31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

225. mál, Þjóðleikhús

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. sem hér er til 1. umr.

Ég verð að segja það, að ég vil taka sérstaklega undir orð hv. 11. landsk. þm., Geirs Gunnarssonar, í sambandi við flutning á þessu frv. Með tilliti til þess efnahagsástands, sem fyrir hendi er hjá okkar þjóð í dag, er ekki óeðlilegt að alþm. hugi að því hvað hin ýmsu frv., sem hvort heldur er um að ræða að einstaklingar leggi hér fram eða ríkisstj., hafi mikið aukinn kostnað í för með sér. Ég tel að það sé bæði sjálfsagt og nauðsynlegt, ekki síst þegar um er að ræða stjórnarfrv., að þingmönnum sé gerð grein fyrir því hvað þau mál, sem flutt eru í þinginu, hafi mikið aukinn kostnað í för með sér. Ætti síst að standa á því af hálfu ráðh. eða ríkisstj. að gera grein fyrir því þegar þeir flytja mál í þinginu. Ég er þeirrar skoðunar að sú upphæð, sem hv. 11. landsk. nefndi í sambandi við aukinn kostnað sem mundi leiða af þessu frv. ef samþykkt yrði, verði síst minni en þm. gerði ráð fyrir. Fer það að sjálfsögðu eftir því hvaða afgreiðslu stofnun fær í fjvn. við fjárveitingar. En það er eins og þm, sagði, að þegar búið er að ákveða í lögum að þetta og þetta starf skuli stofnað þegar fjárveiting sé fyrir hendi, þá er erfitt fyrir Alþ. og fjvn. eða þá, sem um þessi mál fjalla, að standa á móti því sem búið er að setja í lög. Tökum t.d. 12. gr. þessa frv. þar sem segir að miða skuli við að svo margir leikarar, söngvarar og listdansarar starfi við Þjóðleikhúsið að það geti að staðaldri leyst af hendi þau verkefni sem því ber að rækja samkvæmt þessum lögum. Við Þjóðleikhúsið skal starfa blandaður kór. Það er ekki talað um hvort það á að vera 100 manna kór eða hvað stór sá kór á að vera, og það er ekki heldur gerð grein fyrir því hvað það muni kosta að starfrækja slíkan kór allt leikárið sem ætti þá að vera að sjálfsögðu eins og leikarar og aðrir fyrir hendi til að leysa þessi störf af hendi hvenær sem er. Úr hópi kórfélaga skal á hverju leikári kjósa einn félaga sem skal vera þjóðleikhússtjóra og tónlistarráðunaut til fulltingis við val óperu og söngleikja.

Ég hygg að menn — e.t.v. ríkisstj. — a.m.k. ekki enn sem komið er geti gert sér fulla grein fyrir þeim aukna kostnaði sem þetta frv. hefur í för með sér ef það verður samþykkt og ákvæði þess koma síðan til framkvæmda með fjárveitingum í fjárlögum. Ég vil við þessa 1. umr. að gefnu tilefni í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað varðandi þetta mál, taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um það að við verðum að gera okkur fulla grein fyrir hvaða afleiðingar slík mál sem þessi hafa í sambandi við auknar fjárveitingar hins opinbera.