30.03.1976
Sameinað þing: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ásamt 4 öðrum hv. þm. flyt till. til þál. á þskj. 187 um rannsóknir og hagnýtingu á sjávargróðrinum við Ísland. Þar er lagt til að Alþ. skori á ríkisstj. að skipa 5 manna n. til þess að gera till. um aðgerðir til að efla rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland, annars vegar með tilliti til uppeldisstöðva nytjafiska og hins vegar með hagnýtingu sæþörunga fyrir augum. Skulu þrír nm. skipaðir samkv. tilnefningu þannig að Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands og Iðnþróunarstofnun Íslands tilnefni einn mann hver aðill, en tveir nm. skulu skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður n. Þá er gert ráð fyrir að n. þessi ljúki störfum fyrir næsta þing.

Það er svo að við strendur Íslands vaxa sjóþörungar á breiðu belti sem nær frá flæðarmáli niður á 20 faðma dýpi um það bil Landsmenn hafa frá alda öðli haft mikil not af þessum gróðri, enda er víða mikið um hann við strendur landsins. Þang og þari var mikið notað til fóðurs, áburðar og eldsneytis, en fjörugrös og söl til manneldis.

Hefur margt verið skrifað um nytsemi þessara þörunga. Af eldri ritum má nefna ritgerð Jóns lærða sem var uppi 1574–1650, en hann skrifaði ritgerð um þarategundir. Latneska ritgerð um söl skrifaði Þorkell Vídalín árið 1674. Ritgerð um þang- og þarategundir er eftir Bjarna Pálsson frá 1729, ritgerð um söl eftir Magnús Ketilsson frá 1775 og ritgerð um ætar þarategundir eftir Magnús Stephensen frá 1808. Enn fremur er mikið um íslenska þörunga og nytsemi þeirra í bók Björns Halldórssonar, Grasnytjar, frá 1783 og í sjóþarafræði eftir Lyngbye sem kom út árið 1819. Fyrstu tilraunir til vísindalegrar þekkingar á íslenskum sjóþörungum er að finna í bók um náttúrusögu Íslands eftir N. Mohr frá 1786. Er þar getið um 65 tegundir af þörungum, langflest sæþörungar. Í riti Odds læknis Hjaltalins, Íslensk grasafræði, sem kom út að tilhlutan Bókmenntafélagsins árið 1830 og var sú fyrsta í sinni röð á íslensku, eru taldar 57 tegundir þörunga. Eru þeim gefin þar íslensk nöfn. Árið 1861 kom út í Edinborg íslensk flóra eftir enskan grasafræðing; W. L. Lindsay. Þar er getið um 89 tegundir þörunga, mest sjóþörunga.

Meiri háttar athuganir á íslensku sæflórunni hefjast á síðari hluta 19. aldar með ritgerð Strömlets: Om algevegetationen ved Islands Kuster, sem kom út í Gautaborg árið 1886. Strömfelt ferðaðist um Island sumarið 1883 og er verk hans byggt á þeirri rannsóknarferð. í riti þessu er getið tegunda sem voru þá nýjar vísindunum, einkum frá í jörðum austanlands.

Öllu stærra skref er stigið þegar dr. Helgi Jónsson byrjar rannsóknir sinar á sjávargróðrinum við Ísland árið 1894. Dr. Helgi hefur manna mest rannsakað íslenska þörunga. Hann hefur skrifað fjölda ritgerða um þetta efni, aðalverk hans eru: The marine algae of Iceland, sem kom út á árunum 1902–1903 og fjallar um tegundasamsetningu sæflórunnar, alls um 200 tegundir og The marine algal vegetation of Iceland, sem kom út árið 1912, þar sem rakin er eftir megni útbreiðsla tegundanna meðfram ströndum landsins, beltaskipting þeirra og samfélagshættir. Síðara ritið var doktorsritgerð Helga, sem hann varði við Hafnarháskóla árið 1910. Á íslensku skrifaði Helgi tvær ritgerðir um þörunga í Búnaðarritið. Það var árin 1906 og 1918. Er þar lýsing á 17 helstu nytjaþörungum og greiningarlykill til að þekkja þá í sundur.

Mikilvægt framlag til íslenskra þörungarannsókna er líka verk Ernst Östrups um kísilþörunga í sjó, Marine Diatoms from the Coasts of Iceland, sem kom út árið 1916. Eru þar taldar 209 tegundir. Sýnishornunum, sem Östrup byggði sínar rannsóknir á, var þó ekki safnað af honum sjálfum, heldur af ýmsum náttúrufræðingum, íslenskum og dönskum.

En eftir þetta verður um hálfrar aldar hlé á rannsóknum sjávargróðursins við Ísland. Sumarið 1963 hóf dr. Sigurður Jónsson rannsóknir á íslenskum sjóþörungum í sumarleyfi frá starfi við Sorbonneháskóla í París. Rannsóknir þessar voru gerðar sumpart á eigin vegum og sumpart fyrir styrk frá Alþ. Voru þær í beinu framhaldi af rannsóknum dr. Helga. Þær stefndu að könnun afskekktra og áður órannsakaðra fjörusvæða í eyjum og á annesjum viða kringum landið.

Árið 1971 fékkst styrkveiting frá Atlantshafsbandalaginu til rannsókna á sæflóru Íslands bæði frá fræðilegu og hagnýtu sjónarmiði. Var gerður út 8 manna fransk-íslenskur leiðangur kringum landið undir stjórn dr. Sigurðar Jónssonar og Sigurðar V. Hallssonar efnaverkfræðings. Megináhersla var lögð á könnun djúpgróðursins, dýptardreifingu hans, tegundasamsetningu og efnismagn. Var nú í fyrsta skipti beitt köfun á íslandi til beinna rannsókna á botngróðrinum. Bækistöðvar voru settar upp í skólum á ýmsum stöðum vestan- norðan- og austanlands og djúpið kannað bæði frá landi og sjó. Leiðangurinn var búinn ágætum tækjum, þannig að úrvinnsla gagna fór mestmegnis fram strax. Mikilsverðar upplýsingar fengust um sjóflóruna í þessum leiðangri. Niðurstöður þessara rannsókna birtust í ritgerð eftir dr. Sigurð Jónsson og B. Caram, Nouvel Inventaire des Algues Marines Benthiques de I'Islande, sem kom út á Akureyri árið 1972 í grasafræðitímaritinu Acta Botanica Islandica.

Í þessari ritgerð eru samanteknar allar Íslenskar sjóþörungategundir sem vitað er um að vaxi við strendur Íslands. Margar þeirra höfðu ekki fundist áður.

Á sama tíma hefur dr. Sigurður Jónsson fylgst með þróun sjávargróðursins, sem er að vaxa upp í Surtsey, og gert samanburðarkönnun á sjógróðri í Vestmannaeyjum. Niðurstöður þessara athugana hafa birst í Surtseyjarskýrslunum. Auk þess hefur hann skrifað ritgerðir bæði í íslensk og erlend tímarit um nýjungar í Íslensku sæflórunni svo og um æxlun og æxlunarferla vissra grænþörunga við Island.

Þá ber að minnast á hagnýtar rannsóknir sem Sigurður V. Hallsson hefur unnið að alla tíð siðan árið 1957. Hefur hann unnið mest af þessum rannsóknum að eigin frumkvæði og á eigin vegum, en notið styrks opinberra aðila, svo sem Rannsóknaráðs, raforkumálastjóra, sem nú heitir orkumálastjóri, eða Orkustofnunar og fleiri aðila. Þessar rannsóknir Sigurðar V. Hallssonar hafa einkum snúist um tekju, vinnslu, efnainnihald og uppskerumöguleika á vissum nytjaþörungum. Með þessum rannsóknum sínum, tilraunum með vinnsluaðferðir og markaðsathugunum tókst honum að leggja grundvöll að nýjum atvinnurekstri þar sem er þörungavinnslan að Reykhólum.

Af meiri háttar rannsóknum seinni ára skal enn fremur getið athugana sem bandarískur þörungafræðingur, W. A. Adey, hefur gert á kalkþörungagróðrinum við Ísland. Hefur hann mjög bætt vitneskju manna í þessum efnum og skrifað ritgerðir þar að lútandi, m.a. í greinaflokk Vísindafélags Íslendinga. Það var árið 1968. Þá hefur júgóslavnesk kona, Ivka Munda, mikið ferðast um fjörur landsins undanfarin ár og safnað sýnum. Hefur hún skrifað ritgerð um útbreiðslu algengustu sjóþörunga við Ísland.

Þekking manna á íslensku sæflórunni hefur vissulega aukist á siðari árum. Hins er þó að gæta, að rannsóknir á sjávargróðrinum hafa mest verið framkvæmdar fyrir framtak einstakra manna sem sáu nauðsyn á áframhaldandi rannsóknum. En í dag er hvergi unnið að almennri rannsókn hinna botnlægu sjóþörunga við íslenskar rannsóknastofnanir. Mörg verkefni eru því enn óleyst. Þau krefjast ýmist frumathugana eða endurmats í ljósi nýrra aðferða og breyttra viðhorfa.

Rannsóknir á sjávargróðrinum eru bæði undirstöðurannsóknir eða beinar vísindarannsóknir og hagnýtar rannsóknir.

Hinar beinu vísindarannsóknir á sjávargróðrinum varða grundvallaratriði, svo sem líf, vöxt og æxlun þessara lífvera. Hér er um að ræða bæði botnlæga sjóþörunga og svifþörunga. Hinir botnlægu sjóþörungar mynda aðalstöðvar lægri dýra, sem eru fæða fiska, skjólstöðvar fyrir ungfisk og aðalstöðvar sumra fisktegunda, svo sem hrognkelsis. En svifþörungar hafa sína grundvallarþýðingu sem frumáta hafsins, svo að ekki er að ófyrirsynju, að kalla þá gresjur hafsins, svo sem hinn merki sjávarlíffræðingur Prescott nefnir fyrirbærið.

Ekki þarf hér að ræða um þjóðhagslegt mikilvægi vísindalegra rannsókna á sjávargróðrinum við Island. Þar sem þær varða undirstöðutíma undir höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum. Engin þjóð á meira undir vísindalegum rannsóknum á þessum vettvangi en einmitt íslendingar. Við verðum sjálfir að annast þær rannsóknir. Ekki er hægt nema að takmörkuðu leyti að byggja á almennum vísindalegum rannsóknum á sjávargróðri sem annars staðar er framkvæmdur. Það verður að gera rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland með tilliti til íslenskra aðstæðna. Hér er mikið verk að vinna og margþætt. Þessar rannsóknir á sjávargróðrinum stefna að heildarsamantekt um íslensku sæflóruna og þar með að bættri vitneskju manna um lífið í sjónum við Island. Þetta verk þolir ekki bið. Við höfum heildarsamantekt um fiska, um fugla, um spendýr og um landflóruna, en enn vantar sæflóru Íslands.

Hagnýtar rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland eru og í hæsta máta aðkallandi verkefni. Við höfum þegar hafið það starf með rannsóknum þeim á þara og klóþangi, sem voru undanfari þörungavinnslunnar að Reykhólum. Þar er um að ræða gott dæmi um þýðingu þörunga sem hráefnis fyrir mikilvæga framleiðslu, þar sem eru alginöt sem eru mikilvægur þáttur í margs konar efnaiðnaði, allt frá tannkremi niður í skósvertu.

Miklir möguleikar eru í sambandi við hagnýtingu kalkþörunga, sem eru í miklu magni t.d. í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Úr kalkþörungum er framleitt kalk til áburðar á tún. Hér er hrópandi verkefni fyrir hagnýtar rannsóknir.

Söl og fjörugrös er jafnvel ekki að forsmá til manneldis nú á dögum frekar en í gamla daga. Ein þörungategundin, purpurahimna, finnst hér við land sums staðar í stórum stíl. Japanir sækja svo mjög í purpurahimnu að þeir rækta hana til manneldis og þykir hún herramannsmatur. Þeir tímar mættu vissulega koma að við seldum japönum ekki einungis loðnu til matar, heldur og purpurahimnu í ríkum mæli.

Þannig má lengi drepa á möguleika sem kunna að felast í hagnýtingu sjávargróðursins við Island. En til þess að svo verði þarf hagnýtar rannsóknir og vísindalegar rannsóknir. Þar þarf og að koma til margvísleg tæknileg þekking og markaðsöflun.

Undirstöðurannsóknir eða vísindarannsóknir og hagnýtar rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland varða annars vegar uppeldisstöðvar nytjafiska, viðgang fiskstofnanna og þar með framtíð sjávarútvegsins í landinu og hins vegar varða þær hagnýtingu sjávargróðurs sem hráefnis til iðnaðarframleiðslu. Hér er því um að ræða eitt hið mikilvægasta mál sem hugsast getur. Íslendingar hafa ekki efni á að láta reka á reiðanum í þessu máli. Við höfum líka á að skipa hæfustu mönnunum og stofnunum sem til þarf.

Í dag hefur Hafrannsóknastofnunin því hlutverki að gegna að rannsaka lifnaðarháttu og lífsskilyrði sjávargróðurs. Starf stofnunarinnar hefur í þessu sambandi beinst að rannsóknum á svifþörungum, en ekki að skipulögðum rannsóknum á botnlægum sjávargróðri. Við líffræðistofnun verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands er kennsla í þeim vísindum sem varða sjávargróðurinn. Við flm. þessarar þáltill. teljum að þetta starf þurfi að efla frá því sem nú er. Við teljum og að til þurfi að koma markviss starfsemi sem miðar að hagnýtingu sjávargróðurs til iðnaðarframleiðslu og eðlilegt að það starf sé á vettvangi Iðnþróunarstofnunar Íslands sem hefur það markmið að efla íslenskan iðnað og iðnþróun.

Án þess að við flm. þessarar till. ætlum okkur að segja n. þeirri fyrir verkum, sem gert er ráð fyrir að fái það verkefni að gera till. um aðgerðir til að efla rannsóknir á sjávargróðrinum, þá er það ekki ætlan okkar að það þurfi að vera nauðsyn að koma á fót nýrri stofnun til að vinna að þessum mikilvægu málum. Þvert á móti verður að ætla að hagkvæmast sé að þær stofnanir, sem fyrir hendi eru og eðlilegt er að annist þessi verkefni, séu efldar svo sem nauðsyn krefur til þess að málum þessum sé borgið. En taka verður jafnframt upp heildarstjórn og samræmdar aðgerðir svo að nútímavísindi og tækni verði hagnýtt sem best á svo mikilvægum vettvangi sem hér er um að ræða fyrir atvinnuvegi og lífsbaráttu þjóðarinnar. Þess vegna er till. þessi til þál. lögð fram.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þáltill. þessari verði vísað til hv. atvmn.