04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki draga þessar umr. á langinn, en kemst ekki hjá því að segja örfá orð.

Mig langar fyrst til að taka undir meginefni í ræðu hv. 5. þm. Reykv. um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka og löggjöf í því efni. Raunar gat ég um það strax í grg. með því frv., sem rætt var hér í gær, að mín skoðun væri sú að þetta þyrfti að gera, og það er vissulega ánægjulegt ef nú hafa einhverjir þm. frumkvæði að því að flytja slíkar till. og að þessu máli verði unnið. Hins vegar kemst ég ekki hjá að andmæla skoðun þm. á blaðakaupunum eða blaðastyrkjunum sem hv. þm. vildi nefna útgjöld ríkisins til blaðakaupanna. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði grein fyrir því áðan að blöðin láta þjónustu í té í staðinn fyrir þetta fé, og ég held að það sé áreiðanlega alveg rétt hjá honum að blöðin mundu ekki tapa neinu á því að það form yrði á haft að ríkið keypti þau blöð sem það þarf á að halda. Það er orðin venja að blöð séu t. d. á sjúkrahúsum og ýmsum stofnunum, hér í Alþ. og víðar. Ég held að ríkið þurfi það mörg blöð að það ætti hver stofnun fyrir sig að greiða fyrir blöðin. Það væri langsamlega eðlilegast að það kæmi ekkert í gegnum ríkiskassann af neinu tagi, það væru bara stofnanirnar sem greiddu fyrir þau blöð sem þær þyrftu hver um sig á að halda, svo þyrfti ekkert að vera að þjarka meira um þetta mál. Þetta er a. m. k. mín skoðun og hefur alltaf verið. Ég hef alltaf verið á móti því að þetta yrði gert með þessum hætti.

Ég skal ekki þjarka mikið við kunningja minn úr Norðurl. v., hv. 5. þm. Norðurl. v. Auðvitað er honum það jafnljóst og öllum öðrum, t. d. flokksbróður hans, hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, sem vakti á því athygli hér í gær að frv. bæði, sem ég hef flutt, eru samtengd. Það er ekki hugmyndin að neinar till. í þessum frv. færu að verka aftur fyrir sig og Ármannsfell ætti að fara að græða eitthvað á þessu eða eitthvað slíkt. En þar að auki virtist mér hann enn ekki skilja að það er sett þarna ákveðin prósenta. Hann nefndi í lok síðari ræðu sinnar að Ármannsfell gæti greitt 1 millj. Ef það græddi nú eina millj. og þetta væri allt í gildi og vildi gefa Sjálfstfl. eða einhverjum öðrum flokki skattfrjálst fé, þá væru það 50 þús. kr. (RA: Það þarf að græða 10 millj., það er rétt.) Jæja, þá er kominn skilningur á það. En ég vil undirstrika að ég tók það mjög rækilega fram í gær að þessi prósenta væri ekkert sáluhjálparatriði hjá mér og að ég væri til umr. um að setja þak á þetta, eins og ég orðaði það. Það varð að setja þarna einhverja tölu til umr., til þess að ræða við aðra menn í n. Það er meira að segja tekið fram í grg. að ég ætlist til þess að þessu sé breytt fram og til baka. En sem sagt, það er kominn skilningur hjá þm. á þetta núna, virðist mér, og það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt.

En mín skoðun er sú að það muni ekki verða fyrirtæki sem hagnist verulega á því að geta greitt peninga skattfrjálsa. Eins og þm. gat um, þá eru þau ekki með tekjuskatt mörg hver. Það er vissulega ömurleg staðreynd að því skuli vera þannig háttað. Öll þau fyrirtæki sem engan tekjuskatt greiða, þetta lagaákvæði væri þeim óviðkomandi, þau nytu einskis góðs af því. Ég held, að það sé fólkið með miðlungstekjur og heldur lægri tekjur, sem langar til að styrkja sína flokka, sem mundi muna meira um þetta og taka meira eftir því, ef það gæfi 5 þús. kr. eða 10 þús. kr., að það fengi það skattfrjálst. Þetta er að sumu leyti ekki ósvipað og er með félagagjöld í verkalýðsfélögunum t. d. Þau eru frádráttarbær. Ef almenningur í stjórnmálaflokkunum mætti hafa frádráttarbær ársgjöld, þá má eins kalla það eins og einstakar gjafir, þetta er allt til umr. En ég held að það ætti mjög að hugleiða að það er fjöldinn allur af fólkinu, miðlungstekjufólkið og það sem þaðan af lægri tekjur hefur, sem mundi muna um þetta. Hinir mundu ekki hugsa svo mikið út í það til eða frá. Auðmanni er nokkuð sama hvort hann gefur hundrað þúsund kallinn skattfrjálsan eða borgar skattinn.