30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú raunar ætlað það og þá ekki síst með tillíti til þess að nú fyrir skemmstu, einmitt um þetta leyti dags, skömmu fyrir kl. 7, þá var ungur varaþm. norðan úr landi snupraður af einum stjórnarsinna hér, nánar tiltekið hv. 12. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni, fyrir að sýna hinu mjög svo háttvirta Alþingi lítilsvirðingu í orði, — þá hafði ég ætlað það að nú mundu hæstv. ráðh., sjútvrh. og dómsmrh., þykja við hæfi að heiðra þessa öldnu stofnun með návist sinni þegar landhelgismálið er til umr. Það er allt að því óviðkunnanlegt að hugsa til þess að þeir skuli ætla hæstv. forsrh. að taka hér prívat og persónulega á sitt breiða bak allar þær snuprur, sem til ríkisstj. er vísað í umr. um þetta mál. Nú sem sagt horfir málið öðruvísi við. Þeir heiðra sem sagt Alþ. með fjarveru sinni þessa stundina, og ég hlýt að taka nokkurt tillit til þeirrar staðreyndar í þeim orðum sem ég læt hér falla.

Það var rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni fyrir skemmstu. Við höfum vitað það lengi að vinnubrögð breta á miðunum hér hjá okkur stefna að því að lama fyrir okkur varðskipin, að gera þau ósjóhæf þannig að þau geti ekki gegnt hlutverki sínu á miðunum. Það var líka rétt sem hæstv. dómsmrh. sagði, að bretar hafa fyrr mannað fallbyssur í átökunum hér við land. Það er rétt minni hans að þetta var gert við útfærsluna í 12 mílur og enn þá bárust fréttir af því við útfærsluna í 50 sjómílur. Þessum ráðum hefur verið beitt, þessum ógnunum hefur verið beitt. En önnur breyting hefur átt sér stað síðan. Við höfðum í þau skipti við völd í landinu ríkisstj. sem ekki beygði sig fyrir ógnunum, ekki tók slíkar ógnanir fegins hendi til þess að afsaka tilslökun í landhelgismálinu. Í þau skipti höfðum við ekki Sjálfstfl. í stjórn hér á landi. Síðan tók viðreisnarstjórnin við útfærslu í 12 sjómílur og leiddi hana til lykta, útfærsluna í 12 sjómílur, með hinum fræga hætti, með samningunum við breta og vestur-þjóðverja 1961, samningnum sem bretar nota enn að skálkaskjóli á miðunum hér við land. Við skulum vera minnug þess að einu þjóðirnar, sem ekki viðurkenndu útfærsluna í 50 sjómílur í verki og ekki útfærsluna í 200 sjómílur í verki heldur, eru bretar og þjóðverjar sem skákuðu í skjóli samningsins frá 1961 þar sem kveðið var á um það að við færðum ekki út landhelgina aftur gegn vilja þeirra með öðru móti en því að málið færi undir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag.

Hæstv. forsrh. ítrekaði hér í umr. fyrri yfirlýsingar sínar um að hann teldi umr. utan dagskrár um landhelgisgæsluna bera vott um skelk og þreytu í átökunum við breta, — skelk og þreytu af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. Það er ekki rétt að ræður okkar um málefni landhelgisgæslunnar beri vott um skelk og þreytu í viðureigninni við breta. Þær bera hins vegar óneitanlega vott um það að við óttumst dugleysi ríkisstj. hans og þær bera vott um nokkra þreytu vegna dáðleysis þessarar ríkisstj. í þeim slag sem við nú stöndum í.

Ég verð að viðurkenna það, — ég sé að því miður er hv. þm. Benedikt Gröndal genginn úr salnum, — ég verð að viðurkenna það að ég furðaði mig ekki ýkja mikið á því þótt bæði hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. settu upp stór augu við ræðu þm. hér utan dagskrár í dag. Það eru nefnilega ekki liðin ýkjamörg kvöld síðan hv. þm. Benedikt Gröndal og hv. þm. Jón Skaftason komu fram í sjónvarpsviðtali og lýstu því yfir, að þeir teldu að ekki ætti að efla landhelgisgæsluna með tilliti til átakanna sem nú eru á miðunum. Benedikt Gröndal ítrekaði fyrri yfirlýsingar hæstv. forsrh. um það, að við hefðum þegar sigrað breta í þessari deilu, lagði áherslu á það eins og hæstv.forsrh.að okkur þýddi ekki að etja kappi við breta í sjóhernaði og taldi að við ættum ekki að kaupa hraðskreið skip eins og þau sem skipherrar landhelgisgæslunnar leggja til að keypt verði. Svo kemur hv. þm. Benedikt Gröndal fram við þessar umr. og lýsir yfir því, að við verðum endilega að efla landhelgisgæsluna með tilliti til átakanna sem nú standa, og lýsir yfir því, að að sínu áliti standi þetta þorskastríð enn. Það eru yfirlýsingar á borð við þessa sem gera það að verkum að það getur orðið býsna strembið bæði fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að reikna með Alþfl. í sambandi við landhelgismálið og að því er mér virðist býsna strembið fyrir hæstv. ríkisstj. að reikna með Alþfl. yfirleitt eða afstöðu hans í þessu máli.

Ég tek að sjálfsögðu undir það sem sagt hefur verið um þau atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. sem lutu að baráttutækni okkar í aðalatriðum í landhelgismálinu. Ég leyfi mér að skilja orð hæstv. dómsmrh. varðandi pólitískan þrýsting á þá lund, að hann sé samdóma okkur alþb.mönnum um það, að við eigum að hafa á lofti nú það sem sjálfsagt er í þessu máli, að láta bandaríkjamenn vita það að við teljum okkur undir engum kringumstæðum fært að leyfa þeim að hafa herstöð hér í nafni NATO ef svo heldur áfram sem horfir í landhelgismálinu og láta stjórn Atlantshafsbandalagsins af því vita að við treystum okkur ekki til þess að vera í því kompaníi með bretum sem beita okkur hér ofbeldi. Ég leyfi mér að skilja orð hæstv. dómsmrh. á þá lund. Ég leyfi mér einnig að skilja orð hans varðandi sæmdina sem í því sé fólgin að við höfum fulltrúa á sama bekk og bretar í aðalstöðvum NATO, — ég leyfi mér að skilja þessi orð hans á þá lund að hann telji sjálfur að slíkt sé ósæmilegt. Ég hefði að vísu kosið að hæstv. dómsmrh. hefði kveðið öllu skýrar að orði en hann gerði í ræðu sinni um þessi atriði, en ég virði honum það til vorkunnar að hann hefur orðið sárbeitta reynslu af því að kveða mjög skýrt að orði hér í þingsölunum. Því mýkra sem orðalagið er, því færri horn sem eru á orðunum, því sársaukaminna er að éta þau ofan í sig aftur, og kannske því minni hætta á því að þau verði dæmd formlega dauð og ómerk. En ég sé fram á það að hér eigum við nú þess kost að reyna á merkingu þessara orða hæstv. dómsmrh., t.d. með því að kanna hvort hv. þm. Framsfl. fást ekki til þess að vera meðfim. með okkur alþb.- mönnum að þáltill. um að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að lokið verði aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu með tilliti til atburðanna. sem nú eru að gerast á miðunum, og jafnframt að herverndarsamningurinn verði tekinn til endurskoðunar, svo sem ákvæði hans mæla fyrir um.

Varðandi yfirlýsingar, sem hafa komið fram við þessar umr. um þau skip sem henta muni til eflingar landhelgisgæslunni hér, þá leyfi ég mér að minna lítils háttar á blaðaviðtal sem ég las í morgun við Höskuld Skarphéðinsson skipherra á Baldri, skuttogaranum sem hefur reynst afburðavel við gæsluna, einkum vegna þess hversu skrokksterkur hann er og vel til þess fallinn að standast ásiglingar. Skipherrann lét þau orð falla í þessu viðtali að það væri alls ekki úr lagi að einhverjir þeirra hv. alþm., sem virðast hafa meiri þekkingu á gæslustörfunum innan múra Alþingishússins en skipherrar gæslunnar úti á miðunum, kæmu með svo sem einn túr á miðin á varðskipunum ef hugsanlegt væri að þeir gætu aukið þó ekki væri nema spönn við visku sína með þeim hætti sem að notum gæti komið næst þegar ræddur yrði tækjabúnaður landhelgisgæslunnar. Hann lét það raunar fylgja með, að þeir gætu þá kynnt sér sérstaklega það atlæti sem við sætum af hálfu herskipa Atlantshafsbandalagsins, ef vera mætti að hv. þm. gætu með því dýpkað skilning sinn á nauðsyn þess að við sætum áfram í bandalagi þessu.

Hæstv. forsrh. staðhæfði að við hefðum, með því að ríkisstj. okkar hefði borið fram mjög ströng mótmæli á alþjóðavettvangi við síðustu atburðum á miðunum, gert það sem í okkar valdi stæði, það hefðu verið einu viðbrögðin sem hefðu verið á okkar valdi nú. Og hann sagði: Það er á valdi fjölmiðlanna að velja þær fréttir sem þeir kjósa að bera viða vegu, sagði hann í svari við aths. hv. þm. Benedikts Gröndals um það hversu hljótt væri um málið. Ríkisstj. Íslands fengi ekki við það ráðið. En sannleikurinn í málinu er náttúrlega sá, að ríkisstj. Íslands fær verulega við það ráðið hvort nokkrar fréttir er raunverulega að segja af gangi landhelgismálsins hérna. Þrátt fyrir allt, þó að fjölmiðlar væru allir af vilja gerðir að túlka málstað okkar, þá er það löngu, löngu hætt að vera frétt að íslenska ríkisstj, mótmæli harðlega framferði breta á miðunum hérna. En það væri á hinn bóginn frétt ef hæstv. ríkisstj. tæki sig til og gerði eitthvað það í málinu sem mark væri á takandi, gerði eitthvað í málinu annað en blaðra, hreint og klárt að blaðra.

Ég vil svo í lok ræðu minnar vekja athygli á því, að hæstv. forsrh. lét hjá líða í svarræðu sinni við ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar að víkja að lagafrv. sem við alþb: menn höfum borið fram í Ed. um leiðir til fjáröflunar til þess að styrkja landhelgisgæsluna og jafnframt um leiðir til þess að koma utanríkisviðskiptum okkar í þess háttar horf sem hæfir núverandi deilu okkar við breta. Það er frv. okkar um að lagt verði sérstakt 25% innflutningsgjald á breskar vörur þar sem fram er tekið að að vísu hefðum við helst viljað að tekið yrði gersamlega fyrir innflutning frá Stóra-Bretlandi, en með tilliti til þeirra aðila, sem nota breskar vélar, og þess fólks, sem á t.d. breska bila, þá teljum við ekki æskilegt um sinn að loku verði skotið fyrir innflutning á varahlutum. Í grg. með frv. okkar er vakin athygli á því að við fluttum inn s.l. ár fyrir 8 milljarða frá Bretlandi, þangað fluttum við út fyrir aðeins 4 milljarða. Ef við reiknum nú með því að eigendur breskra véla og breskra bila þyrftu að kaupa fyrir álíka háar fjárupphæðir varahluti á næstu missirum eins og þeir gerðu á s.l. ári, þá nam innflutningur á varahlutum í hreyfla árið sem leið aðeins 66 millj. og innflutningur varahluta í bíla aðeins 103 millj., eða samtals nam þessi innflutningur á varahlutum 169 millj. kr. sem er sáralítill hluti af 8 milljarða innflutningi alls. Það liggur í augum uppi að langflestar þær vörur, sem við flytjum inn frá Stóra-Bretlandi núna með óhagstæðum vöruviðskiptajöfnuði, getum við fengið frá öðrum löndum. Þetta frv. fluttum við fyrir nokkrum vikum í Ed. Formaður fjh.- og viðskn. Ed., sem er framsóknarmaður, hefur þrátt fyrir glaðlegar undirtektir hæstv. dómsmrh. og formanns Framsfl. undir till. okkar um leiðir til fjáröflunar til landhelgisgæslunnar ekki séð sér fært að taka þetta frv. enn þá fyrir á nefndarfundi og er mér þó ekki kunnugt um að fjh.og viðskn. Ed. hafi verið önnum kafin síðustu vikurnar.

Ég ítreka það, að ég fagna þeim möguleika sem mér virðist koma fram hjá hæstv. dómsmrh. á því að þeir framsóknarmenn fáist nú til þess að gerast meðflm. með okkur alþb.- mönnum að þáltill. um að skora á ríkisstj. að gera eitthvað raunhæft í landhelgismálinu til að auka pólitískan þrýsting, um þáltill. um það að skora á ríkisstj. að slíta tengsl okkar við Atlantshafsbandalagið, ef svo heldur áfram sem horfir í landhelgismálinu, og að segja upp varnarsamningnum.

Ég get ekki hjá því komist að víkja aðeins að ræðu hæstv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, þó að hann sé hér nú fjarri, við skulum ætla að yfirveguðu ráði. Ég leyfði mér að kalla fram í fyrir honum í ræðu hans þar sem hann var að ljúka við að segja okkur frá því hversu mikilli vinsemd við ættum nú að mæta í Vestur-Þýskalandi og hefðum átt að mæta í Vestur-Þýskalandi rétt áður en hann tók þá ákvörðun að opna aftur friðunarsvæðið fyrir Austurlandi, rétt áður en hann tók þessa óútskýrðu ákvörðun, því að svo sannarlega kom það ekki fram í ræðu hæstv. ráðh. hvernig hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin, sem hann tók í janúar um að loka þessu svæði, hefði verið röng. Við skiljum ástæðurnar fyrir lokun þessa svæðis með tilliti til svörtu skýrslunnar. Með tilliti til ástands íslenskra fiskstofna lá það í augum uppi, að með því að hlífa þessu svæði var þó stigið skref, örlítið skref í rétta átt til þess að vernda fiskstofnana gegn ofveiði. Við vitum að þetta var gert að beiðni fiskiskipstjóra á Austurlandi og með góðfúslegu, en órökstuddu að vísu, samþykki fiskideildar, sem lýsti yfir þeim almenna skilningi að þetta væri þó skref í rétta átt. En við fengum enga skýringu á því með hvaða hætti hæstv. sjútvrh. hefði komist að þeirri niðurstöðu að nú væri rétt að opna þetta svæði.

Hann gaf okkur ekki heldur fullnægjandi skýringar á því með hvaða hætti vestur-þjóðverjar gátu byrjað að veiða þarna áður en íslenskir fiskiskipstjórar vissu af því að þetta svæði hafði verið opnað á ný. Þjóðverjar fengu upplýsingarnar hjá sjútvrn. um að svæðið hefði verið opnað. Í blaðaviðtali, sem birtist í dag, segir hæstv. sjútvrh. frá því, að það hafi viljað svo til að vesturþýski sendiherrann hafi verið staddur í sjútvrn., frétt þetta þar og náttúrlega komið þessum upplýsingum á framfæri til sinna manna þarna fyrir austan það snemma að þeir voru búnir að fá rífandi afla á miðunum áður en íslenskir fiskiskipstjórar á þessu svæði, fiskiskipstjórarnir sem fóru fram á það á sínum tíma að svæðinu yrði lokað í verndarskyni, fiskiskipstjórarnir sem beiðast þess enn að þessu svæði verði haldið áfram lokuðu, — áður en þeir fengu hugmynd um þetta. Op ég vil ekki draga það í efa, að rétt sé að Hafþór hafi kastað nokkrum sinnum á þessum slóðum, í Berufjarðarálnum, og fengið lítinn fisk. Ég vil ekki draga það í efa að þetta sé rétt. En mig furðar stórlega á því að þetta, að Hafþór fékk þar lítinn fisk, hafi verið grundvöllur undir ákvörðun hæstv. ráðh: um að opna svæðið og þá fyrst og fremst fyrir þýsku togurunum, enda vitum við ósköp vei að einn togari fékk þarna rösklega 200 tonna afla á tveimur sólarhringum og þrír eru búnir að fylla sig síðan og það eru ekki enn þá komin mánaðamót. Það er rífandi afli þarna af smáum milliufsa.

Ég harma það enn að hæstv. sjútvrh. er fjarri. Ég vil samt ekki láta hjá líða að bera fram spurningu hérna sem ég mun svo ítreka við hann aftur þegar fundum okkar ber saman, væntanlega kl. 9 í kvöld, — þá ætla ég að hann muni koma til þess að hlusta á framhald þessara umr., — bera fram þá spurningu við hann hvort satt sé, sem mér hefur verið sagt af allmörgum merkum mönnum, að hæstv. ráðh. hafi látið þau orð falla á fundi hér í Reykjavík fyrir skemmstu að hann teldi að mjög svo kæmi til greina að framlengja samninginn við vestur-þjóðverja um heimild þeim til handa til að veiða hér 60 þús. tonn á ári í tvö ár enda þótt bókun 6 gangi ekki í gildi, þannig að sú heimild, sem við höfum til þess að fella niður þýska samninginn nú í vor, verði ekki notuð þrátt fyrir svardagana alla hér fyrir jólin í vetur þegar fjallað var um þýsku samningana. Ef svo er, þá hlýt ég að tengja þessa ráðstöfun með fiskimiðin okkar fyrir Suðausturlandi ákveðinni grunsemd um það að stefnt sé að því að þýski samningurinn, sem hljóðar upp á 60 þús. tonna ársafla handa 20 skuttogurum í tvö ár, þessi samningur eigi að gilda áfram. Og ég vil rétt aðeins geta þess, að nýi pólski togarinn, sem nú á að taka á leigu og setja í karfaleit fremur en landhelgisgæslu, hann má finna mikinn karfa og auðfenginn ef okkur á að vera búinn meiri ágóði af því að gera hann út til þeirra hluta heldur en af því væri að losna við þýska samninginn.