30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hv. stjórnarandstaða og talsmenn hennar vilja gjarnan heyra frá ríkisstj. og fulltrúum hennar. Ég hef ekkert við það að athuga. Hins vegar finnst mér ástæðulaust að gagnrýna það að ríkisstj. hafi ekki látið opinberlega frá sér heyra vegna síðustu atburða umfram það sem kom fram, að formleg, harðorð mótmæli hafa verið borin fram vegna síðustu atburða á miðunum og ráðstafanir eru gerðar til þess að sú sérstaða, sem þessir atburðir bera merki um, sé undirstrikuð, þ.e.a.s. sú hótun sem fram kom í því, að sögn skipherra Baldurs, að byssur og vopn einnar freigátunnar voru mönnuð. Þetta verður gert og er gert meðal Norðurlandaþjóða, meðal þátttökuríkja í Atlantshafsbandalaginu og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hér ber þess að geta, þótt enginn dómur sé lagður á sannleiksgildi, að talsmaður breska utanrrn. undirstrikar að ef slíkt hafi verið gert af hálfu skipstjóra freigátanna sé það í andstöðu við þau fyrirmæli sem skipstjórarnir hafa. Ef frá er tekin þessi sérstaða síðustu atburða, þá eru þeir því miður engin undantekning frá ósvífninni og vanstilltri framkomu breta hér við land. Sumir vilja halda því fram, án þess að ég geti rakið það nú á stundinni, að þess séu dæmi að slíkar hótanir hafi áður verið í frammi hafðar í þorskastríðum, að byssur breskra freigáta hafi verið mannaðar. Vitaskuld hlýtur ríkisstj. með fyrrgreindum hætti að láta til sín heyra og reka mál íslendinga á erlendum vettvangi. Að öðru leyti er það auðvitað á valdi fjölmiðlanna hvaða fréttir þeir bera um víðan vettvang af atburðum hér við land. Það er fyrst og fremst mat fréttamanna á því hvað fréttnæmt er, sem því ræður, og því ætti t.d. hv. þm. Benedikt Gröndal manna best og mest að geta gert sér grein fyrir sem fyrrverandi blaðamaður.

Því miður verður að segja það eins og er, að fjölmiðlar eru þess eðlis oft og tíðum að kunna ekki að skilja hismið frá kjarnanum og geta fremur um það, sem minna virði er og minna máli skiptir, en hitt sem sköpum kann að skipta, og þess getum við íslendingar goldið. Ríkisstjórn Íslands fær ekki við það ráðið nema að takmörkuðu leyti. Að svo miklu leyti sem það er á valdi íslendinga, þá er lögð áhersla á að flytja málstað okkar erlendis og leiða mönnum fyrir sjónir hvers eðlis sú barátta er sem fer fram á íslenskum fiskimiðum.

Að þessu sögðu og engu undandregnu, hversu alvarlegir þeir atburðir eru sem átt hafa sér stað á Íslandsmiðum, þá verð ég enn á ný að endurtaka og undirstrika það, sem ég hef áður sagt og er út af fyrir sig ekkert merkilegt, því að ræðumenn hér í umr. utan dagskrár hafa endurtekið það sem þeir áður hafa sagt og lítið nýtt látið frá sér heyra, að ég tel að endurteknar umr. utan dagskrár vegna atburða á miðunum séu til þess fallnar að gefa andstæðingi okkar í skyn að við séum að þreytast í baráttunni. Ég veit að hvorki hv. þm. Lúðvík Jósepsson né hv. þm. Benedikt Gröndal vill ganga erinda breta, síður en svo. Þeir vekja sjálfsagt máls á þessu mikilvæga efni af góðum hug, það skal ekki dregið í efa. En hitt er jafnvíst, að með endurteknum umr., sem ekkert nýtt hafa fram að færa, gefa þeir andstæðingi okkar til kynna að við séum að þreytast í baráttunni og tilbúnir e.t.v. að semja um hvað sem er.

Hv. þm. tala um það, að í einu dagblaði í dag hafi verið rætt um að til mála gæti komið að semja við breta, og fyrirspurn frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni var varpað fram til ríkisstj. af því tilefni. Í þessu sambandi er engu við að bæta það sem ríkisstj. hefur áður lýst yfir og allir þm., að því er ég hygg, hafa tjáð sig sammála, að meðan bretar hafa herskip innan 200 mílnanna koma samningar ekki til greina. Til þess, hvað verður ef og þegar bretar draga herskip sín út fyrir 200 mílurnar, verður tekin afstaða þá, en fyrr ekki. Það er skilyrðislaus krafa okkar íslendinga, að bretar fari með herskip sín burt úr 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar.

Ef við ræðum um málflutning hv. stjórnarandstöðu, þá er þar hins vegar gagnrýni um að ríkisstj. sé aðgerðalaus. Um leið og talið er útilokað, sem ég er sammála um, að hugsa að óbreyttum kringumstæðum til samninga við breta, það er ekki á dagskrá, þá er helst sú ályktun, sem verður af máli þeirra dregin, að það sé ekki nema tvennt til: annars vegar einhvers konar samningar við andstæðinginn og það mál höfum við afgreitt og hins vegar efling landhelgisgæslunnar. Varðandi eflingu landhelgisgæslunnar hefur ríkisstj., áður en síðustu atburðir gerðust á miðunum, tekið ákvörðun um að leita eftir leigu á tveim af stærri skuttogurunum, væntanlega pólskbyggðu togurunum, sömu tegund og Baldur er, með þeim hætti að annar þeirra verði nýttur í þágu Hafrannsóknastofnunarinnar í staðinn fyrir Baldur, en búið var að kaupa Baldur til þeirra nota, og hinn til landhelgisgæslunnar. Á þessu stigi hefur engin ákvörðun verið tekin frekar um viðbót við skipaflota landhelgisgæslunnar, nema hvað athuganir og rannsóknir hafa farið fram um það hvort unnt væri að fá hraðskreiðan bát til afnota fyrir gæsluna, og stendur sú athugun enn yfir.

Í þessu sambandi hefur hv. þm. Benedikt Gröndal bent mjög skýrt á að það eru takmörk fyrir því hvaða árangri er hægt að ná með því að efla landhelgisgæsluna. Við skulum í fyrsta lagi athuga þann kostnað, sem því er samfara, og bera þann kostnað saman við þann árangur sem af því yrði. Við skulum í öðru lagi bera saman þann árangur sem yrði af því að bæta við skipakost landhelgisgæslunnar að teknu tilliti til viðbragða andstæðingsins sem gerði slíkt hið sama, og íhuga hver lokaárangur yrði af því loknu. Þetta er okkur skylt að gera. Ég held að enginn hér inni eða a.m.k. mjög fáir og ég ætla hvorki hv. þm. Lúðvík Jósepsson né Benedikt Gröndal telji að úrslit í baráttunni á Íslandsmiðum verði ráðin með kappi við að auka við skipastól annars vegar landhelgisgæslunnar og hins vegar herskipa, hjálparskipa, birgðaskipa og dráttarbáta breta. A.m.k. hygg ég þá ekki vera þeirrar skoðunar að sigurinn sé augljóslega okkar íslendinga í slíku kapphlaupi. Það, sem við íslendingar getum gert okkur vonir um, og það, sem við íslendingar eigum að gera, er auðvitað að halda uppi þeirri landhelgisgæslu sem við mögulega getum innan þeirra marka sem skynsamlegt er að því er snertir fjárútlát og skipakost miðað við árangur að lokum. Það felst í þessu að við getum e.t.v. ekki gert okkur vonir um að útiloka að öllu leyti veiðar breta innan 200 mílnanna, en við getum takmarkað þær veiðar. Við getum ekki útilokað þær veiðar, en við getum takmarkað þær veiðar. Sú barátta getur orðið löng, a.m.k. meðan á fundum Hafréttarráðstefnunnar stendur, og þá er að taka því og halda þeirri baráttu fram með þeim hætti að sem minnstu sé hætt í tjóni á mönnum eða skipum.

Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að ráða viðbótarmenn til þess að sinna störfum á gæsluskipum landhelgisgæslunnar, og við munum halda áfram að reyna að bæta starfsaðstöðu landhelgisgæslunnar eftir megni innan þeirra marka sem ég hef hér nefnt og hljóta að vera eðlileg og sjálfsögð takmörk aðgerða okkar, því enginn okkar vill mæla með aðgerðum sem engan árangur bera eða ekki neinn árangur miðað við tilkostnað eða fórnir sem færðar væru til þess að aðgerðirnar komist í framkvæmd.

Ég hef ekki tekið ummæli formanns sendinefndar okkar á Hafréttarráðstefnunni þannig að gagnrýnt væri á erlendum vettvangi að íslendingar hefðu fært út fiskveiðilögsögu sína einhliða. Þvert á móti hef ég heyrt ummæli þar að lútandi, að menn skildu þá stöðu og hagsmuni þá sem við íslendingar hefðum alveg sérstaklega af slíkri einhliða útfærslu. Hins vegar hefur hann látið okkur íslendinga vita af því, að menn þar skildu ekki hvers vegna ekki hefði verið unnt að semja um ágreiningsmálin. Auðvitað munu fulltrúar okkar á Hafréttarráðstefnunni skýra það fyrir fulltrúum annarra landa þar hvers vegna ekki hefur verið unnt að semja um þessi mál. Skýringuna vitum við. Það er vegna óbilgirni og skilningsleysis breta sem fram kemur augljóslega, í andstöðu við það samkomulag sem tekist hefur við aðrar þjóðir. Ég tel að málstað okkar sé að þessu leyti sæmilega borgið á erlendum vettvangi, þótt hitt hafi verið allt of ljóst, að ófriður á Íslandsmiðum gæti skapað aukna hættu á því að þeir, sem vildu einhvers konar gerðardómsákvæði inn í hafréttarsáttmálann, fengju þar átyllu til þess. En við verðum að treysta fulltrúum okkar á Hafréttarráðstefnunni til að geta unnið á móti því.

Það hefur verið rætt um aðgerðir gagnvart Atlantshafsbandalaginu og í sambandi við varnarstöðvar okkar hér á landi. Í því sambandi vil ég aðeins segja á þessu stigi málsins, að það er nauðsynlegt fyrir okkur einmitt að flytja mál okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, eins og við höfum gert á vettvangi Norðurlandaráðs og Öryggisráðsins, og sýna fram á framkomu breta og hvaða hættur eru fólgnar í framkomu þeirra. Þess vegna er það andstætt hagsmunum okkar að koma í veg fyrir að við höfum möguleika til þess og málsvara til þess að flytja mál okkar á þeim vettvangi. Hvað snertir þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarstöðvar hér á landi er það að segja, að við erum samningsbundnir með ákveðnum hætti í báðum tilvikum. Við þurfum að segja upp aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu með árs fyrirvara og varnarstöðvunum eða afnotum þeirra með eins og hálfs árs fyrirvara og við það er ákvörðunarvald okkar bundið. Við eigum að standa við þá samninga sem við höfum gert, við viljum ekki láta brjóta samninga á okkur. Það er óvandur eftirleikurinn ef við hefðum slíkan leik sem er fjarri virðingu okkar sem sjálfstæðrar, ábyrgrar þjóðar.

Ég hygg að ég hafi svarað flestum fyrirspurnum, nema e.t.v. þeim að gagnvart Færeyjum hefur sú krafa ekki verið fram borin að þeir neituðu um einhverja þjónustu eða afgreiðslu gagnvart breskum skipum. Hins vegar er okkur það minnistætt að færeyingar tóku upp hjá sjálfum sér að gera það í eina tíð, og það væri ólíkt færeyingum ef þeim dytti ekki eitthvað slíkt í hug og framkvæmdu það ef til vill undir slíkum kringumstæðum sem nú eru. En ég tel eðlilegt og sjálfsagt í því sambandi að færeyingar sem sjálfum sér ráðandi tækju þá ákvörðun af eigin hvötum fyrst og fremst.

Varðandi friðunarsvæðin fyrir Austfjörðum, þá mun væntanlega hæstv. sjútvrh. fjalla um það efni.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál að sinni, en vil ítreka það, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar um eflingu landhelgisgæslunnar, ásamt þeirri staðreynd, að við höldum áfram baráttu okkar á miðunum, gera það að verkum að forsendur útgjaldaáætlunar fjárlaga til handa landhelgisgæslunni eru algjörlega úreltar, þarfnast endurskoðunar. Þegar hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir til að kynna þm. það mál. Það verður gert frekar þegar ljóst er hvaða kjör verða í sambandi við leigu t.d. á þeim skipum sem um er að ræða að bæta í flota landhelgisgæslunnar. En auk þeirra tveggja togara, sem búið er að bæta í landhelgisgæsluna til viðbótar Tý, sem ekki var fyrir hendi þegar barátta átti sér síðast stað á miðunum, þarf landhelgisgæslan væntanlega að hafa til umráða rannsóknaskipið Hafþór til að gæta sérstaklega friðunarsvæða, en eðlilegt mundi að telja það vera á reikning landhelgisgæslunnar þar sem það er verkefni hennar að gæta slíks. En ég hygg að það sé útilokað annað en að Hafrannsóknastofnunin fái togara til að sinna því ætlunarverki í senn að fylgjast með þeim friðunarráðstöfunum, sem gerðar eru vegna botnvörpuveiða, svo og til þess að leita nýrra miða, t.d. karfamiða, svo að unnt verði að bæta okkur upp þá takmörkun sem við augljóslega verðum að framkvæma á þorskveiðum.