04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Mig langar að fara fyrst nokkrum orðum um ummæli síðasta ræðumanns, 8. landsk. þm. Ég held að það sé mikill misskilningur af hans hálfu ef hann heldur að það sé einskis virði fyrir íslensk dagblöð að fá að birta það sem hann kallar með fyrirlitningu dagskrá útvarps og sjónvarps sem þar birtist án endurgjalds frá þessum stofnunum. Ég held að útvarpsdagskráin og sjónvarpsdagskráin séu meira virði blöðunum en það að blöðin ættu að tala um þær dagskrár eða fréttaefni með niðurlægingu eða fyrirlitningu. Þetta er það efni sem selur Alþýðublaðið, hugsa ég, hvað best. Það er afskaplega lítið annað í Alþýðublaðinu sem hægt er að sækjast eftir, það er ekkert annað, sem getur orðið heimilunum að gagni, í blaðinu. (Gripið fram í.) Og að tala um að það sé einskis virði að ríkið kaupi 450 eintök á dag, af hvað? — 4–6 þús. eintaka útgáfu, það eru kannske 8–10% af því sem gefið er út daglega sem ríkið kaupir í einum pakka, — að tala um að það sé einskis virði fyrir Alþýðublaðið, ég held að þetta sé mesti misskilningur. Ég get ekki ímyndað mér hvar þeir ætla að finna þessa 450 kaupendur frá ríkisstofnunum ef stofnanirnar ættu að panta frjálst í staðinn fyrir að verða neyddar að taka þann pakka sem þaðan kemur á hverjum degi. Nei, ég held að Alþýðublaðið geti verið mjög ánægt með sitt hlutskipti úr þessum blaðapakka sem sendur er til ríkisstofnana á hverjum degi.

Ég skal ekki heldur fara neitt með þær upplýsingar sem ég hef sjálfur fengið án þess þó að hafa þær nægilega staðfestar til þess að geta komið með þær hér fram án þess að ég mundi sjálfur kalla þær hálfgert fleipur, eins og t. d. Ármannsfellsmálið í Alþýðublaðinu hefur verið allan tímann, en það er hvernig Alþýðublaðið bókstaflega komst út aftur. Ég verð að segja að ég er þó einn af þeim mönnum sem leitað hefur verið til með peningaframlög til Alþfl. og ég skammast mín ekkert fyrir að segja það, ég hef látið peninga í hann. Ég hef ekki farið fram á neina sérstaka fyrirgreiðslu í staðinn. En ég efast um að aðrir, sem hafa látið peninga í Alþfl., í Alþýðublaðið, ætlist til þess að nöfn þeirra verði birt sérstaklega sem einhverra stuðningsmanna flokksins eða blaðsins. Ég hugsa að það sé trúnaðarmál hvers og eins hvernig hann hagar sínum ábyrgðum og hvernig hann hagar sínum fjármálum og hvað hann gerir við sína peninga, án þess að það sé opinbert hverju sinni. A. m. k. kæri ég mig ekkert um að listi sé birtur með mínu nafni sem stuðningsmanns Alþfl. í fjárhagsvandræðum hans, þó að ég upplýsi sjálfur hér að ég hef lagt peninga í hann til þess þá að létta undir með viðkomandi.

Ég sé nú ekki frekar en félagi minn, hv. 4. þm. Norðurl. v., ástæðu til að fjölyrða mikið um þá ræðu sem hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti hér áðan. Ég hélt satt að segja að hann væri að gera grín, eins og kom fram hjá 4. þm. Norðurl. v., þegar hann hóf mál sitt og ég byrjaði að harma það að hann skyldi draga Alþ. niður á það stig sem fram kom hjá kollega mínum í svarræðu til hans. Það er alveg rétt, ég held að við þm. ættum að fara að passa okkur á því sem við látum frá okkur heyra úr þessum ræðustól. Fólk er farið að tala um að Alþ. sé alls ekki starfi sínu vaxið hvað málflutning snertir.

En ég sé mig knúinn til að taka þátt í þessum umr. að nokkru leyti, óverulegu leyti, vona ég, bara til þess að benda á það sem rangt er farið með í málflutningi 5. þm. Norðurl. v.

Ég vil fyrst leiðrétta það, sem ég veit að hv. þm. hlýtur að verða mér sammála um, því að hann vitnar í skrif og ummæli borgarstjóra, að þegar fyrirtækinu Ármannsfelli var úthlutað þeirri lóð sem hann gerði að umræðuefni, þá var ekki verið að úthluta neinni lóð af grænu belti. Með breytingu, sem átt hefur sér stað á aðalskipulagi, var þetta ekki lengur grænt belti. Það var heldur ekki verið að úthluta neinni lóð án auglýsingar. Það er auglýst á ákveðnum tíma á árinu, í des. ár hvert, eftir umsóknum frá byggingaraðilum, og það var gert s. l. ár eins og mun verða gert nú í ár. Fyrir lá listi umsækjenda. Ármannsfell varð fyrir valinu vegna þess að hugmyndir þess að skipulagi á þessu svæði voru samþykktar. Það var ekkert óheiðarlegt við þá úthlutun né heldur tengsl við framlag einnar millj. kr. í byggingarsjóð Sjálfstfl. sem ég tók við. En það var ekki borgarstjóri sem upplýsti það að Ármannsfell hefði lagt þessa peninga í byggingarsjóð Sjálfstfl. Hann var erlendis í sumarfríi þegar þetta upplýstist. Það var ég sem gerði það sjálfur.

Nú get ég upplýst meira ef hv. þm. óskar eftir að vita sannleikann. Ármannsfell sem fyrirtæki er kannske ekki að hans mati þrátt fyrir hundruð millj. kr. veltu fært um það samkv. skattaskýrslu að gefa 1 millj. kr. í eitt eða annað. En ég hef aldrei nokkurn tíma látið hafa eftir mér að Ármannsfell sem slíkt hafi lagt þetta fram eða hvort það eru eigendur Ármannsfells sem hafa lagt það fram, ég veit það ekki sjálfur. Ég var að hugsa um það núna undir ræðu hv. þm. hvort það hefði verið Ármannsfell sem fyrirtæki eða hvort það voru bræðurnir Ármannssynir sem lögðu það fram. Ég bara hreinlega veit það ekki. En hitt er annað mál, að þegar ég tók við þessum peningum, þá var það með þeim orðum frá þeim bræðrum að faðir þeirra hefði ávallt styrkt Sjálfstfl., rekstur hans, og nú þegar átak, stórt átak væri í gangi fyrir flokkinn, þá vildu þeir gera það myndarlega í minningu um föður sinn, og þeir lögðu fram þessa eina millj. kr. Það getur vel verið að það sé stór glæpur.

Það stendur hér í till. þeirra flm., Ragnars Arnalds, Jónasar Árnasonar og Helga F. Seljans, að það eigi að rannsaka fjármál fyrirtækja, fasteigna og blaða sem eru tengd flokkunum. Nú vill svo til að það er ekki neitt af þessu, nema þá helst fasteignir, sem er tengt Sjálfstfl. Hitt er annað mál, að það upplýsist. Ég veit að sumir af þeim, sem hér eru viðstaddir í dag, hafa hlustað í sjónvarpinu á þann þátt sem fjallaði um Ármannsfellsmálið, viðtöl við forustumenn og framkvæmdastjóra flokkanna. Þeir gáfu allir upplýsingar, hver um sinn flokk og starfsemi sinna flokka, og þ. á m. framkvstj. Alþb. sem upplýsti að Alþb. ætti bókstaflega ekki neitt, það ætti bókstaflega ekki neitt, það hefði verið rekið af stuðningsmönnum sem mynduðu félög sérstaklega til þess að styrkja það á þeim sviðum sem það þurfti stuðnings á hverjum stað. Hvort það var blaðið úti í einu horni, flokkurinn eða flokksstarfsemin í öðru eða þá hvort það eru hlutafélög, sem eru ferðafélög eða byggingarfélög; ég skal ekki segja hvort það er. En einn sjóður kom fram. Það er Minningarsjóður Sigfúsar Sigurhjartarsonar, sem rak húseignina að Tjarnargötu 20 áður en Reykjavíkurborg keypti hana og fékk svo í makaskiptum lóðir og fleira á Grettisgötu og kannske viðar, ég skal ekki segja um það hvert hann hefur breitt út vængi sína. Sjá sjóður styrkir til minningar um Sigfús Sigurhjartarson sem var góður flokksmaður, tryggur stuðningsmaður og flokksfélagar vilja halda uppi nafni hans áfram á sama hátt og drengir Ármanns heitins vildu halda á lofti minningu föður síns. Það skyldi þó ekki vera eitthvert samhengi í hugsunum annars vegar Alþb.-manna, sem vilja halda merki þessa merka stuðningsmanns síns, og hins vegar drengjanna, sem styrkja Sjálfstfl. í minningu föður síns? Ég held að það séu þarna vissar hliðstæður.

Ég vil þá líka að það komi fram að Sjálfstfl. samþykkti till. frá mér um að vísa þessu máli til sakadómara, og ég hef óskað eftir því við sakadómara, sem mig yfirheyrði á sínum tíma, að þessu máli yrði haldið gangandi þangað til sakborningur fyndist og málið væri upplýst og rannsakað í allar þær áttir sem Alþb.- menn, sem reyna að gera mig persónulega og Sjálfstfl. tortryggilega, óskuðu eftir, því verði haldið áfram svo lengi sem þeir óski eftir, en að þeirri rannsókn lokinni verði ég annaðhvort dæmdur eða þeir sem ég kalla slefbera og mannorðsþjófa og ég hef orðað öðruvísi á öðrum stöðum. Það er líka í lögum ákvæði um það hvernig með slúður-eða slefbera er farið.

Ég skal ekki segja um hvort það er rétt að halda áfram á þeirri braut sem íslendingum er svo tamt að reyna að stytta þann langa og teygja þann stutta. Það er talað um með fyrirlitningu ef fjársterkir aðilar gefa til flokka sinna. Hverjum kemur það við, ef maður hefur aflað sér fjár, ef hann á eitthvað eftir? Hann hefur fullkomna heimild til þess að ráðstafa sínum tekjum eins og hann vill. Og ég get upplýst það hérna að á tveimur landsfundum Sjálfstfl. skipta þeir orðið hundruðum, ég hugsa að ég færi réttara með ef ég segði þúsundum, sem hafa lagt fé í Sjálfstæðishúsið, og þeir skipta orðið þúsundum, þegar teknir eru saman einstaklingar og fyrirtæki um land allt, sem hafa lagt í Sjálfstæðishúsið, og ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut athugavert við það. Ég sé heldur ekkert athugavert við það að flokksmenn annarra félaga styðji sína flokka. Það er kannske meira athugavert við það þegar flokkar leita út fyrir sínar raðir, eins og ég gat um áðan að Alþfl. hefði leitað til mín með stuðning og ég stutt hann. Það er kannske óeðlilegra. En ég sé ekkert að því. Ég er frekar á móti ríkisframlögum í slíkt, ég tel þau óeðlileg. En það getur vel verið að það sé hægt að finna í því kerfi eitthvað sem er enn þá betra en það sem við búum við. Ég skal ekkert um það segja og bíða með að dæma það þangað til ég sé þær till. sem boðaðar hafa verið að fram muni koma hér.

En það er nokkuð langt gengið ef það á að fara að elta uppi fólk og dæma kannske sem afbrotafólk fyrir það eitt að styrkja sinar hugsjónir og sína flokka. Sem betur fer og að sjálfsögðu kemur engum til hugar að furða sig á því að Sjálfstfl. er stór og sterkur. Það er eðlilegt. Þetta er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur alíslenska stefnu. Hitt eru allt boðberar einhvers isma, hvort það er sósialisma eða kommúnisma eða samvinnuhreyfingarinnar líka. Það er ekki íslensk stefna, þó að hún sé orðin meira íslensk sem betur fer en hinar stefnurnar. Sjálfstfl. er sá eini flokkur sem virkilega hefur alíslenska stefnu á sinni skrá og er alíslenskur flokkur, og því er ekki hægt að líkja honum við erlenda flokka, eins og kom fram hér áðan. Það er afskaplega lítið til um samlíkingar þar. (Gripið fram í.) Kapítalismi, hann er allt annað mál. Ég held að Sjálfstfl. sé ekki síður flokkur verkafólks en kapítalisma. Ég veit ekki hvaða kapítalismi er til á Íslandi. Hvað er kapítalismi? Við tölum um atvinnurekendur sem kapítalista. En nú skulum við taka, hvað er kapítalismi? Ég hef stundum skilgreint í borgarstjórnarumr. hvað er verkalýðsrekandi: maður sem er búinn að safna saman í samtök fólki sem borgar honum öll gjöld, öll laun og allan kostnað. Hann rekur fólkið sjálft á sama hátt og þessi voldugi atvinnurekandi rekur sitt fyrirtæki. Við skulum segja að það séu kapítalistar. Það eru hinir virkilegu kapítalistar sem þurfa ekki að hafa einu sinni fyrir því að byggja upp fyrirtæki, heldur bara láta fólkið sjálft borga sig inn í sjóði og lifa af því. Það eru kapítalistar. Þeir ráða yfir sjóðunum, stóru sjóðunum fólksins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að sinni, en ég vil bara leiðrétta eitt til viðbótar, að ég álít að Morgunblaðið hafi aldrei á einn eða annan hátt reynt að skella skuldinni á einn þm., — ég reikna með að það hafi verið ég sem átt var við — í sambandi við þetta Ármannsfellsmál og gera hann einan ábyrgan. Ég er formaður byggingarnefndar, ég gegni ýmsum trúnaðarstörfum fyrir minn flokk og ég hef tekið það að mér með mestu ánægju og mun halda áfram að vinna mínum flokki eins vel og ég get á þann hátt sem ég tel heiðarlegt hverju sinni, eins og ég hef alltaf gert. Og ég veit að þm., hvar í flokki sem þeir eru, munu taka að sér verkefni ef þeirra flokkar fela þeim það. En ég tel frekar að Morgunblaðið hafi stutt mig en skellt á mig skuld í þessum málum.

Ég veit ekki hvort þetta á að verða samtalsþáttur, herra forseti, en ég verð að óska eftir því við flm. að fá að svara honum privat frekar en að gera Alþ. að því sem hann hefur reynt að gera það, enn þá lægra en það er í hugum fólksins.