31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

225. mál, Þjóðleikhús

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh, hefur nú gert nokkra grein fyrir þessu frv., en ég vildi gjarnan að betur væri að gert í þeim efnum varðandi þann kostnað sem ætlað er að hljótist af samþykkt þess. Í frv. er gert ráð fyrir talsvert mikilli aukningu starfsliðs Þjóðleikhússins. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir ráðningu fjármálafulltrúa í staðinn fyrir skrifstofustjóra og eitthvað mun nú felast í þeirri breytingu meira en nafnbreytingin ein. Í öðru lagi er gert ráð fyrir ráðningu framkvæmdastjóra. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir ráðningu bókmennta- og leiklistarráðunauta. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir ráðningu tónlistarráðunautar, það er 1/3 hluti starfs. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir ráðningu listdansstjóra. Það á að vera heilt starf og bendir til þess að jafnframt sé gert ráð fyrir því að dansflokkurinn, sem þar hefur verið að einhverju leyti á kostnað Þjóðleikhússins, verði starfræktur í þeim mæli sem talað er um í grg. með frv., en þar er gert ráð fyrir að það muni kosta 10 millj. kr. á ári að starfrækja dansflokkinn eins og þar er talið þurfa með. Ráðning listdansstjóra í fullt starf bendir til þess að ráð sé fyrir þeirri starfsemi gert. Í sjötta lagi er gert ráð fyrir í 15. gr. í sambandi við leikmunasafn að safnið hafi í þjónustu sinni leiktjaldamálara og búningsteiknara. Ekki er með öllu ljóst hvort hvoru starfi fyrir sig eigi fleiri en einn að gegna því orðið er eins í eintölu og fleirtölu í þessu sambandi. Ég gæti trúað því, ef þetta væri allt tekið saman, að þarna væri um að ræða útgjaldaaukningu fyrir Þjóðleikhúsið sem næmi a.m.k. 15 millj. kr. á ári.

Hæstv. ráðh. hefur vitnað hér í 19. gr. frv. þar sem segir að eigi skuli ráða í nýjar stöður samkv. lögum þessum fyrr en fé er veitt til þess á fjárlögum, þar af leiðandi sé á valdi þingsins að ákveða hvenær þessi kostnaðarauki kemur til framkvæmda, Nú er reyndin sú í starfi fjvn., það þekki ég, að það er erfitt að standa á móti óskum og kröfum um ráðningar í störf, þegar í lögunum sjálfum er beinlínis tekið fram að þessi störf skuli vera til við viðkomandi stofnun, og það er greinilega tekið fram í þessu frv. í hverju tilfelli: ráðinn skal sérstakur framkvæmdastjóri við Þjóðleikhúsið, þar skulu starfa þessir aðilar. Reyndin er sú að það er mikill munur á því hvað auðvelt er að standa á móti slíkum kröfum ef annars vegar er ekkert tiltekið í lögunum um slíka starfsemi eða þegar það stendur beinlínís í lögum, að þessi störf skuli vera fyrir hendi.

Ég lít svo á að raunverulega sé verið með samþykkt þessa frv. að fara fram á a.m.k. 15 millj. kr. árlega aukningu á rekstrarkostnaði Þjóðleikhússins án þess að ætla megi að það hafi mikinn tekjuauka í för með sér. Hér er um stjórnarfrv. að ræða og hæstv. fjmrh., sem hefur skilað ríkissjóði með 5–6 þús. millj. kr. halla á s.l. ári, ætti þá að standa að ákvörðun um að þessi útgjaldaauki bætist hér við fyrir ríkissjóð. Eins og ég gat um áðan virðist með ákvæðum í þessu frv. gert ráð fyrir því að dansflokkurinn verði starfræktur í þeim mæli að hann kostaði um 10 millj. kr. á ári. Ég skal ekki dæma um menningargildi þessa dansflokks, en tilkoma hans í útgjöldum ríkissjóðs er nokkuð sérstök og dæmi um það hvernig þm. eru stundum látnir standa frammi fyrir gerðum hlutum, Fyrir 2–3 árum var farið fram á það við fjvn. að fjárveiting yrði látin til þessa dansflokks. Því hafnaði fjvn., og Alþ. samþ. ekki fjárveitingu á viðkomandi fjárlögum. En þrátt fyrir það var starfsemi flokksins hafin á kostnað ríkisins og nú er ætlunin að reka á þetta smiðshöggið með því að festa starfsemi hans í lögum, m. a, á þeim forsendum að þessi dansflokkur sé nú þegar til. Þetta er dæmi um það hvernig ekki á að standa að ákvörðun mála og hvernig svo getur farið, að málefni, sem Alþ. og fjvn. hafa í raun og veru hafnað, fá forgang fram yfir nauðsynlegustu málefni sem þm. hafa neyðst til að hafna vegna fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Nú er hagur ríkissjóðs bágur og því erfitt að tryggja aukna fjármuni til Þjóðleikhússins og margra annarra mikilsverðra stofnana. En vandinn er kannske mestur sá, að vilji menn auka hlut þessara stofnana þegar betur árar, þá fer venjulega svo að það er gert með því að fjölga föstum starfsmönnum, sem leiðir svo til þess að þegar verr árar, þá sitja menn uppi með óhreyfanlegt lið og óumbreytanlegan kostnað.

Ég vildi í sambandi við þetta óska eftir nánari upplýsingum um áætlaða heildarútgjaldaaukningu vegna samþykktar þessa frv., sem gera má ráð fyrir að komi fram nú þegar eða á næstu árum, og fá það staðfest hvort það er ætlun hæstv. ríkisstj. og þá allra ráðh, að þetta frv. verði samþ. á þessu þingi. Jafnframt vildi ég að nú við þessar umr, eða þá við 2. umr. yrði hv. þd. gerð grein fyrir rekstrarafkomu Þjóðleikhússins á s. I. ári, tekjum og gjöldum.

Það vill stundum fara svo, að það er meira rætt um aðra þætti í starfsemi ríkisins en útgjaldaþáttinn. Ég get t.d. nefnt sem dæmi að hér kom á borð þm. fyrir fáum dögum bók frá Hafrannsóknastofnuninni þar sem gerð var grein fyrir allri starfsemi stofnunarinnar, einstökum rannsóknaleiðöngrum, ástandi fiskstofna og mörgu fleira og þar að auki t.d. nafni hvers einasta starfsmanns stofnunarinnar í landi og á skipum, en í þessari bók fannst ekkert einasta orð um rekstrarkostnað stofnunarinnar eða hvernig hann skiptist á starfsþætti.

Þetta minnir mig nokkuð á það, að í haust var í sjónvarpínu viðtal við framkvæmdastjóra fyrir fyrirtæki sem nýtur stuðnings frá ríkissjóði. Þessi framkvæmdastjóri var spurður um hvernig starfsemin gengi, og hann svaraði því til að hún gengi afskaplega vel, aukning og viðgangur í starfrækslu og allt var í besta gengi, en sagði svo að lokum: Ja, það er þá helst að það gangi ekki nógu vel með fjárhagsafkomuna. Það er ekki laust við að manni finnist maður stundum verða fyrir því að þetta sjónarmið, að fjárhagsafkoman skipti minnstu, sé nokkuð ráðandi varðandi ýmsar framkvæmdir á vegum ríkisins, og annaðhvort er það svo með þetta frv., sem hér er flutt, að ákvæðin um hinar fjölmörgu nýju stöður eru sýndarmennska, sem ekki er ætlað að koma til framkvæmda, eða þá að í þessu tilfelli hefur á hinn bóginn ekki verið hugsað nóg um fjárhagshlið málsins, og hvorugt er gott.