30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má nú e.t.v. telja óþarft að bæta við þessar umr. utan dagskrár úr því sem orðið er. En ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og hv. þm. Benedikt Gröndal fyrir þann stuðning við eflingu landhelgisgæslunnar sem þeir létu í ljós. Ég veit að þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða stuðning við þær aðgerðir sem þegar hafa verið ráðnar, en jafnframt leyfi ég mér að túlka málflutning þeirra svo, að þeir séu til, þegar á þarf að halda, að standa að frekari eflingu landhelgisgæslunnar og þá auðvitað afla fjár til þeirra hluta.

Eins og þegar hefur komið fram hefur landhelgisgæslan nokkuð verið efld eða unnið að því. Það hefur reyndar dálítið verið fundið að því að það hafi ekki verið unnið að því, áður en fært var út, að efla landhelgisgæsluna svo sem átt hefði að vera. Ég tel að landhelgisgæslan hafi verið efld, í fyrsta lagi með því að fá fullkomnasta skip í varðskipaflotann, Tý, í öðru lagi með því að láta fara fram gagngerðar endurbætur á Óðni, þannig að hann hefði að öllu eðlilegu átt að vera alveg sem nýtt skip. Og þegar þannig var í pottinn búið að hér voru 4 stór skip sem við höfðum þá á að skipa, sem sagt Týr, Ægir, Óðinn og Þór, sem að vísu er þeirra elstur, þá var þetta allnokkuð, auk smærri skipa sem eru í gæslunni. Jafnframt var alltaf gengið út frá því að það væri hægt fyrirvaralítið, ef ástæða þætti til, að leigja annaðhvort hvalbát eða togara, ef á þyrfti að halda, til landhelgisgæslunnar. Út frá því hefur alltaf verið gengið. En jafnframt var mönnum ljóst að hið stækkaða svæði mundi kalla á aukna lögvörslu, og það er mín skoðun að í framtíðinni og á friðartímum, sem við skulum vona að í þessu efni renni upp fyrr en síðar, þá verði einmitt að leggja aukna áherslu á gæslu með flugvélum og þá með stórum og myndarlegum flugvélum. En jafnframt þurfa svo a.m.k. að vera til staðar 4 stór skip og öflug, jafnvel á friðartímum, til þess að vernda það stóra hafsvæði sem hér er um að tefla.

Það voru gerðar á s.l. hausti ráðstafanir, eins og menn minnast, til þess að kaupa stóra Fokker-flugvél. Það var reyndar gagnrýnt af æðimörgum sem þótti þar í of mikið ráðist og þótti óþarflega flott að vera að efna til slíkra flugvélakaupa. Ég hygg nú að þeir, sem hafa átt þess kost að fara í landhelgisgæsluflug með þeirri stærri flugvél, hafi getað gert sér grein fyrir því hvort það hentaði flugvél af þeirri gerð eða hvort það hefði hentað betur að hafa einhverja smáflugvél í þeim förum. En það er ástæðulaust að vera að deila um það. Nú eru allir sammála um þetta og þessi flugvél kemur á sínum tíma. En jafnframt var gert ráð fyrir því að það væri hægt að fá leigða Fokker-flugvél hjá Flugfélaginu eða Flugleiðum hvenær sem á þyrfti að halda. Það hefur verið gert. Það er núna heimild til þess einmitt frá ríkisstj. að leigja þannig flugvél af Flugfélaginu.

Það hefur sýnt sig að það hefur sótt í sama horf og í fyrri landhelgisdeilum, að óvinir okkar hafa lagt áherslu á að sigla á varðskipin og gera þau ósjófær og koma því til leiðar að þau verði að dvelja í höfnum til viðgerðar um lengri eða skemmri tíma. Þess vegna hefur verið ljóst um skeið að það yrði að bæta við skipi í landhelgisgæslunni, — skipi eða skipum. Ég get ekki látið hjá líða að minna á að það er starfandi og hefur verið starfandi landhelgisnefnd ríkisstj. til ráðuneytis þar sem allir flokkar eiga fulltrúa. Ég hygg, og það leiðréttist þá ef ég fer með rangt mál, að það hafi ekki verið fyrr en í jan. að það komu fram till. í landhelgisnefnd frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni um sérstaka eflingu landhelgisgæslunnar með því að leigja togara. Ég hef aldrei orðið var við að till. um slíkt efni hafi komið frá fulltrúa Alþfl. í þeirri n. Og mér er óhætt að segja að það hafi ekki liðið langur tími frá því að þessar till. komu fram frá Lúðvík Jósepssyni þangað til ég tók að beita mér fyrir því að það yrði hafist handa um leigu á togara. Og ég hygg að það verði gengið frá leigusamningi um togara í dag og hann sé nokkurn veginn tilbúinn til þess að fara á miðin án þess að það þurfi að gera á honum nokkrar stórfelldar breytingar. Auðvitað getur verið að það reynist ekki fullnægjandi, auk þess sem við því miður verðum alltaf að hafa í huga þann möguleika að það eigi sér stað sú ásigling á varðskip að það verði ósjófært um lengri eða skemmri tíma, og þá verður auðvitað að fylla í það skarð. Þá verðum við að vera við því búnir, viljum við standa í þessari baráttu, að leigja skip til viðbótar. Og út af fyrir sig ættu ekki að vera vandkvæði á því að fá togara. Þeir eru til hér stórir, af sömu gerð og Baldur sem reynst hefur vel í gæslunni. Að vísu kemur það nú fram þegar á að fara að taka þessa togara, að þá berast okkur mótmæli frá landverkafólki sem mótmælir því að þessir togarar séu teknir úr hráefnisöflun. En þannig verður alltaf, að það verður seint girt fyrir að það komi mótmæli úr einhverri átt. Jafnframt hafa svo komið fram óskir eða ábendingar og ekki hvað síst, eins og réttilega hefur verið sagt hér, frá skipherrum landhelgisgæslunnar, að það þyrfti að fá hraðskreiðari skip. En þessar ábendingar hafa verið teknar til greina að því leyti, að það hefur farið fram ítarleg athugun á því hvort væri hægt að fá slík skip, og það hefur reyndar verið athugað viða um Evrópu og virðist svo sem slík skip liggi ekki á lausu sem henti okkur. Það er auðvitað svo, að það er lítið gagn í því að fara að gera samning um að láta smíða nýtt skip eins og á stendur. Það mundi verða komið nokkuð seint í notkun. Það, sem kemur okkur að gagni, er skip sem er tilbúið, og það er þess háttar skip sem við höfum verið og erum að leita að.

Skipherrarnir tveir, sem fóru til Evrópulanda til þess að skoða hraðbáta, hafa ekki skilað mér í hendur ennþá skriflegri skýrslu. En ég hygg að niðurstaða þeirra verði sú að þeir hraðbátar, sem hægt var að fá keypta eða leigða í Þýskalandi henti ekki, auk þess sem það verð sem var nefnt í því sambandi, en maður veit ekkert um hvort endanlegt hefði orðið, var allt of hátt og eins leigan. Hins vegar telja þeir að hraðskip, sem eru í smíðum í Danmörku, geti hentað. En eins og ég sagði áðan, þá mundu þau skip koma of seint hingað.

Það hefur verið leitað eftir því við Bandaríkin hvort þau vildu ekki leigja hingað hraðskip eða hraðbáta af svokallaðri Asville-gerð eða þá annarri gerð, sem henta þætti, til gæslustarfa hér við land. Þessi málaleitan hefur verið í athugun um skeið í Bandaríkjunum og hefur ekki verið tekin ákvörðun. Ég tek það fram til þess að afstýra misskilningi, — misskilningi sem m.a. kom fram í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, að það var aðeins farið fram á að fá óvopnað skip, ómannað skip, að það var farið fram á að fá það leigt, en ekki keypt. Og þetta hefðu hv. alþm. átt að vita af því að það stendur skýrum stöfum í því bréfi sem dómsmrn. skrifaði til utanrrn. þar sem þessi málaleitan var sett fram. Ég get ekki eignað mér einn heiðurinn af því að hafa tekið þá ákvörðun, heldur var að sjálfsögðu um það fjallað í ríkisstj. áður en bréfið var sent. Ég hef verið óþolinmóður, ég skal játa það, yfir þ~í að fá ekki svar frá Bandaríkjunum í þessu efni. Nú hefur skeyti borist, þar sem sendiherrann skýrir frá því að aðstoðarráðh. Bandaríkjanna hafi kvatt hann á sinn fund áður en til stóð, og hann segir að hann hafi með því viljað undirstrika það að bandaríkjamenn vildu athuga þessa málaleitan í alvöru. Og svo geta menn sagt að það sé ævintýramennska og ekkert nema ævintýramennska að vera að tala um það að óska eftir því að fá hraðskip eða hraðbáta frá Bandaríkjunum.

Nei, það er ekki lítið svo á að það sé nein ævintýramennska, það er ekki litið svo á af bandarískum stjórnvöldum, ég þori að fullyrða það. Ég skal ekkert fullyrða um það á þessu stigi hver hin endanlega ákvörðun verður í þessu efni, hvort bandaríkjamenn lána okkur skip af þessari gerð eða annarri til þess að taka þátt í landhelgisgæslu hér við land. En ég lít svo á að það væri á engan hátt óeðlilegt. Ég hygg, að þeir hafi lánað skip til annarra landa. Það er á milli Bandaríkjanna og Íslands samband alveg sérstaks eðlis þar sem við höfum varnarsamning við Bandaríkin, og það var einmitt gerður viðbætir við þann varnarsamning 1974, og í bókun við þann samning, en þessi samningur er birtur í Stjórnartíðindum, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Báðar ríkisstjórnirnar munu athuga leiðir til þess að efla samvinnu milli varnarliðsins annars vegar og íslensku landhelgisgæslunnar, almannavarna og flugmálastjórnarinnar hins vegar.“

Ég veit auðvitað vel að þetta ákvæði hefur ekki verið sett inn í þennan samning með átökin við breta í huga. Samt sem áður tel ég að það sé ekki óeðlilegur grundvöllur undir málaleitun af þessu tagi. Það er áreiðanlegt að ef Bandaríkin yrðu við þessum ég vil segja sanngjörnu tilmælum íslendinga, þá mundu þau hljóta þökk íslendingana fyrir. Ég efast ekki um að bandaríkjamenn muni athuga þetta mál mjög vel, hver sem úrslitin kunna að verða. En það er að mínum dómi svo að jafneðlilegt og það er, eins og allt er í pottinn búið, að við snúum okkur til ríkisstj. Bandaríkjanna með ósk um lán á skipi til þess að taka þátt í gæslustörfum, þá er það eins óeðlilegt að við snúum okkur til annarra ríkisstj. og gerum ráð fyrir því að þær vilji taka þátt í þessum átökum okkar með þeim hætti að lána skip úr sínum flota. Ég held að allir hljóti að sjá að það er óeðlilegt og það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að ríkisstj. eða ríki, sem ekki eru í neinum sérstökum slíkum samböndum við Ísland eins og Bandaríkin eru, mundu lána okkur skip.

Ég held að bað mundi koma sér vel fyrir sumarið að fá þannig hraðskreitt skip hingað. Ég held hins vegar að okkar framtíðargæslu eigum við að byggja upp með öflugum varðskipum eins og þeim sem við höfum, en það muni vera hæpið að hraðbátar henti til gæslustarfa hér yfirleitt.

Það hafði verið aflað stórrar þyrlu til þess að starfa í landhelgisgæslunni. Það kom óhapp fyrir, — óhapp sem öllum er sjálfsagt í fersku minni, að hún fórst, hún eyðilagðist. Það hefur verið gerð gangskör að því að fá aðra þyrlu í hennar stað. Flugvélavirki hefur dvalið í Bandaríkjunum, flugstjórinn er farinn eða í þann veginn að fara vestur að sækja hana þannig að hún kemur örugglega í næsta mánuði til landsins, auk þess eru svo tvær litlar þyrlur, en það liggur í hlutarins eðli að það mun vera erfitt að hafa þær á varðskipum í vetrarveðrum. Ég hygg að það muni skipherrar staðfesta.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem hæstv. forsrh. sagði. Um það hefur þegar verið hafist handa að ráða skiptiáhöfn, þ.e.a.s. að ráða nokkra menn sem væri hægt að nota til þess að hvíla einstaka menn úr áhöfn varðskipanna. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að það sé hægt að skipta alveg um áhöfn og láta alveg nýja áhöfn fara á skip, heldur verður það að gerast með þeim hætti að það yrði bætt inn í nokkrum mönnum á skipið í stað þeirra sem þá fá hvíld. Ég vona að úr þessu rætist.

Þá töluðu þeir um það, báðir hv. ræðumenn, að það þyrfti að auka pólitískan þrýsting, það þyrfti að auka hina pólitísku pressu. Ég er þessu sammála. Það þarf að beita pólitískum þrýstingi í þessu máli. Það hefur þurft að gera, það þarf að gera, það verður gert og hefur verið gert. Ég held að það megi nú sjá árangur af þeim pólitíska þrýstingi, bæði t.d. í samþykkt Norðurlandaráðs, líka í nýgerðri samþykkt utanrrh. Norðurlanda. Það hefðu þótt tíðindi á sínum tíma að fá slíkar ályktanir. Málið hefur verið sótt í NATO og við höfum gert kröfur til þess að NATO eða Atlantshafsbandalagið hlutaðist til um að Bretar hættu innrás sinni með herskipum á íslensk fiskimið. Það er ekki nokkur vafi á því að sá pólitíski þrýstingur, sem þarna hefur skapast á meðal hinna ýmsu þátttökuríkja, hefur haft sitt að segja.

Það er að sjálfsögðu svo, að margir íslendingar eru vonsviknir yfir því að Atlantshafsbandalagið skuli ekki hafa gert meira í þessu efni. Nú vantar að vísu skilgreiningu á því hvernig það hefði átt að gera meira, hvernig það hefði átt að skerast beinlínis í leikinn með öðrum hætti en það hefur gert. Ég skil vel tilfinningar þeirra sem telja það að NATO hefði átt að bregðast hér hraðar við og harðar. En ég held að öllum gæti verið hollt að íhuga það hvernig bretar hefðu farið fram á íslandsmiðum ef við hefðum ekki ásamt þeim verið í Atlantshafsbandalaginu. Og þá gæti kannske verið hollt að líta til baka og líta yfir söguna og athuga hvernig þeir hafa beitt valdi sínu annars staðar. Þetta verður líka að hafa í huga, og það er ekki rétt að gleyma því. Hitt er svo annað mál, að menn geta haft skiptar skoðanir um hvort það sé sæmilegt að fulltrúi Íslands í Atlantshafsráðinu sitji á bekk með fulltrúa breta þar. Ég held að það hafi verið beitt pólitískum þrýstingi eftir því sem hægt er. Og ég vildi gjarnan heyra það hjá hv. þm. Benedikt Gröndal hvernig hann vildi beita hinni pólitísku pressu, sem hann var að tala um, á annan veg en gert hefur veríð. Það er þakkarvert hjá þessum hv. þm. að þeir hafa staðið hér upp og tekið undir við stefnu stjórnarinnar í landhelgismálinu og einmitt að þessu leyti til, að það þyrfti að efla hinn pólitíska þrýsting. Það er það, sem hefur gildi, að það heyrist engin einasta rödd af Íslandi sem talar í öðrum dúr. Það er nöturlegt að heyra raddir sem kippa vindi úr seglum á þessum pólitíska þrýstingi, sem reynt er að skapa, með óþörfum yfirlýsingum. Menn mega hafa hverjar skoðanir sem þeir vilja. En það er oft óþarfi að vera að hampa yfirlýsingum, þær eiga oft ekkert erindi út fyrir landsteinanna og þær eiga heldur ekkert erindi á Alþingi íslendinga né á Íslandi, vegna þess að það er fylgst vel með því annars staðar frá sem sagt er um þessi efni hér. Og það er alveg áreiðanlegt að bretar fylgjast með því ef þeir heyra einhverja veikleikarödd hér, þeir kunna leggja hana út á réttan hátt. Þess vegna er ég þakklátur, eins og ég sagði áðan, þessum hv. forustumönnum stjórnarandstöðunnar fyrir að hafa tekið mjög ákveðið undir stefnu stjórnarinnar að þessu leyti, en það er einmitt hennar stefna sem unnið hefur verið að.

Ég held að ég hafi ekki tekið rangt eftir í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, en þá fannst mér hv. þm. Benedikt Gröndal segja að þetta stríð væri unnið. Ég er á annarri skoðun. Þetta stríð á langt í land með það að vera unnið. Og ég hef alltaf sagt að það taki langan tíma. Þess vegna skulum við ekki missa þolinmæðina, við skulum ekki fara á taugum, heldur láta aðra bila á taugum. Ég held að það geti farið svo, — ég er síður en svo að óska þess að það verði svo, — að þessi átök, skulum við segja, geti tekið langan tíma. Ég vona, að það verði hægt að binda endi á þau á þann hátt sem við íslendingar megum vel við una áður en langir tímar líða. En hitt er óviturlegt, að vera ekki við því búinn að þetta kunni að standa alllangan tíma.

Ég er ákaflega hræddur um, að þeir fulltrúar, sem við höfum sent á Hafréttarráðstefnu og sitja þar, hafi komið heim af þeirri ráðstefnu með fullmikla bjartsýni. Það skyldi nú eiga eftir að sýna sig að það næðist ekki nein niðurstaða á þessari Hafréttarráðstefnu. En því verður ekki á móti mælt, að það hefur verið mikil bjartsýni ríkjandi hjá þeim fulltrúum sem sótt hafa þessa ráðstefnu, og þeir hafa sagt frá því þegar þeir hafa komið hingað heim. Ég er ekki að segja að það hafi út af fyrir sig gert neitt til. Það hefur kannske gert okkur djarfari til að stiga það spor sem óhjákvæmilegt var að stíga og allir eru sammála um að hafi þurft að stiga.

En hins vegar, þó að ég sé þakklátur þessum hv. þm. fyrir þau orð sem þeir létu hér falla til stuðnings málstaðnum, þá get ég ekki fallist á þá gagnrýni sem þeir höfðu uppi á stjórnina fyrir að hún væri ekki með yfirlýsingar. Ég sé ekki að það mundi styrkja neitt okkar málstað þó að hæstv. forsrh., ég eða einhver annar ráðh. væri að koma í sjónvarp eða fara í einhver blöð og lýsa því yfir þar með fjálglegum orðum hversu svívirðilegt athæfi þetta væri hjá bretum og hversu óskaplega hættulegt þetta væri og fordæma það með allra litríkasta orðbragði sem við ættum yfir að ráða. Ég held að það breytti ekki nokkrum sköpuðum hlut. Auðvitað þarf hér orð til líka og þeim þarf að reyna að koma á framfæri á erlendum vettvangi. En það, sem þó í raunveruleikanum skiptir mestu máli þegar til alls kemur, eru athafnir. Og þögnin þarf ekki að gera neitt tjón, jafnvel yfirlýsingar geta gert meira tjón en hún. En það er mikið vandamál sem hér er um að tefla. Við höfum alltaf vitað að þetta yrði erfitt mál. Menn eru fljótir að gleyma. Ef menn halda að það hafi ekki sést byssur í átökum á Íslandsmiðum fyrr en nú í þessu stríði, þá kemur mér það spánskt fyrir sjónir. Ég held að byssur hafi æðioft verið sýndar í 50 mílna stríðinu. Ég held að þær hafi miklu oftar verið sýndar í 12 mílna stríðinu. Þetta virðist bara alveg gleymt. Ég er ekki með því að gera lítið úr þeirri árás sem þarna var höfð í frammi. En það hefur líka átt sér stað í fyrri átökum að byssur hafa sést, það munu skipherrar geta vottað, þannig að það þarf út af fyrir sig ekki neinn að verða óskaplega hissa á því að það verði notuð þau ráð sem þeim eru tiltæk til þess að reyna að hafa áhrif á okkur í þá átt að láta undan og gefast upp.

Það var spurt áðan af hv. þm. Benedikt Gröndal, að ég ætla, hvort aðstaða okkar hefði versnað eða batnað. Ég svara því fljótt. Aðstaða okkar hefur batnað, hún hefur stórbatnað. Við eigum stórkostlega vaxandi skilningi að mæta víða um lönd. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan um Norðurlandaráð og ríkisstj. Norðurlanda, og þetta gildir miklu viðar og auðvitað munum við vinna sigur. Þar liggur fyrir og er skýrasti votturinn ákvörðun Bandaríkjanna um að færa út á sínum tíma. Og þegar Bandaríkin færa út, þá verður það ekki Bretland eða neitt annað ríki sem fer með herskip á þeirra mið til þess að vernda fiskveiðar sínar þar. Nei, það verður alveg eins og 1948, þegar Truman lýsti yfir yfirráðum Bandaríkjanna yfir hafsbotninum. Þá sögðu menn ekki neitt. Þá var reglan sköpuð.