04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, hefur áður sést hér í sölum Alþ. og verið rædd hér, og áður hafa komið fram raddir um stuðning við þetta málefni af hálfu þm. Sjálfstfl., en þess verið jafnframt getið að sá stuðningur væri því háður að málið væri nokkru viðtækara en það liggur hér fyrir nú. Ég minnist þess að hv. þáv. þm. og áður ráðherra Magnús Jónsson lýsti yfir stuðningi við þetta mál svo langt sem það næði, en öllu fremur þó stuðningi við hugsanlega löggjöf eða undirbúning löggjafar um starfsemi stjórnmálaflokkanna í landinu. Þetta hefur svo komið fram aftur þegar þetta mál hefur verið rætt hér á Alþ., og það kom einnig fram nú í máli hv. 1. flm. þessa máls að vissulega bæri nauðsyn til að undirbúa slíka löggjöf. Þess vegna hefði e. t. v. mátt ætla, að tillaga þessi hefði nú fjallað einmitt um það að undirbúa slíka löggjöf, en hún fjallar einungis um rannsókn á fjárreiðum stjórnmálaflokka og löggjöf um það efni.

Um þetta atriði fjalla líka, með áþreifanlegri hætti þó, frv. sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur lagt fram í Nd. Alþ., og ég vil lýsa stuðningi við þau frv. Það kom fram í máli þess hv. þm. og raunar grg. með frv. hans öðru, að uppi hefðu verið hugmyndir, eins og ég gat um áðan, um að undirbúa þyrfti löggjöf um réttindi og skyldur flokkanna. Ég vil kannast við það að ég hef einmitt vakið máls á slíku í okkar flokki nú á þessu þingi, að ég vildi gjarnan flytja slíkt mál. En ástæðan til þess, að ég hef ekki látið þá tillögu koma fram enn þá, er sú að ég bíð eftir nýjum upplýsingum frá Þýskalandi þar sem lög um þetta efni hafa verið í gildi um alllangt árabil og fengin er nokkur reynsla af þeirri löggjöf, og einnig á ég von á upplýsingum, nokkru nánari en ég hef áður fengið, um undirbúning þeirrar löggjafar.

Ég vil einnig nefna, að þetta mál og það atriði að undirbúa löggjöf um stöðu stjórnmálaflokkanna almennt í ríkinu snerti mjög till., sem nú er til meðferðar í Norðurlandaráði, þess efnis að kanna með sem bestum hætti stöðu lýðræðis og þingræðis á Norðurlöndum. Þetta er málefni sem vakið hefur mikinn áhuga stjórnmálamanna á Norðurlöndum yfirleitt, og í undirbúningi er sérstakt ráðstefnuhald um þetta efni, en umr. um það hafa m. a. vakið til enn frekari umhugsunar um að það sé nauðsyn í lýðræðisríki að marka í löggjöfinni stöðu jafnvoldugra stofnana og stjórnmálaflokka.

Ég er því sammála, sem fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. v., að það skýtur nokkuð skökku við að hvergi skuli minnst á stjórnmálaflokka í stjórnarskrá okkar. Ég hef spurst fyrir um það hjá framkvæmdastjóra eða öllu heldur ráðgjafa stjórnarskrárnefndar, sem nú starfar, hvort ákvæða um stjórnmálaflokka sé að vænta í drögum að nýrri stjórnarskrá sem nú er unnið að. Mér er sagt að það efni sé enn til athugunar, ekkert sé ákveðið um það enn, en erindi munu n. hafa borist um það efni.

Það er ljóst, ef út í það er farið að í löggjöf verði stjórnmálaflokkum veittur fjárhagsstuðningur með einhverjum hætti, hvort sem það er í því formi að viss skattfríðindi séu veitt vegna gjafa til stjórnmálaflokka eða þá með beinum framlögum til stjórnmálaflokka, þá er þar um viss bein fríðindi að ræða, sem stjórnmálaflokkum eru veitt, og því ekki óeðlilegt að löggjafinn geri um leið þá kröfu að stjórnmálaflokkar takist skyldur á hendur. M. ö. o.: það, sem fyrir mér vakir, er að það sé eðlilegt að það séu viss lágmarkslýðræðisskilyrði sem stjórnmálaflokkur þarf að fullnægja til þess að geta notið þeirrar lágmarksfyrirgreiðslu sem talið kann að vera nauðsynlegt að stjórnmálaflokkur njóti til að geta gegnt hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi.

Mig langar í þessu sambandi að nefna það, sem hér hefur stundum verið deilt um á hv. Alþ., styrkurinn til dagblaðanna. Ég veit að flokksbróðir minn, hv. 4, þm. Norðurl. v., vill lítið heyra á það minnst, að það teljist styrkur til dagblaðanna þó að ríkið kaupi nokkur eintök af dagblöðunum. Í mínum huga er skuldbinding ríkisins um að kaupa vissan eintakafjölda af dagblöðunum í raun styrkur til dagblaðanna. Og mér fannst á sínum tíma, þegar umr. voru um þessa hugmynd, að ríkið styrkti dagblöðin, að það kæmi jafnvel fremur til greina að sá styrkur gengi til stjórnmálaflokkanna og svo væri það flokkanna að ákveða hvort honum væri varið til þess að halda úti flokksmálgögnum eða til þess að halda uppi stjórnmálastarfsemi með öðrum hætti. Þetta er aðeins sjónarmið mitt. En ég sé ekki annað en að það standi eftir sem áður að í hvaða formi sem sá stuðningur við stjórnmálaflokka yrði sem farið væri út í að veita, þá væri alveg nauðsynlegt að á svipuðum tíma kæmi almenn löggjöf um réttindi flokkanna og skyldur, stjórnskipulega stöðu þeirra og hvaða skilyrðum flokkur þyrfti að fullnægja til þess að bann gegndi því hlutverki að vera það sem stjórnmálaflokkur á að vera í lýðræðisþjóðfélagi, sem sagt tæki almennings til þess að hafa áhrif á stjórn ríkisins. Það er verkefni stjórnmálaflokkanna í löndum með okkar stjórnarfari. Þess vegna tel ég, að það geti verið mikil leiðbeining fólgin í því að afla sér sem gleggstra upplýsinga frá löndum þar sem slík löggjöf er í gildi, ekki síst frá Vestur-Þýzkalandi sem hefur einna bitrasta reynslu af löndum Vestur-Evrópu af því hvað það er að stjórnmálaflokkar, sem ekki hlíta neinum lýðræðisreglum festi rætur og nái afgerandi völdum í ríkinu. Það var eftir reynslu Þjóðverja á Hitlerstímabilinu sem þeir voru ákveðnir í að marka starfsemi stjórnmálaflokka nokkur takmörk með sérstakri löggjöf.

Ég vil geta þess að mér finnst það ekki vera nein allsherjarlausn á þessu máli að segja að það þurfi að setja reglur og setja löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka, vegna þess að það þurfi að setja tiltekin takmörk. Sannleikurinn er sá, að þetta er ákaflega flókið og vandasamt mál og þarf að gæta þess mjög vandlega að hvergi sé sorfið að frelsi manna til þess að mynda samtök og starfa að áhugaefnum sínum í samtökum með heiðarlegum og lýðræðislegum hætti.

Ég vil loks benda á eitt atriði í þessu sambandi sem óneitanlega hlýtur að vakna í huga manna sem velta því fyrir sér með hverjum hætti löggjöf um stjórnmálaflokka gæti verið og yfirleitt hvort setja ætti löggjöf um stjórnmálaflokka til þess að tryggja virkni lýðræðisins í landinu. Það er nefnilega svo að það eru ýmis önnur samtök í landinu sem hafa veruleg áhrif á löggjöfina almennt að meira eða minna leyti og á stjórn landsins án þess að þar sé beinlínis um stjórnmálaflokka að ræða. Ég á þar við stór og voldug hagsmunasamtök. Það er gert ráð fyrir að ýmis voldug hagsmunasamtök tilnefni fulltrúa í ýmsar stjórnir sem hafa mikla þýðingu í okkar stjórnkerfi og víða í löggjöfinni í sambandi við efnahagsmál okkar o. fl. En það eru engin ákvæði í löggjöf okkar, sem tryggja að í þessum voldugu hagsmunasamtökum sé farið að almennum lýðræðisreglum.

Þessar hugleiðingar verða til þess, að það hlýtur að koma að því að mínum dómi að menn hugleiði undirbúning löggjafar um það, eftir hvaða reglum slíkum samtökum beri að starfa til þess að þau geti með réttum hætti og viðunandi fyrir fólkið haft með höndum það vald sem þeim raunverulega er fengið viða í okkar löggjöf. Eitt lítið dæmi í þessu sambandi dettur mér í hug núna. Það var nú á dögunum, þegar haldnir voru fundir viða um land til þess að kanna hvort menn hefðu hug á því innan samtaka starfsmanna ríkis og bæja að afla sér verkfallsréttar eða vinna að því að fá verkfallsrétt, að í fjölmiðlum kom frétt þess efnis að meiri hluti þessara starfsmanna vildi verkfallsrétt. En þegar betur var að gáð kom í ljós að þeir fundir, sem haldnir voru, voru mjög illa sóttir — því miður man ég ekki hvort það voru 25 eða 30% félagsmanna sem mættu á ýmsum svæðum. Þeir, sem höfðu engan sérstakan hug á að fá verkfellsrétt, létu flestir eiga sig að mæta á fundum, en þeir, sem höfðu hug á því, mættu og greiddu atkv. Ályktunin var svo sú að meiri hl. félagsmanna væri þessarar skoðunar. Þetta er að mínum dómi óleyfileg ályktun. Ef á að fullyrða að meiri hl. félagsmanna væri þeirrar skoðunar, eins og á stóð í þessu tilviki, að stefna eigi að því að fá verkfallsrétt, þá verður það að vera eftir almenna skoðanakönnun sem nái til allra.

Með þessu er ég ekki að gagnrýna þessi samtök sérstaklega almennt. Þetta er eitt dæmi af ákaflega mörgum. Eins og hv. þm. vita er því miður pottur brotinn viða í voldugum samtökum um að fyllstu lýðræðisreglna sé gætt í starfseminni og þeirra sé gætt í sambandi við töku ákvarðana sem verulegu máli skipta í okkar þjóðfélagi.

Herra forseti. Þetta hefur nú e.t.v. orðið nokkru lengra en ég hafði hugsað mér í byrjun. Tilgangur minn var aðeins að vekja athygli á því að í undirbúningi væru till. nm að á vegum Alþ. yrði hafinn undirbúningur að löggjöf um stjórnmálaflokkana og jafnframt yrði þá haft í huga að athuga hvort ekki væri nauðsynlegt að setja löggjöf, sem dálítið væri svipuð, um ýmis önnur voldug hagsmunasamtök í þjóðfélaginu. Tilgangur minn með þessu er að vekja athygli á því að það er fullkomlega tímabært í okkar þjóðfélagi að setja löggjöf til verndar lýðræði og það er líka tímabært að setja löggjöf til verndar þingræði.

Það er mín skoðun að í undirbúningi slíkrar löggjafar þurfi að koma fram sjónarmið allra stjórnmálaflokka, svo að ég mun ekki fara jafnmyndarlega að og hv. 4. þm. Norðurl. v., að koma með alskapað frv. Ég held að í svo viðkvæmu og viðamiklu máli eins og þessu væri nauðsynlegt að hafa samráð milli stjórnmálaflokka og fara eftir þeim línum sem menn gætu sameinast um, því að ég ætla að allir flokkar séu sama sinnis að því leyti til að þeir telji nauðsyn til bera að standa vörð um okkar lýðræði og þingræði sem best.