þurfum að gera okkur best grein fyrir, er öllu frekar að gerast hinum megin hafsins innan Efnahagsbandalags Evrópu. Eru nú allar líkur á því að Efnahagsbandalagið sé að taka til sín landhelgismál bandalagsríkjanna. Deila stendur um það hvort hvert ríki fyrir sig eigi að hafa 12 mílur til eigin afnota, en bandalagsríkin öll frjálsan aðgang að 200 mílum að því undanskildu, eða hvort þetta einkabelti strandríkisins eigi að vera 100 mílur, eins og bretar hafa óskað eftir. Enga niðurstöðu virðist vera búið að fá í þá deilu, en allar horfur eru á að bretum muni sækjast þetta mál seint.

Nú er talað um að það geti gerst á næstunni að allir samningar um landhelgi Efnahagsbandalagsríkjanna flytjist frá einstökum ríkjum til aðalstöðva bandalagsins í Brüssel. Ef svo er, þá er ég ekki viss um að aðstaða okkar hafi batnað mikið nema síður sé. Norðmenn sjá fram á, að þeir muni þurfa að skipta við embættismennina í Brüssel um þessi mál, og telja aðstöðu sina verri fyrir bragðið. Það er á allra manna vitorði að þegar þeir vísu menn, sem ráðnir eru í ábyrgðarstöðu hjá Efnahagsbandalaginu, eru sestir í skrifstofur sínar í Brüssel, þá eru þeir orðnir að alþjóðlegum skepnum sem hafa skorið á tengsl við sína eigin fósturjörð, en starfa aðeins sem hagfræði- eða stjórnunarheilar og eru ekki líklegir til þess að hlusta á tilfinningatal um smáþjóð sem á allt sitt líf undir fiskveiðum. Við getum því átt von á afstöðu sem verður miklu harðari og verður á algjörlega hreinum viðskiptagrundvelli.

Mér finnst ástæða til þess að við fylgjumst með þessu og gætum að því hvort þetta hefur áhrif á málið frá okkar sjónarmiði. Það getur t.d. orðið erfitt við að eiga ef bretar vísa til Brüssel og ef við ætlum að senda mótmæli þangað t.d, varðandi áframhaldandi herskipaaðgerðir gegn landhelgisgæslu okkar, þá mundu þeir sjálfsagt vísa málinu aftur til Lundúna. Við yrðum þannig reknir á milli með mótmæli og kröfur. Hvaða áhrif þetta hefði á áframhaldandi aðgerðir breska flotans er ómögulegt að segja.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag, sem síðasti ræðumaður minntist einnig á, kemur fram, að ég hygg í fyrsta skipti um langt skeið, spurningin um það hvort íslendingar hafi enn þá áhuga á síldveiði í Norðursjó eða rétti til einhverra veiða við Grænland. Veiðar þessar hafa veitt okkur allmiklar tekjur á liðnum árum, en síldveiðin í Norðursjó mun nú vera í algjöru lágmarki og kvótinn, sem við höfum þar, miklu minni en afli þar hefur verið. Er það því matsatriði upp á framtíðina hvort við höfum þarna einhvern áhuga, en menn verða að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því og þá hvort það hefur einhver áhrif á afstöðu manna í Brüssel, þar sem viðskiptasamningur okkar við Efnahagsbandalagið hefur enn þá ekki fengið gildi. Við verðum því að borga mörg hundruð milljónir í óeðlilega tolla af vörum sem við flytjum til bandalagsins. Ég tel þetta upp einungis til þess að sýna að það eru mörg atríði að gerast í þessu máli sem geta beint eða óbeint snert afstöðu okkar, og það er því von, þegar málið ber hér á góma, að menn spyrji hina þöglu ríkisstjórn hver séu viðhorf hennar, hvað hún hyggist fyrir. Ætlar hún að sitja þegjandi og aðgerðalaus? Ætlar hún sér að reyna, eins og síðasti ræðumaður lagði til, einhvers konar frekari stjórnmálalega pressu ef það kynni að geta hjálpað til þess að binda endi á árásaraðgerðir breska flotans.

Ég vil því ítreka að atburðirnir nú um helgina minna okkur óþægilega á, að þetta mál er enn þá á stórhættulegu stígi. Bretar halda áfram að veiða allt of mikinn fisk. Íslenskir sjómenn eru enn þá að stórhættulegum skyldustörfum fyrir þjóð sína í landhelgisgæslunni, og áframhald þessara árekstra getur hvenær sem er leitt til alvarlegra slysa. Við megum því ekki sofna algjörlega á verðinum. Þótt atburðir hér séu farnir að missa fréttagildi sitt í nágrannalöndum verðum við að minna yfirvöld nágrannalandanna á þetta mál og halda baráttunni áfram á virkan hátt, en ekki óvirkan, og reyna að leita nýrra úrræða ef ekkert af þeim gömlu hefur frekari áhrif. En það ástand, sem hefur verið nú undanfarið, algjör þögn og aðgerðaleysi, er að minni hyggju gjörsamlega óviðunandi.