30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

Umræður utan dagskrár

Það er enginn vafi á því að það hafa fleiri reiknað með því heldur en hv. 2. þm. þeirra Austurl., Lúðvík Jósepsson, að eitthvað heyrðist frá hæstv. ríkisstj eftir að þeir atburðir áttu sér stað sem gerðust á Austfjarðamiðum nú fyrir síðustu helgi. Ég geri ráð fyrir því að allir, sem hafa fylgst með frásögnum af þessu og ekki síst frásögn skipherrans á Baldri, telji að nú sé þetta mál, deila íslendinga við breta, komið á enn hættulegra stig en áður hefur verið og hefur þó mönnum þótt nóg um hvernig bretar hafa hagað sér hér á miðunum gagnvart okkur íslendingum. A.m.k. er það skoðun þess skipherra sem þarna átti hlut að máli að hann teldi að deilan væri nú komin á millu hættulegra stig en áður hefur verið. Bretar virðast forherðast í því að gera tilraunir til ásiglinga eða niðursiglinga á íslenskum varðskipum, og nú síðast hafa þeir beinlínis gefið í skyn með yfirlýsingum, að sögn viðkomandi skipherra á Baldri, að nú yrði ekki lengur þoluð sú áreitni sem uppi hefur verið höfð að þeirra mati af hálfu íslendinga, nú yrðu það byssurnar sem að öllum líkindum yrðu næst látnar tala. Og þessu var fylgt eftir af hálfu freigátuskipstjóranna með því að manna fallbyssur freigátunnar, eins og um algert stríðsástand væri að ræða. Það er þess vegna eðlilegt að spurt sé:

Hvað ætlast hæstv, ríkisstj. fyrir þegar staðið er frammi fyrir atburði sem þessum og yfirlýsingum af þessu tagi? Það er enginn vafi á því að það er ætlast til þess — almenningur í landinu ætlast til þess af hæstv, ríkisstj., þegar málum er svo komið eins og nú eftir síðustu atburði, að annað og meira komi fram af hálfu hæstv. ríkisstj. heldur en formleg mótmæli á hinn heiðbundna hátt, það þurfi nú frekar en nokkru sinni áður að mæta af fyllstu festu og hörku þessari mjög svo fólskulegu árás breta nú síðast.

Eins og hér hefur komið fram, hefur tiltölulega lítið sem ekkert heyrst af hálfu hæstv. ríkisstj., með hverjum hætti verði brugðist við þessu nú, og tiltölulega lítið sem ekkert befur komið fram í þessum umr. Þrátt fyrir það að þrír hæstv. ráðh. hafa hér tekið til máls um þetta, þá standa menn eftir sem áður í nokkuð sömu sporum um það hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera í málinu. Það hefur að vísu verið rifjað upp hér, bæði af hæstv. forsrh. og dómsmrh., að íslendingar hafi tekið þetta mál upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Öryggisráðinu, og á verksviði Atlantshafsbandalagsins, en tiltölulega lítið, a.m.k. afgerandi, hefur gerst þrátt fyrir þessar tilraunir til þess að taka málið upp á þessum vettvangi.

Vissulega er fagnaðarefni, þó að einungis sé í orðum, yfirlýsing eins og Norðurlandaráð gerði á sínum tíma og nú síðar fundur utanrrh. Norðurlanda. En orðin ein nægja lítið, a.m.k. í þessu tilviki, þar þarf meira til. Þó að það sé fyllsta ástæða til þess að fagna yfirlýsingum af þessu tagi, þá þarf meira að koma til þess að það verki sem raunverulegur stuðningur við þá baráttu sem við íslendingar stöndum nú í gagnvart bretum. Það er enginn vafi á því að nú er til þess ætlast af hinum þögla meiri hluta í þessu máli á Íslandi að hæstv. ríkisstj. taki harðari afstöðu og sýni meiri stefnufestu í þessu máli heldur en hún hefur gert til þessa. Og þegar ég tala um hinn þögla meirihluta, þá á ég við almenning hér á Íslandi. Það er enginn vafi á því að almenningur í landinu ætlast til þess af hæstv. ríkisstj. að hún sýni meiri festu í samskiptum sínum við Atlantshafsbandalagið, Bandaríkin þá að mínu viti sérstaklega, varðandi þetta mál. Ég vil því sérstaklega fagna því, að þess skuli hafa verið óskað við Bandaríkjastjórn að hún láti í té báta til gæslu landhelginnar hér við Ísland, þótt ég h.armi hins vegar hversu langan tíma það virðist taka bandarísk stjórnvöld að gera upp sinn hug við þessari málaleitan. Ég er þeirrar skoðunar, og ég hef sagt það hér á Alþ. oftar en einu sinni, að ég tel að með þeim samningi, sem í gildi er milli Bandaríkjanna annars vegar og íslendinga hins vegar um varnir landsins, sé það í fyllsta máta eðlilegt að gerð sé krafa til bandarískra stjórnvalda um að þau sýni málinu þann skilning að þau a.m.k. beiti áhrifum sínum innan Atlantshafsbandalagsins, sem báðar þessar þjóðir eru meðlimir í, beiti sínum áhrifum í þá átt að bretar láti af þeim dólgshætti sem þeir hafa sýnt gagnvart íslendingum nú í þessu þorskastríði og í undanförnum þorskastríðum. Og ég fagna því sérstaklega að það var ekki annað skilið á ræðu hæstv. dómsmrh. hér áðan heldur en einmitt hann væri þessarar skoðunar, að það bæri að leita liðsinnis Bandaríkjanna í þessu efni, ekki síst með tilliti til þess, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það, að samband Bandaríkjanna og Íslands er með þeim hætti í gegnum varnarsamninginn og viðauka, sem við hann var gerður 1974, að þetta verður að teljast eðlilegt. Hitt skal ósagt látið, hver svör verða þegar og ef þau koma. En ég fyrir mitt leyti tel ástæðu til þess að fagna því að slík beiðni hefur þó verið fram sett af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Hæstv. dómsmrh. vék áðan nokkrum orðum að landhelgisnefnd og hann sagðist vilja þakka sérstaklega þann stuðning sem bæði hv. þm. Benedikt Gröndal og hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefðu lýst yfir í því tilviki að efla bæri landhelgisgæsluna og þeir stæðu að fjáröflun til eflingar gæslunnar. En hann sagði í áframhaldi af þessu að hann minntist þess ekki að í sambandi við landhelgisnefndina hefði komið fram bein till. nema frá hv. þm. Lúðvik Jósepssyni. Sú till. hefði komið fram í jan. s l. og strax þegar sú till. hafði komið fram hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að hrinda henni í framkvæmd. Ekki vil ég hafa neitt af hv. þm. Lúðvík Jósepssyni í þessum efnum, en ég vil fyrst segja það, að minn skilningur á starfi og starfsháttum landhelgisnefndar hefur ekki verið sá að hér væri fyrst og fremst um n. að ræða sem beitti sér fyrir tillöguflutningi eða öðru slíku, heldur væri hér um að ræða n. sem væri samstarfsaðili við ríkisstj. og á þessum vettvangi væri hægt að bera saman bækur og það yrði reynt að ná þar sem víðtækastri samstöðu un; það, sem verið væri að gera á hverjum tíma, en grundvöllurinn að þessari n. væri ekki tillöguflutningur af einu eða öðru tagi. En út af þessu vil ég aðeins segja það, að ég veit ekki betur en fulltrúar allrar stjórnarandstöðunnar hafi margoft lýst því yfir hér á Alþ. í umr. um landhelgismálið, bæði utan dagskrár og af öðrum tilefnum: að þeir væru reiðubúnir til þess að taka upp samstarf við ríkisstj. á þann veg að efla landhelgisgæsluna með sem bestum hætti. Og ef ekki er tekið tillit til slíkra yfirlýsinga gefinna hér á Alþ., þá hef ég ekki ástæðu til þess að ætla að meira tillit yrði tekið til þess, þótt menn flyttu sérstaklega till. um það í landhelgisnefnd. Vilji stjórnarandstöðunnar hefur margoft komið fram þess efnis að hún er til reiðu í samstarfi við ríkisstj. til þess að efla Landhelgisgæsluna.

Ég hef sagt það hér áður, að ég lít svo á að það eigi og líklega sé það eina vopnið. sem bítur í þessari deilu, að þess verði krafist af bandaríkjamönnum sem varnaraðila landsins, áhrifamesta aðilanum innan Atlantshafsbandalagsins þar sem við erum meðlimir, — þess verði krafist af þeim að þeir beiti áhrifum sínum í þá átt innan NATO, við forsvarsmenn NATO, að bretar láti af þeim dólgshætti sem þeir hafa sýnt hér á íslandsmiðum að undanförnu. Þetta er hin pólitíska pressa sem á að beita. Það er með þessum hætti og líklega þessum eina hætti hægt að koma á framfæri á því máli, sem þessir aðilar skilja, skoðunum og viðhorfum íslendinga varðandi þessa deilu, því að það ætti hæstv. ríkisstj. að gera sér ljóst og ég vænti þess að hún geri sér það ljóst, að með þeirri linkind, sem hún hefur sýnt gagnvart Atlantshafsbandalaginu og forsvarsmönnum þess, þá fjölgar hún dagsdaglega þeim íslendingum sem verða á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu og móti vestrænni samvinnu, og þetta ætti hæstv. ríkisstj. að gera sér ljóst. Þetta er auðvitað ekki að skapi þeirra sem með einhverjum hætti, mismunandi mikið kannske, eru fylgjandi vestrænni samvinnu og eru fylgjandi því að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu. En það er enginn vafi á því að líðist bretum öllu lengur að halda uppi þeim árásaraðgerðum sem þeir hafa haldið uppi að undanförnu, þá er ekki langt í það að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar verður andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Og hver hefði trúað því að þeir flokkar. sem standa að núv. hæstv. ríkisstj., yrðu líklegastir til þess að skipa málum með þeim hætti? Til þess hefði öðrum flokkum í landinu verið betur trúandi. En mér sýnist málið vera á hraðri leið að enda á þennan hátt.

Hæstv. forsrh. sagði áðan að harðorð mótmæli hefðu verið borin fram vegna þess atburðar sem hér hefur fyrst og fremst verið gerður að umtalsefni, og út af fyrir sig er ekki nema gott eitt um það að segja. En formleg mótmæli hafa ákaflega litla þýðingu. Það verður meira að fylgja á eftir. Og ég er þeirrar skoðunar að fylgja beri þessu eftir með þeim hætti að fjölga skipum í gæslunni meir en þó nú hefur verið gert og í áframhaldi af því að beita meiri pólitískum þrýstingi á þá menn, á þá aðila, sem í raun og veru ráða innan Atlantshafsbandalagsins. Ég er því sammála því, sem hér hefur komið fram, að það sé meiri ástæða til þess núna, eins og mál horfa, að báðir þessir togarar, sem talað er um að taka á leigu, verði teknir til handa gæslunni. Ég er ekki með þessu að segja að það sé þarflaust að Hafrannsóknastofnunin fái aukinn skipakost. Ég held þó að hitt sé brýnna, eins og mál horfa við nú, að auka meir skipakost gæslunnar og beri því að láta báða þá togara fara til gæslunnar. Auk þess vænti ég þess að innan tíðar fáist úr því skorið að það verði í raun og veru að veruleika að hægt verði að fá eitt hraðskreitt skip, eins og skipherrar gæslunnar hafa lagt ríka áherslu á, þannig að með slíkum aðgerðum væri bretum sýnt fram á að það væri síður en svo að það væri nokkur uppgjafartónn í íslendingum þrátt fyrir þá hegðan sem bresk stjórnvöld hafa fyrirskipað sínum mönnum hér á Íslandsmiðum.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að við erum reiðubúnir til samstarfs — höfum verið það og erum það — við hæstv. ríkisstj. um allar hugsanlegar leiðir til þess að styrkja gæsluna á þann hátt sem best þykir og að mestu gagni kemur, og sú afstaða okkar hefur legið fyrir allt frá upphafi.

En áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins víkja að því sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með tal hans, þó sérstaklega þar sem hann vék að því og varpaði fram þeirri spurningu, hver kosturinn væri við að efla gæsluna. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. á annan veg en þann að efling gæslunnar og þá, eins og hann setti dæmið upp hins vegar, aukinn hernaðarkostur af hálfu breta mundi setja deiluna á enn hættulegra stig. Ef þetta er skilningur fleiri hæstv. ráðh. en hæstv. sjútvrh., þá er ég ekkert hissa á því þótt hægt sé farið af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Ef hún telur að það geti beinlínis skaðað að auka skipakost gæslunnar, þá skil ég vel að hún sé hikandi í ákvarðanatöku um slíka hluti. En ég get ekki með nokkru móti skilið að það sé í raun og veru skilningur manna að dæmið líti svona út. En meðan við íslendingar sýnum ekki meiri festu í sambandi við hinar tíðu árásir og aðfarir breskra skipa hér á miðunum, þá er eðlislega kannske hægt að búast við því að bretar gangi harðar fram en þeir ella gerðu við þessar kringumstæður.

Það er enginn vafi á því, að ef við íslendingar sýndum viðeigandi festu og hörku við þessum árásum, þá mundu bretar ekki stælast. Þeir mundu fara að skoða hug sinn um það að senda á Íslandsmið öllu fleiri freigátur en þeir nú hafa hér. Þeir mundu ekki fjölga þeim um tvær freigátur við hvert eitt varðskip sem bættist í skipakost landhelgisgæslunnar. Ég held að það sé ekki rétt mat á því sem mundi gerast við aukningu á skipakosti gæslunnar.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. En ég vil að síðustu aðeins víkja örfáum orðum að öðru, sem hér hefur komið fram, og þá fyrst og fremst að því sem hæstv. sjútvrh. sagði. Ég vissi að vísu að hæstv. ráðh. hefur alla tíð verið þess sinnis að vilja samninga. Hann sagði hér í þeim tón, sem ég kunni vart við, að við gerðum samninga við allar þjóðir, sýndum þar með að við værum vissulega til þess fallnir að gera samninga í þessu máli, nema við breta, og utanaðkomandi aðilar mundu líta svo á að það mundi vera eitthvað einkennilegt við afstöðu breta þegar það væri eina þjóðin sem engir samningar fengjust við í landhelgisdeilunni.

Ég hélt að hæstv. sjútvrh. væri búinn að komast að raun um að það er ekki vilji íslendinga að samningar séu gerðir í þessu máli. Það var ekki vilji þeirra að þýski samningurinn væri gerður, og ég efast um að það sé stór hópur meðal íslendinga sem er þannig þenkjandi að hann telji að gera eigi samninga við norðmenn eða færeyinga. En nú er aðeins einn mánuður, muni ég rétt, þar til samningurinn við vestur-þjóðverja samkv. yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. fellur úr gildi, verði ekki hin margumtalaða bókun 6 komin til framkvæmda. Og það stakk míg, það sem hæstv. sjútvrh. vék að síðast í sinni ræðu þegar hann talaði um hina miklu vinsemd vestur-þjóðverja í garð okkar íslendinga nú á hinum síðustu dögum. Ég óttast að það, sem þar hangir kannske á spýtunni fyrst og fremst, sé framlenging á þýska samningnum, en ekki afdráttarlaus framkvæmd þeirrar yfirlýsingar sem gefin var af hálfu hæstv. utanrrh. við gildistöku þessa samnings, að ef bókun 6 yrði ekki komin til framkvæmda, þá yrði samningnum sagt upp og hann félli úr gildi. Ég óttast að með því, sem nú er að gerast á stjórnarheimilinu, sé verið að undirbúa jarðveginn fyrir að framlengja samninginn við vestur-þjóðverja þrátt fyrir það að bókun 6 hafi ekki komið til framkvæmda.

Ég er ekkert viss um að það sé rétt skoðun hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, sem greip fram í áðan fyrir hæstv. ráðh., að þær breytingar, sem gerðar hafa verið á friðunarsvæðinu fyrir Austurlandi, séu í tengslum við þetta, þó að ég vilji ekki taka fyrir neitt í þeim efnum. En ég óttast það vegna þess, sem hæstv. ráðh. lét koma fram í sínu máli hér áðan, að nú sé verið að undirbúa þann jarðveg að framlengja samninginn við vestur-þjóðverja, þrátt fyrir það að hin margumtalaða bókun 6 hafi ekki tekið gildi. Og svo slæmt sem það yrði ef samningur yrði gerður við breta úr því sem komið er, sem ég vona að ekki komi til, — ég vænti þess að hæstv. ráðh. séu orðnir þess fullvissir að þeim er Ekki stætt á því að gera samninga við breta úr því sem komið er, — en svo slæmt sem það yrði að samningur yrði gerður við breta, þá er ég efins í því að það væri nokkuð skárra að framlengja vestur-þýska samninginn. En ég óttast að það sé það sem nú er unnið að að tjaldabaki af hálfu hæstv. ríkisstj., að framlengja vestur-þýska samninginn þrátt fyrir það að bókun 6 hafi ekki öðlast gildi.