31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

225. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil nú biðja hv. d. afsökunar á því að mér fór líkt og með manninn í sjónvarpinu, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, og líkt og stundum vill verða, að það gleymist að geta um kostnaðinn. Ég var í haust búinn með venjulegum hætti að fá yfirlit um hann, unnið eftir ábendingum leikhússins og síðan hjá hagsýslunni í haust. En síðan hafa miklar breytingar orðið og það tjóar ekki annað en að láta vinna þetta upp. Ég ætlaði að sjálfsögðu að skýra frá því að þær upplýsingar yrðu síðan sendar hv. menntmn. þessarar d. til meðferðar. En þetta féll niður hjá mér líkt og hjá manninum í sjónvarpinu, nema það var þeim mun verra, það kom ekki einu sinni fram í niðurlagi ræðunnar. Þetta er auðvitað rétt lýsing hjá hv. þm. sem hérna talaði áðan, enda má hann gerst þekkja þetta. Hann hefur lengi starfað í fjvn. og þetta hefur oft orðið raunin á, einmitt með ýmsa menningarstarfsemi, að áhugamenn byrja starfsemi og þrýsta sér síðan inn að ríkisjötunni að meira eða minna leyti, stundum að öllu leyti sbr. þá starfsemi sem fram fer í Þjóðleikhúsinu eða í Sinfóníuhljómsveitinni, stundum ekki nema að litlu leyti og þá á ég við t.d. starfsemi áhugaleikfélaga sem aðeins fá tiltölulega mjög lítinn fjárhagsstyrk miðað við tilkostnað og það verk sem er innt af höndum við þá starfsemi. Við getum viðurkennt það að frá fjárhagslegu hliðinni, frá ríkissjóði séð og hans hag, þá sé þetta ekki alveg eins og það á að vera, en þetta hefur verið gangurinn. Ég sé ekki að það hilli neitt undir það að við stofnum okkar fyrirtæki, ja, við skulum segja hliðstætt við dansflokkinn og, Sinfóníuhljómsveitina, á þann hátt að það sé tekið beint inn á ríkissjóð með afgreiðslu í fjvn., heldur er ég hræddur um að þetta eigi nú eftir að verða gangurinn í því, að áhugafólkið byrji og þrýsti sér svo inn að jötunni smátt og smátt. Þetta er auðvitað bæði kostur og galli. Það fer þá af stað fyrst og fremst, sem áhugi er fyrir, með þessum hætti fremur en allt gerist eftir beinum og fyrir fram lögðum línum á Alþ. En það er líka svo með sum börn sem fæðast áðu en foreldrarnir ganga í það heilaga, þetta verðu mikið ágætisfólk. Og það er svo með þessar stofnanir margar að við vildum ekki missa þær á eftir þó að auðvitað verðum við að gæta hófs í fjárframlögum til þeirra.

Ég reikna með því að það sé engin fyrirstað af hálfu ríkisstj., þvert á móti, að þetta frv. nái fram að ganga ef Alþ. telur síg hafa tíma til þess að afgreiða það. Það verður svo að fara eftir því sem fé er veitt í fjárl. hvað tekið er upp af þessum nýju stöðum. Ég vildi alveg sérstaklega binda það í frv. til þess að það lægi ljóst fyrir, að með flutningi frv. af minni hálfu og með samþykkt þess af hálfu Alþ., ef til kæmi, væri ekki verið að stefna að því að framkvæma allar nýjungar þess strax. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það sé eðlilegt að reyna að taka mið fram í tímann, reyna að sjá örlítið fram í tímann, þegar lögum er breytt á anna borð, með því sem sagt að taka inn þó þetta margar nýjar stöður í frv.

Það er sjálfsagt að afla menntmn. og auðvitað þm, eftir óskum yfirlit um rekstur Þjóðleikhússins á síðasta ári. Ég man nú ekki hvort ég hef séð slíka skýrslu, en væntanlega er hún þá að verða tilbúin. Ég skal ekki segja neitt um niðurstöður, nema mér er kunnugt um það að nýting hússins á síðasta ári hefur verið ágæt, það hefur verið mjög góð aðsókn að þeim leikritum sem sýnd hafa verið, og út frá því sjónarmiði séð hefur starfsemin gengið vel. En sem sagt, ég skal ganga í það að senda hv. menntmn. slíkt yfirlit og jafnframt að senda henni grg. um væntanlegan kostnað af ákvæðum frv.