31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

226. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er meiri nýsmíði en það sem ég mælti fyrir hér áðan því að það hefur ekki legið áður fyrir Alþ. Hins vegar má segja að því sé ætlað að koma í staðinn fyrir löggjöf sem gilt hefur um stuðning við áhugaleikstarfsemi, og að því leyti er hér ekki um algjöra nýjung að ræða, að áður hefur verið fjallað um þetta viðfangsefni í íslenskum lögum.

Aðdragandi þessa máls er í fáum orðum þessi: Í febr. 1972 var samþ. á Alþ. svofelld þál.: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að taka til endurskoðunar lög nr. 15 frá 1965, um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna.“ Haustið eftir skipaði þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, 5 manna nefnd til þess að undirbúa málið og var Knútur Hallsson skrifstofustjóri formaður n. — Ég vil geta þess hér að það hefur orðið prentvilla í þskj. eða þá ritvilla hjá okkur í rn., og þar stendur Gylfi Þ. Gíslason, en hann var að sjálfsögðu ekki ráðh. þegar n. var skipuð haustið 1972, ég hef gert ráðstafanir til að láta leiðrétta þetta í þskj. — Þessi n. samdi frv. til leikhúslaga, eins og hún kallaði það, og fylgdi því grg., sem prentuð er sem fskj. með þessu frv., svo og þau frumvarpsdrög sem þessi nefnd samdi. Mér þótti hins vegar eftir töluverða yfirvegun rétt að víkja verulega frá tillögum n., einkum að því er varðar starfssvið leiklistarráðs sem er greint frá í þessu frv. Því var ætlað meira starfssvið í frv. n. og mér fannst eins og því væri ætlað að nokkru leyti að koma í staðinn fyrir eða við hliðina á og þá að óþörfu Bandalagi íslenskra leikfélaga.

Þessu frv. er ætlað að marka í megindráttum hversu haga beri stuðningi ríkisvalds og sveitarfélaga við leiklistarstarfsemina í landinu. Í því eru hins vegar engin fyrirmæli um fjárhæðir framlaga, en það er gert ráð fyrir að þær verði ákveðnar í fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga hverju sinni. Þetta er aðeins rammi.

Annað meginatriði frv. er að stofna skuli leiklistarráð með aðild þeirra sem ætla má að einkum láti leiklist til sin taka. Því er ætlað að vera vettvangur skoðanaskipta og umræðna um leiklistarmál og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma. Þá er gert ráð fyrir því að leiklistarráðið kjósi 3 manna framkvæmdastjórn. Leiklistarráðið á að vera ólaunað, en greiða skal þóknun fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna á stjórnarfundi. Hér er um svo óverulegar fjárhæðir að ræða, þóknun til þessara stjórnarmanna, að ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að gera um það sérstaka áætlun hjá hagsýslu. En ef þess verður óskað af n., þá verður það að sjálfsögðu gert. En það er ekki gert ráð fyrir öðrum útlögðum kostnaði úr ríkissjóði heldur en þóknun fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnaði utanbæjarmanna.

Um þessar mundir er töluvert mikil gróska í leiklistarstarfsemi íslendinga. Ég get nefnt alveg sérstaklega, sem mér finnst gefa bendingu um að það sé talin þörf á því að hafa slíkan vettvang til skoðunarskipta einmitt um leiklistarmálin, að fyrirhugað er að halda ráðstefnu eða þing um þessi málefni í Reykjavík núna á útmánuðum. En ég held að það sé ekkert of mikið sagt að það sé mikil gróska í leiklistarstarfsemi íslendinga. Starfsemi Þjóðleikhússins hefur verið öflug, og eins og ég sagði áðan: nýting hússins hefur verið mjög góð á undanförnum missirum. Leikfélag Reykjavíkur rekur atvinnuleikhús með mikilli prýði. Leikfélag Akureyrar er að færast yfir á það svið einmitt núna. Starfsemi Bandalags íslenskra leikfélaga t.d. hefur færst mjög í aukana á síðustu missirum bæði hefur félögum fjölgað og starfsemi bandalagsfélaganna aukist og svo leiðbeiningar- og fyrirgreiðslustarfsemi bandalagsins sjálfs. Þessi almenna leiklistarstarfsemi er áreiðanlega ekki siður athyglisverð heldur en starfsemi áhugaleikhúsanna, því að hún hefur að mínum dómi og margra annarra mjög mikið uppeldislegt og félagslegt gildi fyrir fólkið í hinum dreifðu byggðum. Mér þótti eftirtektarverð setning sem formaður bandalagsins sagði við mig nýlega, var að mæla fyrir auknum stuðningi við bandalagið: Við erum mötuð á svo mörgu að það veitir ekki af að styðja viðleitni til eigin listsköpunar og túlkunar. Í þessari setningu fannst mér vera mikill sannleikur. Og það er fleira sem hefur verið að gerast á þessum sviðum að undanförnu. Það hefur verið stofnaður Leiklistarskóli ríkisins sem tekur við af tveim einkaskólum sem starfað höfðu undanfarna vetur. Það má ef til vill segja að það séu eins og stendur í dag óeðlilega margir við leiklistarnám. En því valda þessar sérstöku ástæður, að það höfðu verið starfandi tveir skólar eftir undangengið hlé. Og það má benda á þar á móti að það hafa ekki að undanförnu útskrifast neinir leikarar hér með menntun til starfa í atvinnuleikhúsunum og sem leiðbeinendur svo að það hefur myndast þarna dálítið tómarúm. Þá hefur nýlega verið stofnað svonefnt Alþýðuleikhús og það er byrjað sína starfsemi, og nemendur Leiklistarskólans hafa stofnað sitt nemendaleikhús sem þeir nefna svo, og hafa sýnt sitt fyrsta leikrit alveg nýlega og eru kannske að því enn. En sem sagt, þegar þannig er ástatt, þá held ég að það sé alveg tímabært að setja rammalöggjöf annars vegar um stuðning hins opinbera við leiklistina og svo jafnframt að efna til starfsemi á borð við þá sem áformuð er með leiklistarráði og framkvæmdastjórn þess.

Enda þótt þetta frv. til leiklistarlaga sé ekki viðamikið og láti ekki mikið yfir sér, þá hygg ég þó að leiklistarfólkið í landinu telji verulegan ávinning að lagasetningu í þá stefnu sem þetta frv. greinir. Ég fjölyrði svo ekki frekar um málið, en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.