30.03.1976
Sameinað þing: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eftir þessa hjartnæmu ræðu fyrir auknum rannsóknum hlýt ég að standa upp, þótt ekki væri nema sem framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs, og þakka fyrir. Reyndar hafa verið fluttar æðimargar till. til þál. um auknar rannsóknir. Ég hefði heldur viljað heyra þessar raddir við afgreiðslu fjárlaga og heldur viljað sjá flm. greiða atkvæði með auknu fjármagni til rannsókna fremur en t.d. styrk til Kaupmannasamtakanna. En vonandi batnar þetta. Við sjáum fram á stórum betri tíma. Ég tek undir það, að ákaflega mikil þörf er á auknu fjármagni. Upplýst var af hæstv. menntmrh. að við íslendingar verjum 0.5% til vísinda og erum þar í flokki með portúgölum og grikkjum, og þykir sumum sá félagsskapur ekki góður.

Fluttar hafa verið till. um víðtæka leit að nýjum fiskstofnum sem við eigum að veiða í stað þorskstofnsins. Undir það tek ég. Þetta er ákaflega stórt og mikilvægt mál. Það hafa verið fluttar hér till. um heyþurrkun. Ég tek undir það. Það er mjög mikilvægt mál fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt þjóðarbú. Flutt var í Ed. till. um leit að úthafsrækju. Það er einnig mikilvægt mál. Ég spurði Ingvar Hallgrímsson fiskifræðing að því í morgun hvort hann vildi ekki láta okkur í té umsögn. Hann sagði að það væri velkomið: en látið þið mig þá fá 8 millj. kr. og mannskap, þá skulum við gera þetta. — Ætti þetta sé ekki kjarni málsins? Það vantar viða 8 millj. kr. og mannskap til að framkvæma þessar rannsóknir. Þetta verða menn að sjálfsögðu að hafa í huga.

Nú er flutt till. til þál. um rannsóknir og hagnýtingu á sjávargróðrinum við Island. Tek ég undir að það er ákaflega mikilvægt og stórt mál, þótt ég þori ekki að taka mér í munn þan orð að hér sé um að ræða: „eitt mikilvægasta mál sem hugsast getur.“ Þetta má vera mjög mikilvægt mál þó að það sé ekki svo stórt. Málin eru nefnilega æðimörg stór, og ég gæti þulið hér yfir ykkur í allt kvöld hugmyndir íslenskra vísindamanna um stór mál. En ég hef ekki heyrt einn einasta þeirra, sem flytur sitt mál, telja það „eitt mikilvægasta mál sem hugsast getur“, — jafnvel ekki eitt mikilvægasta mál sem hugsast getur. Ég hef rætt við Harald Ásgeirsson forstjóra Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins um ýmislegt sem hefur farið úrskeiðis í íslenskum byggingaiðnaði. Hann telur það hafa kostað okkur hundruð millj. kr. vegna skorts á rannsóknarfé og við séum enn þá að gera þar vitleysur. Getur ekki verið að það sé líka eitt mikilvægasta mál, sem hugsast getur, að búa betur að þeim rannsóknum? Og þannig mætti lengi telja.

En þótt ég bendi nú á þetta, þá er ég ekki að draga úr því að rannsóknir á íslenskum sjávargróðri eru mjög mikilvægar og eru eitt af mörgum mikilvægum málum sem við íslendingar þurfum að sinna betur.

Ég get því miður ekki heldur tekið undir það í grg. að við eigum líka á að skipa hæfustu mönnum og stofnunum sem til þarf. við eigum ágætar stofnanir og ýmsa sem gætu sinnt þessu, en við höfum því miður ekki fullan aðgang að þeim sem við að mínu mati þyrftum að fá, dr. Sigurð Jónsson, sem mikið hefur verið nefndur hér, því að hann er búsettur erlendis. Staðreyndin er nefnilega sú, að mörg af þeim mikilvægu málum, sem hafa verið upp tekin hér á landi, hafa þróast í kringum hæfustu mennina. Við getum farið yfir rannsóknaverkefni eftir rannsóknaverkefni — og hvernig hafa þau orðið til? Hæfir menn hafa komið, Íeitað eftir störfum. Þeir hafa ávallt fengið störf. Það hefur stundum tekið nokkuð langan tíma að skapa þeim góðan starfsgrundvöll, en það hefur smám saman tekist, og þeir hafa unnið fjölmargir mikilvægustu og ágætustu störf. Ef dr. Sigurður Jónsson vill flytja til landsins, þá mun ekki standa á því að stofnanir hér, margar, vilji taka við honum og veita honum starfsaðstöðu. Hann kemur hingað til lands annað slagið og flytur fyrirlestra við Háskóla Íslands, og vonandi koma þaðan menn sem taka upp þetta mikilvæga mál.

Ég segi að hér séu ýmsar stofnanir sem gætu sinnt þessu. Náttúrufræðistofnun Íslands er ætlað samkv. lögum að sinna grundvallarrannsóknum á náttúru þessa lands. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur því miður ekki á að skipa manni á þessu sviði, en vildi mjög gjarnan geta fengið slíkan mann, og ég er viss um að það væri bægt að skapa slíkum manni þar starfsaðstöðu ef hann væri fáanlegur. Líffræðistofnun Háskólans sinnir einnig mikilli starfsemi á þessum sviðum. Hún þarf að leita til útlanda, eins og ég hef nefnt, til þess að fá fyrirlestra haldna hér á þessu sviði. Þar er áreiðanlega grundvöllur til þess að skapa góðum manni starfsaðstöðu. Hafrannsóknastofnunin er með náskylda starfsemi, rannsóknir á sjávarlífi, og er enginn vafi á því að það er mikill áhugi á að koma upp slíkri starfsemi ef maður hæfur að hennar mati fengist til þess. Þar hefur oft verið veitt starfsaðstaða fyrir erlenda vísindamenn sem hingað hafa komið, t.d. dr. Ivka Munda, sem nefnd var af hv. flm. þessarar till.

Nokkuð var minnst á og í grg. er minnst á mikilvægt starf Sigurðar V. Hallssonar. Ég tek undir það að hann hefur unnið ákaflega mikið starf á þessu sviði af mikilli þrautseigju, næstum því þrjósku og oft við erfiðustu aðstæður allt frá 1957. Sagt er að hann hafi að mestu unnið störfin að eigin frumkvæði og á eigin vegum. Í Verkfræðingatali segir að vísu að Sigurður V. Hallsson hafi verið starfsmaður Orkustofnunar 1957 –1961.

Mér finnst einnig satt að segja of lítið gert úr þeim styrkjum sem hafa runnið til þessara mála. Samkvæmt reikningum Orkustofnunar hefur verið varið til þararannsókna einhverju fjármagni á hverju ári frá 1958 til 1968, t.d. á árinu 1966 431 307 kr. Þeir, sem eru klókir í vísitölureikningi geta margfaldað þessa tölu. Þetta er nokkuð mikil fjárhæð 1966. 1967 varði Orkustofnun til þessara rannsókna 273 597 kr. og 1968 175 810 kr. Það skal tekið fram að þetta var á vegum raforkumálastjóra, það var ekki Orkustofnun, eins og hún heitir nú. Árið 1968 urðu nokkur tímamót, þá óskaði sú stofnun eftir því að Rannsóknaráð ríkisins tæki við þessum athugunum, þar sem svo segir í lögum um Rannsóknaráð að það skuli beita sér fyrir athugun á nýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina. Um þessar rannsóknir var samstarf árið 1968. Þá varði Rannsóknaráð til þessa 141793 kr. í þessu skyni, og voru þessar fjárhæðir notaðar til þess að gera yfirlitsskýrslu um það sem til þess dags hafði verið gert. Sigurður V. Hallsson gerði þá skýrslu. Það er mikil bók og falleg og kostaði enda töluvert fé í krónum þess árs. Síðan jókst þetta ákaflega mikið, þannig að 1969 var varið til þessara rannsókna 1 042 332 kr. á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og 1970 3120 667 kr. Þannig er haldið áfram, fyrst og fremst til 1972, en smáupphæð loks 1973 og 1974, sem er ekki teljandi, en samtals var varið í þessu skyni 5 041 674 kr. og 20 aurum. Þetta er satt að segja töluvert mikið fé, mjög mikið af því fé sem Rannsóknaráð hefur haft úr að spila, þannig að sett hefur verið mikið í þessar rannsóknir og ég vil leggja á það áherslu — að mínu mati miklu meira en fram kemur í grg. með þessari þáltill. Ég tel mér skylt að leiðrétta það hér.

Þarna kemur einnig fram að að slíkum rannsóknum var unnið á vegum Surtseyjarfélagsins. Ég vil nú ekki þylja allt of margar tölur, en get, ef flm. óskar upplýst að þar var um verulegt fjármagn að ræða. Það var hins vegar fyrst og fremst erlendur styrkur sem fékkst frá Bandaríkjunum í þessu skyni, og var unnið fyrir það fé að mínu mati mjög athyglisvert starf sem dr. Sigurður Jónsson hafði forustu um. Nefndur er jafnframt styrkur frá Atlantshafsbandalaginu. Ég ætla ekki heldur að nefna verulegar fjárhæðir sem Þörungavinnslan við Breiðafjörð hefur varið í þessu skyni. Hún hefur látið rannsaka þann gróður sem hún hyggst nýta,. látið kortleggja hann, og þó að það þurfi eflaust enn að endurtaka og gera betur, þá var miklu fjármagni varið til þessa, og það er von mín að sú verksmiðja geri það áfram.

Ég get tekið undir það að halda verður þessum rannsóknum áfram. Nýta má mjög margar tegundir þörunga, og get ég vísað í það sem hv. flm. sagði um það. Ég efast hins vegar mjög um að verksmiðja eins og þörungavinnslan verði reist annars staðar hér á landi. Menn kunna að vera mér ósammála um það, en það er staðreynd, sem ekki verður hrakin, að aðstaða til slíkrar vinnslu er langtum betri við Breiðafjörð en nokkurs staðar annars staðar hér á landi. Þar nýtur t.d. jarðhitans og bar er meiri þörungagróður en annars staðar. Hins vegar eru ýmsar aðrar — ef við getum kallað það smærri tegundir — aðrar tegundir sem nýta má, og það er einmitt mjög um það talað hjá Þörungavinnslunni að reyna að brúa t.d. dauðan tíma, sem þar verður, til vinnslu á þessum ýmsu tegundum þörunga. Og þarna getur orðið sá kjarni sem vonandi vex og verður að alhliða vinnslu íslensks sjávargróðurs. Ég held að við hljótum báðir og raunar öll; sem hér erum, að geta sameinast um það.

Kalkþörungar við Arnarfjörð hafa verið skoðaðir og ýmsar skýjaborgir byggðar í kringum það. Ég kalla það skýjaborgir vegna þess að menn með hagnýta þekkingu hafa athugað það mál og telja ekki vera hagkvæman grundvöll til þess að nýta þessa kalkþörunga, því miður. Það hefði verið óskandi. Og ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Jón G. Sólnes og Albert Guðmundsson og aðrir ágætir kapítalistar segja gjarnan við okkur í iðnn. þessarar stofnunar, að einhver arðsemisgrundvöllur þarf að vera fyrir öllum framkvæmdum. Það er einnig nauðsynlegt að skoða í þessu sambandi.

Ég vil svo taka undir það, sem hv. frsm. sagði; að óhemjumikið starf er óunnið við kortlagningu eða skráningu íslensk sjávargróðurs og það þarf nauðsynlega að vinna. En svo er einnig, því miður, á fjölmörgum öðrum grundvallarsviðum íslensks gróðurs. Ég efast ekki um að hv. þm. gæti flutt þáltill. um rannsóknir á t.d. íslenskum sveppum og gæti þá vakið athygli á því að þar er jafnvel enn þá miklu minna starf unnið. Þó að þeir séu litlir og virðist ekki miklir að sjá, þá eru þeir þó mjög mikilvægir í lífkeðjunni. Þannig mætti nefna fjölmargar aðrar gróður- og líftegundir sem hafa verið allt of lítið rannsakaðar. Þetta er því miður satt, við höfum ekki haft bolmagn til þess og menn hafa orðið að vega og meta og reyna að velja þær rannsóknir sem þýðingarmestar hafa verið taldar hverju sinni fyrir það takmarkaða fjármagn sem fyrir hendi hefur verið.

Lagt er til að skipuð verði n. til að skipuleggja þetta, eins konar þörungaráð, mætti kannske kalla það. Það er náttúrlega ekki von að hv. þm. vildi vísa slíku t.d. til Rannsóknaráðs ríkisins eða þess háttar stofnunar, þó að þar sitji ýmsir ágætir menn, eins og hv. þm.. sessunautur fyrsta flm. Þetta á að gera til þess að tryggja heildarstjórn segir í grg. En þarf enga heildarstjórn á milli þessarar rannsóknar og annarra rannsókna? Á bara að tryggja heildarstjórn á þörungarannsóknum eða sjávargróðursrannsóknum? Þarf ekki heildarstjórn yfir rannsóknastarfseminni í heild o.s.frv.? Háskóli Íslands t.d., honum er treyst til að fjalla um undirstöðurannsóknir, og ég er sannfærður um að það væri skynsamlegt að gera Háskólanum kleift að skipuleggja undirstöðurannsóknir á breiðum grundvelli og skapa þannig heildarstjórn. Mér sýnist þetta orð, heildarstjórn, vera notað í tíma og ótíma í ákaflega furðulegum skilningi. Þetta er engin heildarstjórn, þetta er aðeins mjög takmörkuð stjórn á mjög þröngu sviði.

Ég held að það eigi ekki að skipa n. hér. Ég held að hvetja eigi góða menn til að sækja um starf við þessar stofnanir sem hafa verið nefndar. Ég er sannfærður um að þeir geta fengið þar starf og starfsaðstöðu, og þá munu menn ganga í það að tryggja fjármagn til þessara mjög mikilvægu rannsókna.

Ég tel mér skylt að geta þess að lokum, að mér hefur borist bréf frá dr. Ivka Munda út af þessari þáltill. Það er að vísu stílað til raunvísindadeildar Vísindasjóðs, en barst til mín. Hún óskar eftir að því verði komið á framfæri að í grg. hafi flm. láðst að geta um ýmiss konar starf, mikilvægt starf sem hér hefur verið unnið, eins og t.d. um hennar starf, Friedmanns, Adeys, Wik-Sjöstedts o. fl. Skylt er að taka fram að hv. þm. bætti nokkuð úr þessu í framsöguræðu sinni.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vil aftur lýsa ánægju minni með áhugann á þessum málum og þeirri einlægu von minni og trú að vel verði tekið undir till. sem koma frá íslenskum rannsóknastofnunum um aukið fé til íslenskra vísinda.