04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég býst nú við að hv. þm. geri sér grein fyrir að ég hef ekki hér miklu að svara. Það var hlaupin svo mikil reiði í hv. þm. að hann virðist ekki hafa náð að koma frá sér nema helmingnum af því, sem hann ætlaði að segja, og er það illt því að hér er um merkilegt mál að ræða, sem þörf er á að ræða af fullkominni stillingu.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þeim útúrsnúningi sem fram kom hjá hv. þm., að till. væri rangt orðuð vegna þess að þar væri talað um að skipa n. Þetta er að sjálfsögðu orðalag sem mjög hefur tíðkast, og áreiðanlega má finna þess fjöldamörg dæmi að till. hafa verið orðaðar á þennan veg hér á Alþ. (EBJ: Hver á að skipa n.?) Nóg um það. Það er að sjálfsögðu átt við að Alþ. fari þá leið, sem venja er, að kjósa hér n. En ef eitthvert orð í þessari tillgr. er ekki með þeim hætti að menn geti fyllilega við unað, þá er hægðarleikur að framkvæma málfarslegar leiðréttingar á till. í þeirri n. sem fær málið til meðferðar. Ekki mun standa á mér að hnika til orðum eða bæta við kommum eða öðru því sem farið er fram á að gert sé.

Ég get hins vegar auðvitað ekki látið hjá líða að svara því, sem fram kom hjá hv. þm., að sá málflutningur minn væri rangur þegar ég benti á að till. hv. þm. gengur út á að ríkissjóður endurgreiði 530 þús. kr. af þessari einu millj. Hann reyndi að stilla málum upp á þann veg að þetta væri ekki framkvæmanlegt vegna þess að ég hefði einmitt í þessari sömu ræðu upplýst að tekjur fyrirtækisins hefðu ekki numið nema 240 þús. kr. En sér ekki hv. þm. í hverju misskilningur hans sjálfs er fólginn? Við erum ekki að tala um skattana á þessu ári eða tekjurnar á árinu 1974. Við erum að tala um það, að ef frv. hv. þm. verður að lögum, þá gildir það um tekjuárið 1975 og kemur til framkvæmda varðandi skattana 1976, og ég tel að það sé afskaplega líklegt að fyrirtæki, sem veltir 230 millj. á s. l. ári, geti kannske slysast til að græða eitthvað á árinu 1975, þegar það hefur ofan á sína fyrri veltu fengið lóð þar sem það hyggst byggja 20–30 íbúðir. Ég get vel ímyndað mér að fyrirtækið sé þegar farið að gera samninga um sölu á þeim íbúðum sem eiga að vera í þessu húsi, þó að ég viti það ekki nákvæmlega. A. m. k. er ekkert sem mælir gegn því að álykta sem svo að fyrirtækið kunni að hafa talsvert meiri tekjur á árinu 1975 heldur en það hafði á árinu 1974, og þar af leiðir að ekkert er því til fyrirstöðu að gera ráð fyrir að fyrirtækið mundi á árinu 1976 geta hagnýtt sér þá heimild sem felst í frv. hv. þm., Eyjólfs K. Jónssonar, að fullu varðandi þessar 530 þús. kr. Það er ekkert því til fyrirstöðu að gera ráð fyrir því að svo sé. Ég verð þar að auki að leyfa mér að vona að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson sé mér sammála um að það, að 430 fyrirtæki í Reykjavík skuli vera skattfrjáls á þessu ári, er hreint hneyksli, og að fyrirtæki, sem veltir 230 millj., skuli borga minna í tekjuskatt en einn ellilífeyrisþegi, það er líka hneyksli. Og ég vil leyfa mér að vænta þess að hann geti verið mér sammála um að þetta hneyksli verður að stöðva. Ég hef þó þrátt fyrir allt þá trú á hv. þm. að hann muni hjálpa mér og öðrum sem vilja breyta þessu, til að koma því til leiðar að þetta hneyksli endurtaki sig ekki á næsta ári. Það segir sig sjálft að fyrirtæki, sem veltir mörgum hundruðum millj., kannske 500 millj. á næsta ári, ætti í öllu falli að geta haft tekjur sem nema meira en einni millj. kr. á árinn 1975.