31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

222. mál, fjölbýlishús

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki frekar en síðasti ræðumaður teygja hér tímann. Ég tek undir með honum að fagna fram komnu frv. Ég vek athygli á því, sem kveðið er hér á um varðandi 3. gr., og tel hana mjög nauðsynlega. Ég vitna til reynslu varðandi þau ákvæði sem þar er gert ráð fyrir, að setja skyldu á sveitarstjórnir varðandi gerð lóðarsamnings, að um nokkurn tíma hefur bæjarstjórn Kópavogs einmitt haft þessa kvöð á við gerð lóðarsamnings, og að fenginni reynslu í því efni tel ég mjög til bóta að þetta sé lögfest. En ég ætla, herra forseti, ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég vildi aðeins fagna þessu frv. Ég á sæti í þeirri n. sem fjalla mun um það, en ég vildi vekja athygli á þessu, því að þar hef ég persónulega reynslu að er mjög til bóta að verði lögfest.